20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. gengur lítið að batna. Af því að honum verður svo tíðrætt um allshn. í þessu sambandi, þá er rétt að geta þess, að ég mun hafa kannske einhvern tíma í fyrra setið í allshn. En það voru svo að segja strax mannaskipti, og annar maður tók við mínu starfi í n. löngu áður en til mála kom að afgr. till., sem vísað var til n. Og satt að segja man ég ekkert um það nú á þessari stundu, hvort þetta merkilega plagg frá hv. 4. þm. Reykv. var þá komið til n. Annars ætti þessi hv. þm. að vita það, að máli eins og þessu frv., sem hér hefur verið um talað og borið er fram í hv. Ed., því mun alls ekki verða vísað til allshn. og sízt til allshn. Sþ. Þessi mál fara vitanlega til sjútvn. Og ég ræddi við sjútvnm. í hv. Ed. um þetta frv., sem ýmist vildu flytja það með mér eða þá vissu af því, að ég ætlaði að flytja það. (PO: Og sjútvnm. í Nd. líka.), — og sjútvnm. í hv. Nd. líka, enda heyra slík mál undir sjútvn. Það er þess vegna tæplega svara vert, sem þessi hálærði hv. 4. þm. Reykv. er hér að bera fram. Hann sýnir það, að hann þekkir ekki gang mála í þinginu og veit eiginlega ekki neitt um það, hvaða nefndir eiga að taka við hvaða málum. — Það er svoleiðis fáránlegur kjánaskapur, sem ég leyfi mér að segja, af hv. þm. að vera að fyrtast út af þessu. Hvað hefðu þeir mátt segja, hv. þm. Siglf. og hv. 11. landsk. þm., sem fluttu sams konar mál á þinginu í fyrra um síldarbræðsluskip? Ekki var það að heyra á hv. 11. landsk. þm. hér áðan, að hann fyrtist við mig fyrir það, þó að ég flytti þetta mál nú, enda er ekki nauðsynlegt, þó að einhver hafi stungið upp á svona hlut, að taka hann upp til flutnings nákvæmlega á sama hátt. Það er hér í frv. í Ed. farið, eins og ég sagði áðan, inn á nýja leið í þessu efni, sem ég vona, að við nánari athugun muni reynast hagkvæmari og hafa minni kostnað í för með sér heldur en það, sem bæði mér og öðrum hefur oft dottið í hug áður og rætt hefur verið um, hin mikla, fljótandi síldarverksmiðja, sem menn hafa látið sig dreyma um. að landið gæti kannske eignazt, og ég skal ekkert dæma um á þessu stigi málsins. Þessi hugmynd, sem við þrír þm. í hv. Ed. höfum borið fram frv. um, mun fá sína nefndarafgreiðslu. — Og það er broslegt að þurfa að standa í umr. utan dagskrár um svona mál, bara af því, að hégómagirnd einhvers framgjarns þm. er eitthvað særð — af tómum misskilningi og vanþekkingu á þingmálum og venjum.