06.02.1948
Neðri deild: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Eins og ég tók fram áðan, hef ég ekki aðrar fregnir af þessu máli en þær, sem standa í Þjóðviljanum, og af gömlum vana teldi ég rétt að athuga fyrst, hvort í alla staði sé rétt með þetta farið. Það væri því fyrst að athuga, hvað forsrh. hefur raunverulega sagt, en síðan mætti athuga, hvort ástæða væri til að senda leiðréttingu. Að öðru leyti vil ég segja það, að þótt ég telji, að hér muni vera um persónulega skoðun forsrh. að ræða, ef þessi frétt er rétt, þá býst ég við, að margir muni vera sömu skoðunar, og áður en ástæða væri til að „dementera“, þyrfti að ganga úr skugga um, hvaða stefna yrði tekin í þessu máli. Ég skal ekkert segja um, hvert sú skoðanakönnun leiddi, en hitt er víst, að það eru margir sömu skoðunar og forsrh. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. muni athuga þetta mál á næstunni, afla sér upplýsinga og taka það síðan til meðferðar í utanrmn., ef ástæða þykir til, ekki vegna ummæla forsrh. sérstaklega, heldur vegna þess, að það getur dregið til þess, að Íslendingar þurfi að taka afstöðu til málsins.