11.12.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn 2. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég get ekki svarað henni nema að litlu leyti. — Hann spurði í fyrsta lagi að því, hvort frétt sú, sem birt er í Þjóðviljanum í morgun, væri rétt. Um það atriði veit ég ekki, enda er ég manna ólíklegastur til að svara því, hvort fregnir, sem Þjóðviljinn birtir. séu réttar, og tel, að það standi nær einhverjum öðrum. En um hitt atriðið, hvort frétt þessi sé birt í samráði við ríkisstj., þá get ég gefið þær upplýsingar, að það hefur engin ályktun verið gerð um þetta mál í ríkisstj., og ég hef ekkert heyrt um þetta nema það, sem Þjóðviljinn birtir í morgun. Ef þessi ummæli forsrh. eru rétt hermd, þá eru þau hans persónulega prívatskoðun, en ekki ályktun frá ríkisstj., því að eins og ég hef tekið fram, hefur ríkisstj. ekki tekið afstöðu til þessa máls.