28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Jóhann Hafstein:

Það hefur kennt nokkuð margra grasa í umr. í kvöld, eins og reyndar oft vill verða hér í þingsölunum, og ekki sízt, þegar útvarpað er umr. Þetta leyndi sér ekki, þegar fulltrúi kommúnista var hér áðan að rýna í skattskrána og glíma við heildsalana, sem eiga Morgunblaðið og Vísi og allan Sjálfstfl., eins og hann komst að orði. Það er að vísu svo með Morgunblaðið, Vísi og Sjálfstfl., að þessir aðilar eru ekki svo hamingjusamir að geta sótt línu og lausafé út fyrir landsteinana, en samt held ég, að það sé að skjóta yfir markið að tala um, að hinir fáu heildsalar eigi stærsta stjórnmálaflokk landsins með húð og hári. Mig langar líka, að það séu einnig til menn. sem heita heildsalar, í Kommúnistafl., og ekki dekrað svo lítið við suma þeirra, m. a. vildu kommúnistar á sínum tíma endilega gera einn þessara voðalegu heildsala, hann var að vísu kommúnisti, að stórri stjörnu í nýbyggingarráði, sem átti að standa fyrir hinum miklu nýsköpunarframkvæmdum fyrrv. stjórnar.

Reyndar þarf það engan að undra, þótt menn séu ekki á eitt sáttir, þegar rætt er um verzlunar- og viðskiptamál, því að satt að segja er í þeim málum ríkjandi mjög mikill skoðanamunur milli þingfl.

En það er nú samt annað en ágreiningurinn sem eftirtektarverðast er við þessar umr., sem sé alveg hið gagnstæða, hversu fulltrúar flokkanna hafa lýst sig sammála um það sem telja má veigamesta undirstöðuatriði viðskiptamálanna. — að frjáls verzlun og samkeppni fái að njóta sín. Ræðumenn hafa talað um frelsi til að velja, að jafnrétti fáist ef innflutningur er frjáls, að frjáls og haftalaus verzlun sé æskilegust o.s.frv. Má með sanni segja hvað þessu viðvíkur, að „allar vildu meyjarnar með Ingólfi ganga.“

Hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., segir líka í grg. fyrir frv., að ástæða hans fyrir flutningi málsins sé sú, að aðalfundur S.Í.S. hafi gert samþykkt. sem lýsi yfir, „að hann teldi æskilegt, að innflutningur til landsins væri frjáls svo að kaupfélögin gætu tekið þátt í frjálsri samkeppni um vörukaup við kaupmenn,“ — og nú ætlar hv. flm. með þessu frv. að skrá sig á skútuna í baráttunni fyrir frjálsri verzlun og samkeppni.

Ég verð að segja að þar bættist frjálsri verzlun nýr liðsmaður og úr þeirri átt, sem sízt var að vænta. Mér hefur fundizt, að Sósfl. hafi ekki farið neitt dult með þá stefnu sína, að hann vildi ríkiseinoka verzlunina — eins og svo margt annað. Nú kemur hv. 6. þm. Reykv. Sigfús Sigurhjartarson og segir ástæðuna fyrir málflutningi sínum vera þá að hann vilji taka undir frambornar kröfur um frjálsa verzlun og samkeppni í landinu. Það spillir náttúrlega ekki fyrir að bak við þennan nýja liðsmann frjálsrar verzlunar skuli svo standa ekki ómerkilegri aðili en S.Í.S. með aðalfundarsamþykki sinni.

Það er nú ekki einungis, að Sigfús Sigurhjartarson sé að reynast S.Í.S. góður liðsmaður með flutningi þessa frv., eftir því, sem hann segir, því að það vantar ekki heldur umhyggjuna fyrir hv. þm. Str. sem nú er fjarri góðu gamni, þegar hv. 6. þm. Reykv. er farinn að annast framburð mála hans hér í þinginu. En flm. hefur ekki gert lítið úr því, hvert hann sótti fóstur það, sem í frv. hans felst, þar sem hann hafi tekið upp tillögu Hermanns Jónassonar og Sigtryggs Klemenzsonar, er þeir fluttu í fjárhagsráði við ákvarðanir þar um viðskiptamál og vöruskömmtun.

Það skyldi vera, að finna mætti einhvern leyniþráð í þessum málatilbúningi hv. 6. þm. Reykv., sem gæfi til kynna, að ástæðurnar og tilgangurinn með flutningi þessa máls væri ekki alveg jafneinlægur og flm. vill vera láta.

