28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson) :

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Ég hef leyft mér að flytja frv. um breyt. á 12. gr. laga um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Þessi grein laganna fjallar um hlutverk viðskiptanefndar. og er það m. a. að úthluta innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Til leiðbeiningar nefndinni í þessu starfi setti Alþingi þessi fyrirmæli: „Sé úthlutun við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði eftir því sem frekast er unnt að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það að neytendur geti haft viðskipti sín þar sem þeir telja sér hagkvæmast.“

Svo mörg eru þau orð. Ekki hljóma þau illa. En með hliðsjón af fenginni reynslu og því, að nú hefur verið horfið að því ráðl. sem fyrr hefði átt að vera upp tekið að skammta allmargar vörur til neytenda, hef ég leyft mér að leggja til, að löggjafinn bæti við þessi fyrirmæli eftirfarandi orðum:

„Meðan fleiri eða færri vörutegundir eru háðar skömmtun til neytenda, skulu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til verzlana eða iðnfyrirtækja fyrir hinni skömmtuðu vöru vera í samræmi við afhenta skömmtunarseðla þeirra til viðskiptanefndar. Komi í ljós að verzlun eða iðnfyrirtæki hafi í byrjun skömmtunartímabils haft óeðlilega litlar birgðir skal veita henni fyrirfram leyfi eftir nánar tilteknum reglum.

Viðskiptamanni skal heimilt ef verzlun eða iðnfyrirtæki hefur eigi nægilega mikið af tiltekinni skömmtunarvöru til að fullnægja eftirspurn, að afhenda verzluninni skömmtunarseðla sína og fela henni að annast útvegun vörunnar fyrir sig, enda ber þá að veita henni innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til þess.“

Ég skal nú rekja meginrök fyrir þessari brtt. Ég geri ráð fyrir, að í orði kveðnu séu allir sammála um, að rétt sé og skylt að gera sérhverjum þegn frjálst að velja sér verzlun. velja um. hvort hann vill heldur verzla við kaupfélag eða kaupmann og þá hvaða kaupfélag eða hvaða kaupmann, þeirra er til næst. Enginn efi er á því að allur almenningur gerir sér þess ljósa grein hvað hagsmunum hans hentar bezt í þessu efni, og fái hann frelsi til að velja, munu vissulega skapast verzlunarhættir. sem hagkvæmir eru jafnt einstaklingunum sem þjóðarheildinni.

Á undanförnum áratugum hefur þjóðin verið að velja milli kaupmanna og kaupfélaga, og það orkar ekki tvímælis að frelsið til að velja milli þessara aðila hefur leitt til stórbættra verzlunarhátta. Nú standa sakir þannig, að 26 þúsundir manna hafa gerzt félagar þeirra kaupfélaga. sem mynda SÍS. Vörusala kaupfélaganna er í samræmi við þessa félagatölu. þ. e. a. s. hvað matvöruna snertir. Það hefur sem sé komið í ljós að Sambandið flytur inn vegna þessara félaga rúmlega helminginn af allri þeirri kornvöru. sem til landsins flyzt og milli 40 og 50% af sykri. Þessar tölur þýða að því sem næst helmingur þjóðarinnar óskar að fela kaupfélögunum að útvega sér matvörur, hinn helmingurinn kýs kaupmannaverzlun fremur.

En þetta var um matvöruna. Öðru máli gegnir, þegar farið er að athuga aðrar nauðsynjavörur almennings. svo sem vefnaðarvörur, búsáhöld. skófatnað, rafknúin heimilistæki, byggingarvörur, ávexti, hreinlætisvörur o. fl. Þá kemur í ljós að af þessum vöruflokkum flytur SÍS inn um 15%. en heildsalarnir um 85%.

Þegar þessar staðreyndir eru athugaðar, verður ekki komizt hjá að spyrja: Getur það verið að helmingur þjóðarinnar óski að fela kaupfélögunum að útvega sér matvörur, en aðeins sjöundi hver maður vefnaðarvörur, búsáhöld. skófatnað, heimilisvélar. byggingarefni o. s. frv.? Það er mjög ósennilegt.

