23.01.1948
Neðri deild: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef flutt þetta frv. ásamt tveimur öðrum þm. fyrir mjög eindregin tilmæli bæjarstjórnarinnar á Ísafirði. Það fer fram á, að ríkið veiti bæjarstjórninni einkaheimild til að reisa hitaaflstöð á Ísafirði og heimiluð verði ríkisábyrgð vegna þessarar framkvæmdar, allt að 5.5 milljónum króna, þó ekki yfir 90% af stofnkostnaði, enda samþykki ríkisstj. lánskjörin.

Nú er í þessu frv. það nýmæli, að ætlazt er til; að reist verði hitaveita fyrir kaupstaðinn, þannig að hitinn fáist frá olíukyntri miðstöð. Reist yrði eimtúrbínustöð, sem hvort tveggja í senn sæi íbúum kaupstaðarins fyrir rafmagni ásamt þeim vatnsaflsvélum, sem fyrir eru, og heitu vatni til húsahitunar, því að núverandi rafstöð nægir ekki nándar nærri, og er m.a. skýrt frá því í grg. þessa frv., að hvað eftir annað hafi þurft að loka fyrir strauminn um lengri eða skemmri tíma á sólarhringnum að vetrinum til. Þetta er náttúrlega ákaflega bagalegt fyrir þá, sem nota rafmagnið til ljósa og suðu, og þó enn þá bagalegra fyrir sjávarútveginn eða þau iðjuver, sem rekin eru í sambandi við hann, hraðfrystihús og fleira, en eins og kunnugt er, er nauðsynlegt að fá sem mestan gjaldeyri fyrir sjávarafurðir okkar, og því er nauðsynlegt, að fiskiðjuver þurfi hvorki að stöðvast né afurðirnar að skemmast þar sökum raforkuskorts. Jafnan veiðist vel þar vestra, og væri því mikill skaði fyrir kaupstaðinn og útflutning landsins yfirleitt, ef ekki reyndist hægt að halda þar uppi sæmilegri útgerð og fiskvinnslu sökum rafmagnsskorts. Úr rafmagnsþörfinni hefur verið reynt að bæta með því að virkja þrjár smáár, og við þær eru uppistöður, sem eru svo hátt, að þegar ekki rignir, verður skortur á vatni, og þá verður, eins og ég lýsti áðan, að draga úr allri rafmagnsnotkun.

Nú hafa verið gerðar rannsóknir á Dynjandifossunum í Arnarfirði að undanförnu að tilhlutan sveitarfélaga á Vestfjörðum, en niðurstöður þeirra rannsókna hafa leitt í ljós, að sú heildarvirkjun fyrir Vestfirði er ekki eins álitleg og vonir stóðu til, eða allmiklu dýrari en gert var ráð fyrir í fyrstu, og þar fást ekki nærri eins mörg hestöfl virkjuð og haldið var þá, en það voru 30 til 60 þús. hestöfl. En vatnsmælingar á seinni árum benda á 7 til 8 þús. hestöfl. Þegar ekki er hægt að virkja meira og þar við bætist, að virkjun þessi yrði mjög dýr, eða 30 til 40 milljónir, miðað við núverandi verðlag, eru engin líkindi til, að hún muni bæta úr rafmagnsþörf á Ísafirði eða annars staðar vestra á næstunni, bæði vegna þess, að aflið er ekki meira og kostnaðurinn tiltölulega mikill. Menn verða því að snúa sér að því að leysa þörf hvers kauptúns fyrir sig, þó að það sé mjög miður farið og heppilegra hefði verið á allan hátt, ef unnt hefði verið að virkja fyrir alla Vestfirði í einu. Ég vil þó ekki telja útilokað, að það sé kleift, en eins og sakir standa, benda upplýsingar í aðra átt.

Að öðru leyti get ég vísað til grg. þessa frv., og ég skal viðurkenna, að sjálfsagt þarf að gera margvíslegar athuganir, áður en í þessa framkvæmd er ráðizt. Málið hefur verið sent til umsagnar raforkumálastjóra, og telur hann ýmislegt mæla með þeirri leið, sem hér er lagt til, að farin verði, en bendir þó á, að ástæða sé til nokkru nánari athugana ýmissa atriða í þessu sambandi.

Mér er ekki vel ljóst, í hvaða n. þetta mál ætti helzt heima. Ég hugsa mér helzt fjhn., vegna þess að hér er farið fram á ríkisábyrgð á láni, en einnig má vera, að málið ætti að fara til iðnn., og skýt ég því til hæstv. forseta að athuga það. En ég óska eftir því, að málinu verði vísað til n. að lokinni umr.