En hvað sem því líður, þá er okkur boðað þetta frv. eins og ég hef vikið að, með þeim rökum, sbr. grg. (sem er að vísu að mestu sótt til Hermanns og Sigtryggs fyrir utan endurprentunina á eigin ræðu þingmannsins frá í fyrra). að „innflytjendur, sérstaklega formælendur frjálsrar samkeppni, ættu að vera ánægðir með þetta skipulag (þ. e. a. s. sem frv. ráðgerir) sem reist er á grundvelli samkeppninnar,“ eins og þar segir. Það er því látið heita svo, að stefnt sé að því að efla frjálsa verzlun og samkeppni.

Ég vil nú spyrja hv. þdm.: Ef hér væri borið fram frv. til l., sem raunverulega fæli í sér fyrirmæli um frjálsa verzlun á samkeppnisgrundveill. — hverjir mundu þá líklegastir til þess að drepa slíkt frv. eða rísa gegn því?

Ég held að það sé ekki líklegt að það færi mikið fyrir þm. Sjálfstfl. í þeirri aðstöðu. — þar sem hér væri um að ræða yfirlýst stefnu- og baráttumál flokks þeirra frá öndverðu. En mér þykir ekki ólíklegt, að þar kynni að bóla á 6. þm. Reykv. og hans flokksbræðrum — þessum yfirlýstu frelsisskerðingarmönnum, sem hafa gert átrúnaðinn á valdbeitingu þess opinbera gagnvart þegnunum að sinni trúarjátningu. Það verður því að skoðast með varúð, fyrirliggjandi frv. hv. 6. þm. Reykv., þótt því fylgi fögur orð og fjálglegar yfirlýsingar.

Sigfús Sigurhjartarson furðaði sig á þeim ummælum Ingólfs Jónssonar, að sjálfstæðismenn vildu styðja heilbrigða samvinnuverzlun, og spurði, hvenær Sjálfstfl. hefði tekið þá stefnu. Einnig heyrðist mér á hæstv. menntmrh. að samvinnufélagsskapurinn hefði mætt litlum skilningi hjá Sjálfstfl. Það vill svo til, að ég hef hér milli handanna stefnuskrá Sjálfstfl. í síðustu alþingiskosningum, en þar er m. a. þessi stefnuyfirlýsing, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi frjálsri verzlun einstaklinga og félaga — er mótfallinn ríkisrekstri og einkasölum. Flokkurinn telur óþvingaða samvinnuverzlun eðlilega og telur, að einkaverzlun og samvinnuverzlun eigi að starfa í frjálsri samkeppni á jafnréttisgrundvelli.

2. Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt, að afnumin verði öll höft á innflutningsverzluninni, eins fljótt og ástæður leyfa, svo að innflytjendur geti keppt um að útvega landsmönnum sem beztar vörur með sem lægstu verði.“

Þetta er engin ný stefnuyfirlýsing, en í samræmi við fyrri landsfundaryfirlýsingar og kosningastefnuskrár flokksins.

Efni frv. þess, er hér liggur fyrir, er nú þegar verulega rakið í umr., — og sýndi hv. 2. þm. Rang., með glöggum rökum fram á, að yrði slíkt frv. sem þetta að l. væri beinlínis að því stefnt að afnema allt frjálsræði í verzlun og viðskiptum og binda neytendurna á haftaklafa.

Það eru tveir þættir varðandi efni þessa frv., sem mér skilst, að það hljóti að standa eða falla með eftir mati hv. þm., — enda hafa þessir tveir þættir málsins mjög blandazt inn í umr., — þó e. t. v. ekki eins greinilega og vera þyrfti:

Í fyrsta lagi: Er efni þessa frv. samrýmanlegt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í verzlunarmálum. sem lögfest er í l. um fjárhagsráð?

Í öðru lagi: Mundi þessi nýja regla, sem þetta frv. stingur upp á, hvað sem öðru líður, verða til þess að innleiða réttlátari skiptingu innflutningsins milli aðila verzlunarinnar í landinu, sem þá einnig byði neytendum upp á betri aðstöðu og meira sjálfræði en verið hefur?

Gildandi ákvæði l. um fjárhagsráð o. fl. varðandi innflutningsverzlunina og vörusölu í landinu fela í sér þrjú aðalatriði, sem að er stefnt:

1) Gjaldeyrissparnað.

2) Vöruvöndun.

3) Minni verzlunarkostnað.

Ákvæði frv. hv. 6. þm. Reykv. stangast við öll þessi aðalatriði. sem nú skal sannað.