Þá vaknar næst sú spurning hvor þessara vöruflokka sé betri mælikvarði á vilja fólksins. Hvort eru það heldur 50% þjóðarinnar eða 15%. sem vilja verzla við kaupfélög fremur en kaupmenn?

Félagatala SÍS bendir til þess, að 50% sé réttari mælikvarði. En þó er það annað, sem styður þessa skoðun enn betur. Aðstaða Sambandsins og heildsalanna til að flytja inn matvörur hefur frá upphafi vega og allt til þessa dags verið jöfn. Engar hömlur hafa verið lagðar á innbyrðiskeppni þeirra um þessar vörur. Bæði kaupfélög og kaupmenn gátu því fullnægt viðskiptavinum sínum á þessu sviði. Hér gat almenningur gengið frjáls til verzlunar og valið milli kaupfélaga og kaupmanna.

Hvað vefnaðarvöru, búsáhöld, skófatnað og aðrar slíkar vörur snertir, gegnir öðru máli. Í meir en áratug hafa allir þessir vöruflokkar verið háðir raunhæfum innflutnings- og gjaldeyrishömlum. Voldugar nefndir hafa af náð sinni úthlutað þessum leyfum. Niðurstaða þessara voldugu nefnda hefur orðið þessi: Sambandið skal fá 15%, þegar heildsalarnir fá 85%.

Af þessu hefur leitt, að kaupfélögin hafa sumpart alls ekki getað fullnægt eftirspurn félaga sinna hvað þessar vörur snertir, og sumpart orðið að ganga framhjá sínum eigin samtökum, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, og kaupa þær hjá heildsölum, og er hvorugur kosturinn góður, þó svo að segja hvert einasta kaupfélag hafi orðið að sæta báðum.

Samvinnumenn hafa þrásinnis borið fram kröfu um að fá hlut sinn réttan í þessu efni. Á aðalfundi SÍS. sem haldinn var á Blönduósi 1946, var mál þetta tekið til rækilegrar meðferðar. Forstjóri Sambandsins, herra Vilhjálmur Þór, bar þar fram svo hljóðandi tillögu:

„Fundurinn lýsir yfir þeim skilningi, að aðeins með frjálsri og haftalausri verzlun verði bezt leystar verzlunarþarfir fólksins í landinu.

Því beinir fundurinn þeirri ákveðnu áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar, að öll höft á innflutningsverzlunum, sem ekki eru óumflýjanleg vegna milliríkjasamninga verði strax felld úr gildi.

Meðan einhver innflutningshöft eru við lýði gerir fundurinn þá kröfu, að úthlutun innflutningsleyfa, hvað Sambandið og samvinnufélögin snertir, verði í hlutfalli við innflutningsmagn þeirra á matvöru, sem ekki hefur verið takmarkað að undanförnu.“ Þessi tillaga var samþ. með shlj. atkv.

Vilji samvinnumanna kemur þarna skýrt í ljós. Þeir kjósa jafnréttisaðstöðu við aðra innflytjendur. Sú jafnréttisaðstaða fæst, ef innflutningurinn er frjáls. Hins vegar er samvinnumönnum ljóst, að bæði erlendar og hérlendar ástæður valda því. að ekki getur verið um frjálsa milliríkjaverzlun að ræða, og er þá að taka þann kostinn að gera þá kröfu, eins og sambandsfundurinn orðaði það. að hlutdeild þeirra í heildarinnflutningi matvörunnar verði lögð til grundvallar fyrir innflutningsleyfum annarra vöruflokka.

