23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál lengi. Eins og ég lýsti við 2. umr., mun ég flytja 2 brtt. við þetta frv., í fyrsta lagi, að 2. gr. falli niður, og hina við 7. gr., að í stað 90% komi 85%. Bent hefur verið á, sem rétt er, að þetta hafi verið sniðið eftir l. nr. 38 frá 1940, um hitaveitu Reykjavíkur. 2. gr. er tekin upp samhljóða, að bæjarstjórnin hafi heimild til að banna að hita upp með öðru en hitaveituvatni. Þetta tel ég rétt að fella niður, og hefur Reykjavikurbær ekki séð sér fært að framfylgja þessu atriði. Verður því að taka tillit til reynslunnar. Þá tel ég, að þessar 2 hitaveitur séu ekki sambærilegar. Í öðrum staðnum er notað heitt uppsprettuvatn frá jörðinni og þannig sparaður gjaldeyrir í stórum stíl. Er því eðlilegt, að þetta atriði gildi um hitaveitur, sem nota heitt uppsprettuvatn. En um hina gegnir allt öðru máli, þar sem flytja þarf inn erlent eldsneyti. Ef til vill er hægt að hita ódýrara á annan hátt og spara þannig enn meiri gjaldeyri. Sé ég því ekki ástæðu til að samþykkja það. Ég vil því, að hámarkið sé 35% í samræmi við raforkulögin. Það er undarlegt, að þeir menn, sem byggt hafa upp frv., skuli ekki hafa athugað, að rafmagnsveitur eiga að njóta sömu hlunninda, þótt það sé í öðrum lögum, og er því nauðsynlegt að krefjast þess sama hér. Er því eðlilegast að breyta þessu þegar. Bent var á, að í l. nr. 38 frá 1940, um hitaveitu fyrir Reykjavík, væri ekki takmark sett, en ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allar skuldbindingar í sambandi við hitaveituna, allt að 9 millj. kr. dönskum eða jafnvirði þeirra. Hér var ekkert ákvæði um 85% eða 100%. Hitaveitan kostaði miklu meira en 9 millj. En þetta er ekkert sambærilegt. Þá var um að ræða að hita upp heilan bæ með jarðhita. Því er ekki þannig farið á Ísafirði. Þar á að flytja inn erlent eldsneyti. Og þegar þetta er borið saman við vatnsveitur í bæjum, þá kemur í ljós, að þar er ábyrgð aðeins veitt fyrir hlutum kostnaðar við aðalvatnsæð og geyma, en ekki fyrir bæjarkerfið. en hér er farið fram á ábyrgð fyrir dreifingu í hvert hús. Þessu verður að breyta. 85% er of hátt, hvað þá .90%. Ég ætla ekki að tefja þetta lengur, en vona, að brtt. mínar við frv. verði samþ.