28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætla fyrst að minnast með nokkrum orðum á það sem hv. 6. þm. Reykv. hefur sagt. Það er satt, að innflutningur er þannig á sumum hinum þýðingarmestu vörum, að S.Í.S. hefur 15% af innflutningnum, en heildsalar og aðrir kaupmenn 85%, og það þótt matvöruinnflutningurinn skiptist nokkurn veginn jafnt á milli S.Í.S. annars vegar og kaupmanna hins vegar. — En þessi hv. þm. gleymdi bara að taka fram, að þær tölur eru miðaðar við það tímabil, þegar hann og hans flokkur studdi ríkisstjórnina. Og þetta hlutfall versnaði stórkostlega á þeim árum fyrir S.Í.S., þegar þessi hv. þm. studdi ríkisstjórnina. frá því sem áður hafði verið.

Þessi hv. þm. segir. að Helgi Þorsteinsson hafi lýst því með talandi tölum, hversu afskipt kauplögin hefðu verið um innflutning til landsins á ýmsum vöruflokkum, miðað við innflutning a skömmtunarvörum. En þessar tölur áttu við árin 1945 og 1946, þegar þessi hv. þm. studdi ríkisstjórnina af mesta kappi. — Hv. þm. segist flytja þessa till. af áhuga fyrir framgangi kaupfélaganna. En hvers vegna sat hann þá á fundi S.Í.S. og var með allt annarri stefnu í málinu? Hvers vegna flutti hann þá ekki slíka till. sem þessa á Alþ., þegar hann hefði fremur átt að hafa aðstöðu til að koma henni í gegn, þar sem hann studdi þá ríkisstjórnina? Þá þagði þessi hv. þm. í þessu máli. — Nú gæti einhver sagt, að hann hefði ekki getað komið þessari till. fram í samvinnu við aðra flokka. Það er annað mál, hvort menn geta komið sínum áhugamálum fram í slíkri samvinnu, eða hvort þeir reyna að nota öll tækifæri til þess að þoka sínum málstað til sigurs. En gerði þessi hv. þm. það í þessu máli eða Sósfl., meðan hann studdi ríkisstjórnina? Nei. Þeir hreyfðu þessu ekki í ríkisstjórninni. Og þeir voru fjandmenn S.Í.S., þegar þeir sáu sér tækifæri til þess. — Það er þægilegt að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri, eins og þessi tungumjúki hv. þm., sem síðast talaði hér. En stundum geta óheilindin legið svo berlega fyrir að orðið geti nokkuð óþægilegt.

Þá vil ég víkja að málinu, sem fyrir liggur til umr. Þessi till. er sniðin eftir till. þeirra Sigtryggs Klemenzsonar og Hermanns Jónassonar í fjárhagsráði.

Hv. fulltrúi Sjálfstfl. sagði, að S.Í.S. þyrftir ekkert að kvarta, það hefði fengið nóg innflutningsleyfi. En sannleikurinn er sá, að kaupfélögin í landinu hafa orðið að kaupa af heildsölunum fyrir 10 til 20 millj. kr. á ári, af því að þessi félög hefur vantað innflutningsleyfi til þess að geta flutt inn vörur í réttu hlutfalli við aðra, miðað við að fullnægja þörfum sinna viðskiptamanna.

Svo fengum við þessar upplýsingar, að sjálfstæðismönnum þætti vænt um S.Í.S. og kaupfélögin. Það eru nýjar fréttir. Við höfum ekki orðið varir við þessa hluti. Það kann að standa til bóta. En fram að þessu hafa málin staðið öðruvísi, því miður.

Hv. þm. sýndi ekki fram á, að þessi regla, sem hingað til hefur verið höfð hjá fjárhagsráði, væri óheppileg, en sagði að mönnum væri ætlað að afhenda seðlana fyrir fram. Það er ekki rétt. En mönnum er frjálst að gera það. Og hann sagði, að það samræmdist ekki sjálfsákvörðunarrétti manna að afhenda þannig skömmtunarseðlana. En samrýmist þá betur sjálfsákvörðunarrétti manna að verzla við þá, sem yfirvöldin segja, að þeir skuli verzla við? Nei. — Við erum að ræða vandamál. Við verðum sjálfsagt að hafa innflutningshöft enn um langa hríð. Og þá verðum við að sjá til þess, að verzlunin færist ekki aðeins milli kaupfélaga og kaupmanna, heldur einnig milli kaupmanna innbyrðis, eftir því, hverjir uppfylla bezt það ákvæði fjárhagsráðsl. að flytja inn hagkvæmastar vörur og selja við sem ódýrustu verði. Við verðum að leggja okkur fram til þess, ekki aðeins vegna neytenda, heldur líka vegna þeirra, sem krafizt geta að fá að njóta sín, ef þeir geta útvegað betri og ódýrari vörur en aðrir. Ég vil ekki segja, að sú leið, sem hv. 6. þm. Reykv. bendir á, sé eina leiðin að þessu marki. Við erum fúsir til þess að athuga allar till., sem koma fram til þess að leysa úr þessu vandamáli, sem ríkt hefur í þessum efnum og ríkir enn. Viðvíkjandi stjórnarsamningnum þá er nú ágallinn á í þessu tilliti að það er eftir að finna formið fyrir framkvæmdinni a þessu. Og það getur farið alveg eftir forminu fyrir framkvæmdinni, hvort þessi ákvæði ná tilgangi sínum eða ekki þ. e. a. s. að þeir sitji fyrir innflutningi, sem geta útvegað beztar og ódýrastar vörur til landsins. — En hvernig á að dæma um þetta? Á að kaupa allar vörur í hverri innflutningsgrein fyrir sig á sama tíma fyrir eitthvert tímabil og ef einn innflytjandi kemur með beztar vörur á hann þá að fá allan innflutning til landsins í þeirri grein? Svona má spyrja. Og ef einhver sýnir fram á að hann geti selt betri vörur og við hagkvæmara verði en aðrir, á hann þá að fá einhvern hluta innflutningsins á þeim vörum, en ekki allan innflutninginn, og þá hvern hlut? Og hvar er mælikvarðinn um þetta? — Við Framsfl.-menn álitum bezt að láta neytendur sjálfa dæma um það, hverjir sýni fram á, að þeir flytji inn og selji ódýrastar og hentugastar vörur, þannig að neytendur kunni bezt að sjá hag sínum borgið. Á þeirri hugsun teljum við þær till. byggðar, sem urðu að ákvæðum l. um fjárhagsráð. — Það er ákaflega nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir, hvernig þessu fyrirmæli í um fjárhagsráð geti orðið fyrir komið í framkvæmd, þannig að það náist, sem menn ætluðust til með þessum ákvæðum. Það hefur verið sagt, að ákvæðið um afhendingu skömmtunarseðlanna fyrir fram væri mörgum þyrnir í augum. En það er vegna þess, að menn byrja með svo misjafnan vörulager, þegar skömmtunin er sett á fót.