Þegar frumvarpið um fjárhagsráð var til meðferðar á síðasta þingi, þótti mér rétt og skylt að bera fram þessar kröfur samvinnumanna og það því fremur sem það kaupfélag, er ég var fulltrúi fyrir á SÍS-fundinum. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, hefur mjög orðið fyrir barðinu á hinum ranglátu reglum, sem fylgt hefur verið um úthlutun innflutningsleyfanna. Ég flutti því svo hljóðandi brtt. við hina áðurnefndu 12. grein:

„Samvinnufélög skulu eiga kost á að fá að minnsta kosti sömu hlutdeild í heildarinnflutningi vefnaðarvöru, búsáhalda, skófatnaðar og byggingarefnis, sem þau hafa á matvöruinnflutningi á hverjum tíma, enda séu engar hömlur lagðar á matvörukaup þeirra.“

Vel hefði mátt ætla, að þessi tillaga sigldi hraðbyri gegnum þingið, svo marga játendur sem samvinnustefnan á þar. Það er sem sé ekki annað vitað en að þrír þingflokkar með 32 þingmenn telji sig fylgjendur þess. að þjóðin verzli á samvinnugrundvelli. Ég á að sjálfsögðu við Alþfl., Framsfl., og Sósfl. Samvinnumenn gátu því vænzt, að kröfur þeirra um skýlausan rétt yrðu ekki fyrir borð bornar.

En margt fer öðruvísi en ætlað er. Einróma kröfur SÍS-fundarins áttu ekki formælendur á Alþingi utan flokks sósíalista nema hv. þm. S-Þ., Jónas Jónsson, og hv. 2. þm. N-M., Halldór Ásgrímsson.

Það ræður nú af líkum, að háttv. þingmenn Framsfl., sem margir höfðu greitt hinni einróma kröfu SÍS-fundarins atkvæði norður á Blönduósi, þurftu að gera einhverja grein fyrir því. hvernig þeir gátu greitt atkvæði gegn henni á Alþingi. Hv. fyrri þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson. reið á vaðið og gerði grein fyrir atkv. sínu með þessum orðum:

„Um afgreiðslu þessa máls er samkomulag milli stjórnarflokkanna. Það samrýmist ekki þeim stjórnarsamningi að lögfesta þessa brtt. Framkvæmd málsins, sem brtt. er um, verður í höndum fjárhagsráðs, og í trausti þess, að þar verði gætt réttinda samvinnumanna. segi ég nei.“

Hæstv. menntmrh.. Eysteini Jónssyni, — en hann á sem kunnugt er sæti í stjórn SÍS, — þótti rétt að gera einnig grein fyrir sínu atkvæði. Hann gerði það með þessum orðum:

„Eins og hv. fyrri þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson, tók fram er mál þetta afgr. með samningi milli stjórnarflokkanna og í sambandi við önnur mál. Hefur orðið samkomulag um það orðalag á niðurlagi 1. tölul. l01 gr., sem greinir á þskj. 820. Framkvæmd þessa máls verður á valdi fjárhagsráðs. Og í trausti þess að samvinnufélögin njóti þar fulls réttar svo sem ráð er fyrir gert í frv. og brtt. á þskj. 820, þá segi ég nei.“

Framsóknarmenn flestir eða allir, sem greiddu atkv. gegn till., vitnuðu til fyrirvara þeirra Jörundar og Eysteins. Slíkt hið sama gerðu sumir Alþýðuflokksmenn. Á aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga, sem haldinn var á Þingvöllum á síðastl. sumri voru þessi mál ýtarlega rædd. Allir voru á einu máli um, að kaupfélögin hefðu enga leiðréttingu fengið á sínum málum hvað innflutninginn snerti. Traust háttv. framsóknarmanna á framkvæmd fjárhagsráðs hafði orðið sér til skammar. Um þetta efni segir svo í fundargerð SÍS-fundarins:

„Helgi Þorsteinsson framkvæmdastjóri hafði framsögu um innflutnings- og gjaldeyrismál. Lýsti hann í glöggu máli og með talandi tölum, hversu afskipt kaupfélögin hefðu að undanförnu verið um innflutning til landsins á ýmsum vöruflokkum, miðað við innflutning þeirra á skömmtunarvörum, sem að mestu hefðu verið frjálsar. Í lok ræðu sinnar lagði hann fram tillögu, sem hér fer á eftir, og voru meðflutningsmenn að till. ýmsir kaupfélagsstjórar:

„Fundurinn telur núverandi grundvallarreglur viðskiptaráðs fyrir leyfisveitingum með öllu óviðunandi og að þær — að því er til kaupfélaganna tekur — miðist alls ekki við raunverulegar þarfir félagsmanna þeirra. Virðist mjög aðkallandi. að bót verði ráðin á núverandi ástandi við leyfisveitingar á yfirstandandi ári.

