17.12.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

Orlofsfé þingmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Það eru aðeins örfá orð. Þeir tveir þm., sem orðið hafa aðnjótandi þessara launabóta, hafa gefið þá skýringu, að þeir gegndu engum fastlaunuðum störfum hjá ríkinu. Ég get þá ekki séð annað en að allir bændur, sem sæti eiga á þingi, ættu rétt á þessari orlofsfjárgreiðslu. Mér finnst, að þingfararkaupsnefnd ætti að taka þetta til athugunar. Út af þeim orðum hv. 2. þm. Reykv., að það sæti ekki á mér að koma fram með slíka fyrirspurn sem hér um ræðir, þar sem ég væri einn af hæst launuðu mönnum ríkisins, þá vil ég benda honum á, að ég hygg, að hann hafi tekið munninn helzt til fullan. Ég er á launum hjá háskólanum, hann hjá Sósfl., og ég hygg, að hann hafi hærri laun hjá flokknum en ég hjá háskólanum, en laun mín þar eru 11100 kr. á ári í grunnlaun. Auk þess á ég sæti í stjórnarskrárnefnd, en svo vill til, að hv. 2. þm. Reykv. á þar sæti líka. Hv. þm. þarf því ekkert að vera með neinn samanburð í þessu efni.