20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á miðju síðasta Alþ., eða í janúar 1947, flutti ég till. til þál. um síldarbræðsluskip á þskj. 344. Í þessari þáltill. var lagt til, að Alþ. skoraði á ríkisstj. að athuga, hvort tiltækilegt væri að kaupa skip, sem setja mætti í síldarbræðsluvélar. Þegar þessi till. var flutt, var hæstv. núverandi sjútvmrh. formaður þeirrar n., sem þessu máli var vísað til. Síðar varð hann sjútvmrh., og tók þá annar hv. þm. við formannsstarfi í n. — Ég spurðist nokkrum sinnum fyrir um meðferð þessa máls í fyrra og fékk vitneskju um, að málið hefði aldrei verið tekið til meðferðar í n. Þinginu lauk svo, án þess að nokkurt álit kæmi um það. Þess vegna flutti ég þessa sömu þáltill. í upphafi þessa þings, óbreytta á þskj. nr. 25. og síðan var henni vísað til n., og hefur hún verið í n. síðan. Í morgun var hins vegar útbýtt í hv. Nd. frv. til l. um kaup á skipi til síldarbræðslu o. fl., og er hæstv. sjútvmrh. 1. flm. þessa frv., sem er flutt í hv. Ed. — Ég spurðist fyrir um það, hvort nokkurt samráð hefði verið haft við n., sem tók við þáltill. minni, um þetta mál, hvort nokkuð hafi verið grennslazt um það hjá þeirri n., hvaða afgreiðslu þáltill. mín hafi fengið, og ég hef fengið þau svör, að það hafi ekki verið gert. Mér vitanlega hefur a.m.k. ekki við form. þessarar hv. n. verið nefnt á nafn neitt um flutning þessa frv., sem flutt hefur nú verið í hv. Ed. af hæstv. ráðh. og tveimur öðrum hv. þm. En á grg. þessa frv. sést, að hæstv. sjútvmrh. hefur látið fara fram rannsókn á því, hvort tiltækilegt væri að setja vélar í skip til þess að nota það til síldarbræðslu. — Um leið og ég spyrst fyrir um það, hvað líði afgreiðslu n. á þessari þáltill. minni, sem ég flutti á þessu þingi, vil ég láta í ljós mestu furðu mína á meðferð þessa máls. Ég hygg, að ekki verði annað sagt en að það séu undarleg vinnubrögð, að þegar mál kemur tvívegis fram, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta fara fram tilteknar athuganir, þá skuli því máli af hálfu viðkomandi aðila ekki vera sinnt í neinu, en þó gerðar bak við tjöldin þær athuganir, sem þarna er um að ræða, en till. síðan flutt í frv.formi án þess að virða þá n., sem um málið er að fjalla, nokkurs viðtals, og þá auðvitað ekki heldur flm. málsins, sem n. er að fjalla um. Mér finnst þessi aðferð í mesta máta furðuleg, og vil ég átelja mjög þann skort á góðum þingsiðum, sem kemur fram í þessari meðferð málsins, og raunar skort á almennum mannasiðum líka.