Það er því eindregið álit fundarins, að sanngjarn innflutningur fyrir kaupfélögin á vefnaðarvörum, skófatnaði, búsáhöldum, rafknúnum heimilistækjum, byggingarvörum alls konar ávöxtum og nýlenduvörum, hreinlætisvörum og hráefnum til iðnaðar fáist ekki nema því aðeins, að leyfisveitingar til kaupfélaganna á þessum vörum verði nú miðaðar við sölu félaganna á skömmtunarvörum árin 1944 og 1945 og síðan áframhaldandi í sömu hlutföllum og félögin selja þessar vörutegundir (þ.e. skömmtunarvörurnar) árlega.“

Auk framsögumanna tóku til máls Þorsteinn Jónsson og Eysteinn Jónsson. Tillagan var því næst samþ. í einu hljóði.“

Rétt útskrift úr gerðabók Sambandsins er staðfest af Magnúsi Guðmundssyni.

Í ræðu þeirri, er Eysteinn Jónsson flutti, skoraði hann á alla fundarmenn að gera allt, sem þeir gætu, hver innan síns stjórnmálaflokks til að tryggja kaupfélögunum réttlæti í innflutningsmálunum. Trú hans á það, að fjárhagsráðið eða viðskiptanefnd þess léti samvinnufélögin njóta fulls réttar, eins og hann orðaði það á síðasta þingi, virtist vera farin að dvína, og ef marka má Tímann, hefur hún ekki hjarnað við síðan. Tíminn hefur þrásinnis ritað um þetta mál í sumar og hefur átalið stjórnina harðlega fyrir að veita kaupfélögunum ekki þann rétt, sem þeim bæri. Fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði, Hermann Jónasson, formaður flokksins, og Sigtryggur Klemenzson, hafa að því er Tíminn skýrir frá tekið innflutningsmál samvinnufélaganna upp á þeim vettvangi án þess að fá nokkru um þokað hvað framkvæmdina snertir. Sem dæmi um skrif Tímans um þetta mál má taka forsíðugrein, er birtist 2. þessa mánaðar. Fyrirsögnin var:

„Deilan í sambandi við skömmtunar- og innflutningsreglurnar.

Tryggja verður neytendum fullt frelsi til að verzla þar, sem þeir telja sér hagkvæmast.

Á að gera neytendur ofurseldari verzlununum en áður samtímis því, að kaupgeta þeirra fer minnkandi?“ Síðan segir Tíminn:

„Eins og áður hefur verið sagt frá hér í blaðinu, samþykkti meiri hluti fjárhagsráðs (Sigtryggur Klemenzson, Hermann Jónasson og Finnur Jónsson), þegar bráðabirgðaskömmtunin var ákveðin, að úthlutun innflutningsleyfa yrði bundin við afhendingu skömmtunarseðla. Með þessu var neytendum tryggt, að þeir gætu haft viðskipti sín þar, sem þeir teldu sér hagkvæmast að verzla. Jafnframt var svarti markaðurinn nokkurn veginn útilokaður. Minni hluti fjárhagsráðs (Magnús Jónsson og Oddur Guðjónsson) undi ekki þessari ákvörðun og skaut málinu til ríkisstjórnar. Meiri hluti ríkisstjórnarinnar (Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Jóhann Þ. Jósefsson) frestaði að taka ákvörðun um málið. Fjárhagsráð hófst síðan handa um að setja skömmtunarreglur til frambúðar, og lögðu þeir Hermann Jónasson og Sigtryggur Klemenzson þá til, að áðurgreindar tillögur yrðu teknar upp í þær. Meiri hluti fjárhagsráðs vísaði þá tillögunni frá, en Hermann og Sigtryggur vísuðu þá málinu til ríkisstjórnarinnar, og hefur meiri hluti hennar ekki viljað taka þær til greina.“