Þó að menn séu mjög mismunandi ánægðir með skömmtunina hér, eins og sjálfsagt alls staðar, er grípa hefur þurft til slíkra neyðarráðstafana, þá er þó sannast, að menn eru óánægðir af mjög mismunandi rökum.

Þarfir fólksins eru svo mjög misjafnar eftir aldri, tekjum, atvinnu og búsetu í landinu, að þótt ýmsum finnist innkaupaheimild sú, sem skömmtunarseðlarnir veita, ekki svara til lífskjara þeirra, sem þeir hafa vanizt, þá eru ýmsir, sem mundu ekki undir venjulegum kringumstæðum kaupa allt það magn, sem skömmtunarseðlarnir heimila. Í því felst, að talsvert af skömmtunarseðlum mundi aldrei verða framvísað og þannig fyrnast.

Ef hins vegar verzlanir hefja smölun á skömmtunarseðlum til þess að tryggja sér á þann hátt innflutningsleyfi. — og slík smölun yrði fyrsti ávöxtur þessa frv., sem hér liggur fyrir. — mundu seðlarnir flestir eða allir koma í leitirnar, verða að innflutningsávísun og stuðla þannig að því að innflutningurinn yrði meiri en ella og þar af leiðandi meiri gjaldeyriseyðsla.

Það er t. d. áætlað, að skömmtunarreitir þeir, sem gefa rétt til kaupa á fatnaði, vefnaðarvöru og búsáhöldum, mundu einir fela í sér kröfu um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi að upphæð 25–30 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Má af þessu vel marka, að hverju yrði stefnt. Ég veit, að hv. flm. þessa máls hér er enginn gjaldeyrissparnaðarmaður, en þeir eru nú fleiri í þjóðfélaginu. sem vita og skilja, að í þeim efnum er nú mikil þörf mikils sparnaðar.

Ég kem þá að öðru atriðinu, — áhrifum þessa frv. á vöruvöndunina. Flm. segja, að skömmtunarseðlarnir komi þar fram, sem varan sé bezt og ódýrust, og þess vegna tryggt það ódýrust og bezt innkaup erlendis frá að gera þá að gjaldeyrisávísun og innflutningsheimild.

Það er nú í fyrsta lagi ekki víst, þó að aðila hafi tekizt í eitt skipti að gera góð innkaup, þá takist honum það alltaf, — og hvað sem því líður, þá verður ekki í því argazt, því að eftir að skömmtunarseðillinn er orðinn að innflutningsheimild, er það hann einn, sem sker úr. En miklu meira máli skiptir hitt, að frv. þetta gerir ráð fyrir, að afhenda megi skömmtunarseðlana fyrir fram til verzlana, sem þá sé falið að gera innkaup út á þá. Með þessu móti verður sú spurning aðalatriði, hver verður drýgstur smalamaður í hirzlum heimilanna að skömmtunarseðlum. Og mér er alveg ómögulegt að sjá annað en það sé alveg sitt hvað að vera duglegur að safna skömmtunarseðlum eða vera góður innflytjandi og vöruvöndunarviðleitni, sem stefna ber að af hálfu stjórnarvalda, rokin út í veður og vind með að tengja þetta tvennt saman.

Það hefur eitthvað verið talað um svartan markað hér í umr. Ég sé ekki annað en ef þetta frv. næði fram að ganga, að þá væru sjálfir skömmtunarseðlarnir orðnir bezta svartamarkaðsvaran, og er þá skammt öfganna milli að hafa lifað hér í allsnægtum við meiri innflutning en nokkru sinni — taka síðan upp strangasta skömmtunarkerfi með þeim viðbótarágætum, að sjálfir skömmtunarseðlarnir yrðu allsherjar uppboðsvara, sem ávísun á gjaldeyri og innflutning.

Þá er þriðja aðalatriði gildandi l., að úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa sé við það miðuð, að verzlunarkostnaður sé sem minnstur.