Ég skal svo loks víkja fáeinum orðum að afstöðunni til þeirra ákvæða, sem sett voru um þessi efni í stjórnarsáttmálann. — Eins og hæstv. viðskmrh. tók réttilega fram, fengu Framsfl.-menn ekki inn í stjórnarsáttmálann þau ákvæði um þessi efni, sem þeir vildu helzt, og þetta, sem sett var, var eins konar miðlunarvegur, og enn fremur það, sem sett var um þessi efni í l. um fjárhagsráð. Það er ekki höfðatöluregla og heldur ekki kvótaregla. En það er gott, að verzlunin geti orðið sem frjálsust að því leyti, að menn sitji fyrir um innflutningsleyfi, sem sýnt geta fram á, að þeir geti gert innkaup á hagkvæmustu vörum og selt vörurnar ódýrast. En okkur hefur sýnzt, að sú leið, sem flutt hefur verið till. um af Framsfl.-mönnum í fjárhagsráði, sé heppilegasta og skemmsta leiðin, sem líkleg er til þess að ná þessu marki.

Það er um meðferð þessara mála að segja í ríkisstjórn og fjárhagsráði, eins og hæstv. viðskmrh. tók fram, að þar hafa þessi mál ekki fengið endanlega afgreiðslu. Þeim till., sem hér eru fluttar í sambandi við skömmtunarreglur, var vísað frá, en það var til athugunar að miða innflutningsleyfi a. m. k. að verulegu leyti við afhendingu skömmtunarseðla. Nú hefur þetta verið tekið upp í fjárhagsráði og ekki bundið við skömmtunarseðla, heldur í sambandi við það, að setja þarf reglur um úthlutun innflutningsleyfa handa undirdeild í fjárhagsráði, sem sér um úthlutun leyfanna. Það er skammt komið um undirtektir í þessu efni og eftir að sjá, hvort till. um aðrar reglur koma, sem þyki betri eða a. m. k. viðunandi. Ég hef fylgt þessari leið í ríkisstj., eins og okkar menn gerðu í fjárhagsráði í sambandi við skömmtunarreglurnar. Og mun ég gera það, ef það kemur til ríkisstj., en verður ekki afgert áður í fjárhagsráði. — En afstaða mín í þessu máli fer mikið eftir því, hversu horfir á hverjum tíma um framkvæmd fjárhagsráðslaganna. Og hvernig sem um málið fer, undirstrika ég það, að afstaða mín og minna flokksmanna í þessu máli, hvort sem er í fjárhagsráði eða ríkisstj. eða á Alþ., verður ætið miðuð við að fá sem mesta leiðréttingu á því ranglæti, sem átt hefur sér stað um skiptingu innflutningsins. Og við reynum að halda þannig á málunum, að fá sem mest fram í því efni. Fyrir okkur er þetta enginn leikur eða pólitískt áróðursmál eins og fyrir hv. 6. þm. Reykv. Fyrir okkur er þetta bláköld alvara. — Við fluttum ekki till. í þessa átt, þegar við vorum í stjórnarandstöðu. Hvers vegna ekki? Það var af því, að við vildum komast eins langt og við gætum gegnum samninga í viðskiptaráði, af því að við töldum frekar von um að geta fengið eitthvað fram í réttlætisátt með því móti heldur en með því að flytja till. um þetta á Alþ., sem við vissum, að mundi verða drepin, eins og andinn var þá í garð Framsfl. frá stjórnarflokkunum, ekki sízt Sósfl. En hitt vil ég segja, að baráttunni verður haldið áfram, baráttunni sem ég vil kalla baráttuna fyrir verzlunarfrelsi, sem er um það, að menn geti valið, hvar þeir hafa viðskipti sín, ekki aðeins milli kaupfélaga og kaupmanna, heldur og milli verzlana, og þeirri baráttu mun verða haldið áfram, þangað til almenningsálitið er orðið svo sterkt, að réttlát leiðrétting fáist á því ástandi, sem nú hefur ríkt.