Tíminn hefur birt langa og ýtarlega greinargerð, er þeir Hermann og Sigtryggur létu fylgja með tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar, og segir þar svo m. a. :

„Tillögur okkar snerta framkvæmd sjálfra skömmtunarákvæðanna beinlínis. Það er hætt við og raunar víst, að meiri vörubirgðir verði til en vörukönnun tilgreinir. Liggja til þess mjög augljós rök, sem ekki er þörf að tína til. Ef reglur okkar ná ekki samþykki, er augljóst, að seljendur fá svigrúm til að selja vörur á svörtum markaði án þess að heimta skömmtunarseðla. Ef reglur okkar gilda, er þetta ekki framkvæmanlegt nema seljandi vinni framtíðaratvinnu sinni tjón, og það mundu fæstir kjósa.

En meginrök okkar fyrir tillögunum eru þó önnur. Það er auðsætt, að jarðvegur fyrir ískyggilegan svartan markað á aðfluttum vörum er að skapast í landinu. Þessu veldur:

1. Þjóðin hefur vanizt mikilli neyzlu á innfluttum vörum.

2. Kaupgeta er mikil í landinu hjá mörgum. Skyndilega verður að draga stórlega úr innflutningi, er veldur vöruskorti.

Í skömmtunarreglunum, eða samtímis því að þær eru settar, ber því að setja ákvæði, sem fyrirbyggja svo sem verða má ógnir svarta markaðarins fyrir þjóðina. Skömmtun, án þess að slíkar varúðarráðstafanir væru gerðar, væri glapræði. Þegar hörgull verður á vörum, fær sá sem leyft er að flytja vörurnar inn og hefur þær á boðstólum, vald yfir peningamálum neytandans, sem ósamboðið er frjálsu þjóðfélagi. Neyzluvörur verða fluttar inn miðað við brýnustu þörf neytenda. Þessar vörur skiptast milli góðra verzlana þeirra, sem eru í meðallagi, og hinna, sem eru lélegar. Neytendur kaupa vörur sennilega fyrst þar, sem þær eru ódýrastar, en að síðustu verða þeir að kaupa þær þar, sem þær eru dýrastar og lélegastar, því að í önnur hús er ekki að venda. Valdboðið um innflutningsleyfi kemur frá stjórnarvöldunum og viðheldur þessu skipulagi án þess að neytendur fái nokkru um það ráðið. Ef reglur okkar verða teknar í gildi. er neytendunum hins vegar afhent dómsvaldið um það, hverjir selja beztar vörur og ódýrastar. og jafnframt frjálsræði um það, hvar þeir verzla, eins og ætlazt er til samkv. 12. gr. laganna. Jafnframt er svarti markaðurinn heftur. — Neytendur geta þá eflt þær verzlanir, sem selja beztar og ódýrastar vörur, og jafnframt lagt niður okurstofnanir, sem eru hvort tveggja í senn, lélegir þjónar neytendanna og þjóðarbúsins í heild, vegna lélegra innkaupa. Með þessu móti er hlutskiptunum snúið við. Án okkar reglna eru neytendur fjárhagslega á valdi innflytjendanna, ef okkar reglur hins vegar gilda, eru innflytjendurnir þjónar neytendanna og tilvera þeirra er háð því, hvernig þeir reynast neytendunum.

Innflytjendur. sérstaklega formælendur frjálsrar samkeppni, ættu að vera ánægðir með þetta skipulag, sem reist er á grundvelli samkeppninnar, þar sem hver verzlun ber sitt úr býtum í samræmi við verðleika.

