19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

129. mál, fjárlög 1948

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt þremur öðrum þm., að flytja brtt. á þskj. 582. Hún fjallar um styrk til Rímnafélagsins. Eins og hv. þm. vita, er þetta ungur félagsskapur, sem hóf starf sitt á s.l. hausti. Félagið er þess vegna barn í reifum, og verður tæplega við því búizt, að mikið liggi eftir það. En í ráði er, að það hefji útgáfu rímna, eftir því sem tóm vinnst til og fjárhagsgeta leyfir. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. viti þegar nokkur deili á þessu félagi og tilgangi þess og hafi fengið bréf frá félaginu, þar sem þetta er rakið. Nú um skeið hefur þessi bókmenntagrein ekki verið metin né henni sinnt eins og skyldi, því að hún er hin merkasta. Á þeim öldum, er svo var kreppt að þjóðinni, að hún hafði lítið að lesa, var þetta sú bókmenntagrein, sem Íslendingar ræktu og höfðu aðgang að og notfærðu sér út í æsar. Við eigum því þessari grein bókmennta e.t.v. mest að þakka varðveizlu tungunnar á því tímabili, þegar hungur, drepsóttir og hallæri steðjuðu að og möguleikar þjóðarinnar til að afla sér bóka voru því nær engir. Erlendir fræðimenn, sem kynni hafa af bókmenntum okkar, telja þessa bókmenntagrein standa langtum framar en hliðstæðar bókmenntagreinir með öðrum þjóðum. Frægir menn gefa henni þennan vitnisburð. Þegar danskir fræðimenn minnast á bókmenntir okkar, þá dá þeir okkar fornbókmenntir, en segja, að frá þeim tímum, sem rímurnar urðu til, eigum við engar bókmenntir. Englendingar og Þjóðverjar aftur á móti hafa kveðið upp þann dóm, að rímurnar séu hin stórmerkasta bókmenntagrein, og munu þeir ekki siður dómbærir á það.

Enda þótt þessari bókmenntagrein hafi litið verið sinnt hér undanfarið. þá er það ekki að marka. Við höfum verið að komast á legg og haft mörgu að sinna. En undir eins og nýrri bókmenntir okkar fá festu og bókmenntalíf eflist í bæjum okkar, þá verður þessi bókmenntagrein áreiðanlega miklu meira rækt en nú er. Við höfum verið helzt til tómlátir um að sýna henni verðskulda virðingu og rækt, en það er ekki úrhættis enn.

Þetta félag hefur það á stefnuskrá sinni að gefa út rímur. Handrit eru mýmörg í söfnum, og hinir beztu fræðimenn okkar hafa verið ráðnir til þess að annast útgáfu þeirra og verður vandað til hennar eins og kostur verður á. En þar sem starf félagsins er í byrjun, hefur það auðvitað ekki úr miklu fé að spila, en bókaútgáfa er nú hins vegar mjög dýr, og fjárskortur háir því starfseminni mest. Nú hefur Alþ. sýnt það viðsýni og þann skilning gagnvart félögum, sem mynduð hafa verið til bókaútgáfu, að láta þau njóta nokkurra styrkja. Ég vona því, að Alþ. vilji ekki síður sýna þessari grein bókmennta verðskuldaðan sóma en öðrum, með því að styrkja slíka útgáfu. Við höfum haft fjárbeiðnina hóflega, því að Alþ. hefur í mörg horn að líta, en minni upphæð gátum við þó ekki farið fram á. Ég vil vænta þess, að hv. Alþ. sýni hér góðan vilja og skilning, og það því fremur, sem víðfrægt er fyrr og síðar, hve ljóðelskir við séum, Íslendingar, og eigum mikil skáld. Og einmitt af því, að sú list hefur aldrei dáið, þrátt fyrir allar hörmungar, sem dunið hafa yfir þjóðina, höfum við varðveitt okkar auðugu tungu, en í þeirri varðveizlu eiga rímurnar ekki hvað minnstan þátt. Ég vona því, að hæstv. Alþ. sýni fullan skilning þessari málaleitun okkar.