23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. upplýsti í deildinni. að þau tvö atriði í frv., sem helzt hafa orðið að ásteytingarsteini, að allir séu skyldir til að nota heita vatnið og 90% ábyrgðin styðjist við l. um hitaveitu Reykjavíkur, hið fyrra algerlega, en hið síðara þannig, að í sambandi við hitaveitu Reykjavíkur sé ábyrgðin 100%. Nú hefur hv. þm. Barð. borið fram brtt. um að fella 2. gr. niður, en það hefur í för með sér, að menn á hitaveitusvæðinu eru ekki skyldir til að nota hitaveituna, sem gerir það að verkum, að miklu vafasamara er, hvort hún ber sig, þegar ekki er hægt að byggja á því, að allir íbúarnir noti hana. Ef brtt. verður samþ., er því fjárhagslegur grundvöllur fyrirtækisins ótryggari. Varðandi hina brtt. um, að í stað 90% komi 85%, má geta þess, að áðan kom hér fram yfirlýsing í samráði við Sigurð Bjarnason og fjmrh. Hefði ég því ekki talið till. þörf og lítinn greiða við málið. Hefði hv. flm. átt að láta sér nægja þær yfirlýsingar, sem þar komu fram. Hins vegar hefði ég ekki verið á móti, að þetta kæmi fram, ef málið væri ekki komið í eindaga. Vil ég því mælast til, að hv. flm. taki till. sínar aftur.