Það mætti fleira um þetta segja, sem verður þó látið ósagt að sinni. Eitt viljum við þó taka fram að lokum: Það er fyrirsjáanlegt að innan skamms verður að gera stórfelldar ráðstafanir til lækkunar á dýrtíðinni, þar sem þjóðin öll verður að færa fórnir. Það væri hættuleg byrjun að ganga þannig frá reglum um skömmtun og innflutning, að neytendur væru ofurseldari innflytjendum en nokkru sinni fyrr, samtímis því, að kaupgeta þeirra færi minnkandi. Hitt mundi flestum þykja sanni nær, að velta neytendum samtímis fullt frelsi til að nota kaupgetu sína sem bezt með því að gera þeim mögulegt að verzla þar, sem þeir fá bezta og ódýrasta vöru fyrir fjármuni sína. Án þess að fjölyrða meira um þetta, viljum við vekja alveg sérstaka athygli ríkisstjórnarinnar á þessum þætti málsins, vegna þess hve hann er stórvægilegur.“

Þetta voru röksemdir Hermanns Jónassonar og Sigtryggs Klemenzsonar fyrir þeim tillögum, sem þeir hafa flutt í fjárhagsráði. Ég hef nú leyft mér að taka þær upp í frumvarpsformi, því ég tel, að með því að lögfesta þær verði fullnægt þeim kröfum, sem tveir aðalfundir SÍS hafa borið fram fyrir hönd allra samvinnumanna í landinu. Um rök fyrir þessu læt ég nægja að vísa til þess. sem ég hef áður lesið úr því, sem Tíminn hefur birt um þetta mál. Aðeins vil ég bæta því við, að með því að flytja málið inn á Alþingi er ég að verða við beiðni Eysteins Jónssonar, þeirri er hann bar fram á SÍS-fundi í sumar, að vinna að framgangi þess eftir því. sem í mínu valdi stendur. Þetta tel ég mér skylt að gera, m. a. vegna þeirra sex þúsund Reykvíkinga, sem mynda það kaupfélag. sem ég hef verið fulltrúi fyrir á SÍS-fundum. Þeir hafa þrátt orðið að ganga bónleiðir frá búðum sínum, er þeir hafa spurt um vefnaðarvörur, búsáhöld, skófatnað, heimilisvélar o. fl. þess háttar, vegna þess að SÍS hefur ekki getað útvegað félaginu þessar vörur og kaupmenn hafa greiðari aðgang að heildsölum en kaupfélagið. Hlutskipti Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis hefur sem sé verið hið sama og annarra kaupfélaga, að selja matvörur fyrst og fremst. Á þeim er sem vera ber lægst álagning allra vara, en sala þeirra vöruflokka, sem álagningarhærri eru, hefur fyrst og fremst orðið hlutskipti kaupmannanna, þakkað verði þeim reglum, sem gilt hafa og gilda um úthlutun innflutningsleyfa.

En hvernig stendur á því, að svo erfitt reyndist að kippa þessu í lag? Er það ekki svo sem sjálfsagt, að skipta eigi innflutningnum, milli SÍS annars vegar og heildsalanna hins vegar í réttu hlutfalli við skiptingu þjóðarinnar í samvinnumenn og samkeppnismenn á sviði verzlunarmálanna? Rétt er að veita því athygli, að framsóknarmenn halda því fram, að stjórnarsamningurinn geri beinlínis ráð fyrir að í framkvæmdinni sé þannig skipt og orðalag 12. greinar laga um fjárhagsráð skýra þeir svo, að einnig samkvæmt henni beri að úthluta innflutningsleyfum í samræmi við endurtekna réttlætiskröfu SÍS-fundanna. En þrátt fyrir allt þetta og þrátt fyrir þátttöku þeirra í ríkisstjórn, þrátt fyrir ráðherradóm Eysteins Jónssonar, sem er meðlimur í stjórn SÍS, hefur þeim ekki tekizt að fá hlut samvinnumanna réttan.