Við höfum nú eina aðalskömmtunarskrifstofu ríkisins í Reykjavík, sem ýmsum þykir þegar nógu viðamikil, — og hún með sín útibú og umboðsmenn annars staðar. En þegar ætti að fara að framkvæma þetta frv. hér, sem gerir ráð fyrir að neytendur skili fyrir fram seðlum í verzlanir, þá er hver einstök verzlun orðin að skömmtunarskrifstofu, þar sem bókfæra þarf innlagða seðla og síðan skammta í smáslumpum út á þá, eftir því sem pantanir berast — misjafnlega greiðlega, oft í minni pörtum o. s. frv. Ekki mundi þetta draga úr verzlunarkostnaði, heldur smáþrýsta á kröfu verzlananna um, að við álagningu mætti taka tillit til þessa umstangs — og fengi þá neytandinn að lokum að borga brúsann. — Þetta læt ég nægja til sönnunar því að till., sem hér liggur fyrir frá hv. 6. þm. Reykv., vinnur gegn öllu í senn, gjaldeyrissparnaði, vöruvöndun og minni verzlunartilkostnaði.

Ég kem þá að því atriðinu, hvort frv. þetta, ef að l. yrði mundi líklegt til þess að innleiða metra réttlæti en nú ríkir um skiptingu innflutnings milli kaupfélaga eða S.Í.S. og annarra heildverzlana og skapa þannig neytendum meira kaupfrelsi en verið hefur.

Hvers vegna þessa vantrú á kaupfélögum og Sambandinu? Hvers vegna að ráðgera, að hlutur samvinnuverzlunarinnar sé svo mjög fyrir borð borinn eftir tímabil í verzlunarsögunni, þegar mjög mikið frjálsræði hefur ríkt um innflutning á fjöldamörgum helztu vöruflokkum og innflutningur verið með einsdæmum mikill? Hv. þm. V.-Húnv. talaði að vísu um hina „afskaplegustu“ gjaldeyrissóun. Við það vil ég aðeins gera þá athugasemd hér, að samkv. skýrslu fjárhagsráðs var um eða yfir 80% af gjaldeyrisforða þjóðarinnar, eins og hann var mestur í nóvember 1944, varið til nýsköpunarframkvæmda. sem nú eru undirstaðan undir góðum afkomumöguleikum í framtíðinni. Það er satt, að innflutningurinn var mikill og áreiðanlega of mikill á sumu.

En hefur Sambandið dregizt eitthvað aftur úr heildverzlunum undanfarin ár? Þarf að rétta hlut þess nú með alveg spánnýju haftakerfi. sem á sér engan sinn líka, þar sem við þekkjum til í heiminum? Ég held alls ekki, og það er hrein fjarstæða úr lausu lofti gripin hjá þm. V.-Húnv., að í tíð fyrrv. stjórnar hafi allt stefnt í öfuga átt og til vaxandi ranglætis, eða „hallað á ógæfuhliðina“, eins og hæstv. menntmrh. komst að orði.

Það er engin ástæða til að troða hér upp með barlóm og kveinstafi fyrir hönd samvinnuverzlunarinnar. Þetta veit allur almenningur, sem veit, hvar vörurnar hafa fengizt. Það vita líka þeir, sem vita, hvar ónotuð gjaldeyris- og innflutningsleyfi eru, og líklega einnig þeir, sem vita betur en ég um það, hvort Sambandinu hafi kannske gengið betur en öðrum að fá yfirfærslur nú á síðustu tímum gjaldeyriserfiðleika. Rétt er að þingnefnd athugi þessi atriði og önnur slík, sem koma til álita í þessu máli.

Því er haldið fram, að þar sem Sambandið hafi flutt inn rúm 50% af öllu haframjöli og rúgmjöli, en innflutningur á þessum vörutegundum frjáls, þá sanni þetta að um það bil helmingur landsmanna vilji eiga skipti við þessi samtök og S.Í.S. eigi því að fá 50% innflutningsins á öllum öðrum vörum.

Ég held, að flm. hafi kallað þetta „kröfu um skýlausan rétt. “ En hefur flm. t. d. nokkuð athugað, hvort eitthvað af mjölinnflutningnum hafi ekki e. t. v. farið í skepnufóður. Og ekki geri ég ráð fyrir, að hann ætlist til, að sá „kvóti“ skapi kröfur á aðrar vörur, eins og t. d. vefnaðarvörur og rafmagnsvörur, nema þá vera skyldi mjaltavélar handa kúnum, sem þá væru orðnar eins konar meðlimir í neytendasamtökunum.

