23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Hermann Jónasson:

Út af ummælum, sem hér féllu í sambandi við afgreiðslu þessa frv. og störf n., sem ég er í, vildi ég segja nokkur orð.

Ég gerði það, sem óskað var eftir af n., að ræða við hæstv. fjmrh., og spurði hann, hvort málið hefði verið rætt við ríkisstj., og hann kvað það ekki hafa verið gert. Ég sagði þá, að við vildum vita, hver afstaða ríkisstj. væri til málsins, þar sem í frv. væri farið fram á allmikla lánsheimild, eða 5,5 millj. kr. Þá svaraði hann því, að sér væri málið ókunnugt á þessu stigi og yrði n. að taka afstöðu til þess upp á eigin spýtur. — Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi gleymt þessu, þar sem ríkisstj. hefur í svo mörgu að vasast og svo margt hefur verið við hana rætt nú undanfarið.

Ég treysti mér ekki til þess nú á tveimur síðustu dögum þingsins að taka afstöðu til þessa máls og treysti mér ekki til að greiða atkvæði með því í n., og ég geri ráð fyrir, að ef þessi hv. þd. telur rétt að afgreiða þetta mál í slíku skyndi, þá treysti ég mér ekki til að taka þátt í því án frekari upplýsinga.