Takið eftir hinni einkennilegu verkaskiptingu, sem átt hefur sér stað í þessu máli. Fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði bera fram kröfur samvinnumanna. Fulltrúi Alþfl., Finnur Jónsson tekur undir þær. Fjárhagsráð felist á þær gegn atkvæðum Sjálfstfl. Minni hluti fjárhagsráðs, sjálfstæðismennirnir Magnús Jónsson og Oddur Guðjónsson, unir ekki þessum úrslitum. Þeir áfrýja málinu til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin stöðvar málið. Ráðherrar Sjálfstfl. eru í samræmi við afstöðu fulltrúa sama flokks í fjárhagsráði, en þeir fá í lið með sér hæstv. viðskiptamálaráðherra, Emil Jónsson. Þannig stendur fulltrúi Alþfl. í ríkisstjórn gegn fulltrúa Alþfl. í fjárhagsráði — Emil gegn Finni Jónssyni.

Fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði taka málið upp á ný. En nú ber svo við, að þeir virðast standa þar einir. Fulltrúi Alþfl. ljær þeim nú ekki lengur lið, og niðurstaðan er að allt stendur enn við hið sama. SÍS fær að flytja inn 50% af matvörunni, heildsalarnir annað eins, en Sambandið aðeins 15% af þeim vörum. sem arðvænlegast er að flytja inn, en heildsalarnir 85%. Hvaða öfl eru hér að verki? Hverra hagsmuna er verið að gæta?

Ekki þeirra 26 þúsunda, sem eru meðlimir sambandsfélaganna. Ekki þess helmings þjóðarinnar, sem hefur falið sambandsfélögunum að annast matvöruverzlunina fyrir sig. Samkv. opinberri skýrslu voru 222 heildsölufyrirtæki starfandi í landinu á síðastl. ári. Þar af 207 í Reykjavík. Það þarf engum getum að því að leiða, að þessir 222 heildsalar hafa sótt fast að fá sem mest af innflutningnum til landsins í sínar hendur. Það er nú eitt sinn þeirra starf. Og ríkisvaldið hefur dæmt. Það hefur sagt: Af þeim vörum, sem hagkvæmast er að verzla með, skuluð þið fá 85% samvinnumenn aðeins 15%.

Hér er komið að merg málsins. Ríkisstjórnin berst fyrir hagsmunum 222 heildsala gegn hagsmunum 26 þúsund samvinnumanna.

Ef til vill spyr nú einhver, hvort frumvarp mitt breyti þessu ef að lögum verður. — Já, vissulega mundi það breyta þessu. Samkv. því mundu kaupfélög og kaupmenn fá innkaupaheimildirnar beint í sínar hendur. Kaupfélögin mundu að sjálfsögðu fela sínum eigin samtökum, SÍS innflutning þeirra vara, sem þau fengju leyfi fyrir.

En kaupmenn, hvað mundu þeir gera?

Mundu þeir fela 222 heildsölum að annast innflutninginn? Ekki er það sennilegt. Þeir mundu ugglaust taka samvinnumenn sér til fyrirmyndar, mynda sitt eigið innkaupasamband og þar með spara sér og þjóðinni stórfé. Baráttan fyrir frjálsu vali milli kaupmanna og kaupfélaga er því ekki aðeins barátta fyrir réttlæti til handa samvinnumönnum, heldur og barátta fyrir réttlæti handa þeim, sem vilja verzla við kaupmenn og barátta fyrir því að leysa smásalana af klafa heildsalanna.

Þetta er hagsmunabarátta þjóðarinnar gegn hagsmunabaráttu 222 heildsala.

Mér hefur þótt rétt að færa þessa baráttu inn á vettvang Alþingis og því flyt ég nú í frumvarpsformi þær tillögur, sem framsóknarmenn hafa barizt fyrir án árangurs á öðrum vettvangi. Mér þótti rétt að gefa þingflokkunum kost á að ræða málið í áheyrn alþjóðar, svo að ekki fari á milli mála, hverjir berjast fyrir hagsmunum hinna 222 heildsala gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þingflokkunum var að venju boðið upp á samkomulag um þessar umræður. Framsfl. svaraði játandi, að hann vildi samkomulag um umræðurnar. Alþfl. svaraði neitandi. Sjálfstfl. svaraði neitandi. Sósíalistaflokkurinn varð því að krefjast umræðnanna og fara þær nú fram samkv. kröfu hans og í skjóli þess réttar, sem þingsköpin veita.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.