Mér sýnist einnig, að í grg. frv. standi, að innflutningur á strásykri hafi verið jafnfrjáls og haframjölinu. Samt segir þar, að Sambandið hafi ekki flutt inn nema 33% af þessari vörutegund. Hvernig stendur á þessum 17% mismun, miðað við haframjölið — og var þó hvort tveggja frjálst? Flm. hefði mátt reyna að skýra þetta. Annars er þetta svo mikil hringavitleysa, að af því að einhver aðili hafi verzlunarsambönd í haframjöli og innflutning í samræmi við það, þá eigi hann einnig að hafa hlutfallslega sama innflutning í öðrum vöruflokkum, sem hann hefur allt önnur verzlunarsambönd í, — fyrst og fremst af því, að mismunandi þarfir neytenda og staðhættir kalla á svo mismunandi tegundir vara til hvers konar nota og neyzlu á hverjum stað.

Svona „hundalogik“ má auðveldlega snúa við og segja: Þar sem heildsalar hafa um 50% af haframjölsinnflutningnum á móti S.Í.S. eiga þeir kröfu til að fá innflutningsleyfi í sömu hlutföllum t. d. fyrir landbúnaðarvélum, en mér skilst, að S.Í.S. hafi haft þann innflutning að mestu með höndum. Og ekki var sá tónn í skýrslu framkvæmdastjóra véladeildar S.Í.S. á síðasta aðalfundi, að Sambandið ætlaði að afsala sér einhverju af þeim innflutningi, en þar segir þvert á móti: „liður varla langur tími, þar til Sambandið getur fengið, með stuttum afgreiðslutíma, frá I.H.C. allt það af landbúnaðartækjum, sem þörf er fyrir hér á landi, ef nógur gjaldeyrir verður fyrir hendi til þess.“

Hv. þm. V.-Húnv. skilur þetta áreiðanlega mæta vel, því að ef ég man rétt, var það Árni frá Múla, sem sannfærði þennan þm. um það í umræðum um svipaðan draug og hér er upp kveðinn, þ. e. „höfðatöluregluna“. að Skúli Guðmundsson gæti ekki með neinum rétti heimtað sama „kvóta“, af höfuðfötum og Árni Jónsson, þó að höfuðin væru jafnmörg á báðum, þ. e. a. s. eitt á hvorum, en Skúli lagði það í vana sinn að ganga berhöfðaður. — hafði m. ö. o. ekki þörf fyrir höfuðfat, þótt hann hefði höfuð. Þannig getur mætavel verið, að ýmsir viðskiptavinir kaupfélaganna, sem hafa góða lyst á rúgmjöli og annarri matvöru, kæri sig kollótta um rafmagnsvarning. t. d. ef ekkert rafmagn er nú þar, sem þeir búa.

Þá er vitnað til þess, að kaupfélögin hafi verið neydd til þess að kaupa af heildsölum, þar sem þeir hafi haft innflutningsleyfin, en S.Í.S. eða kaupfélögin ekki. Tíminn hefur birt mjög villandi skýrslur um þetta atriði eftir einum framkvæmdastjóra S.Í.S.

Því er m. a. haldið fram, að kaupfélögin hafi verið neydd til þess á árinu 1946 að kaupa frá heildverzlun vefnaðarvörur fyrir tæpar 3 milljónir króna af því að kaupfélögin hafi skort innflutningsleyfi fyrir vörunni. Til að mæta þessari upphæð ætti ekki að þurfa leyfi fyrir meira en ca. helmingnum eða hálfri annarri milljón.

Nú get ég upplýst það, að kaupfélög hafa keypt af aðeins einni heildverzlun hér í bænum árið 1946 vefnaðarvöru, — sem þau hafa lagt inn innflutningsleyfi fyrir að upphæð 511 þús. kr. eða rúma ½ milljón!

Þarna vantaði kaupfélögin ekki leyfin. Þetta var engin nauðungarverzlun, aðeins einfaldlega, að þau báðu heildverzlunina að útvega sér vöruna út á leyfi, sem þau áttu.

Af hverju fóru þau ekki til S.Í.S.? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu. — menn finna svarið. En um þennan vefnaðarvöruinnflutning sagði Tíminn m. a.: „Sannar þetta betur en nokkuð annað tilkall félaganna til aukinnar hlutdeildar í innflutningnum.“

Og Sigfús Sigurhjartarson lætur ekki standa á sér. Hann segir: „Ástandið í þessum málum þarf að breytast. Það má ekki hefta kaupfélögin í þessum efnum. Það verður að gera þeim kleift að flytja inn vefnaðarvöru, búsáhöld og fleiri slíkar vörur, engu síður en matvöru.“ Nei, það má ekki „hefta“ kaupfélögin, og það á að „gera þeim eitthvað meira kleift,“ — en hver var að hefta, og hver gerði þeim ekki kleift að flytja inn fyrir leyfi, sem þau höfðu, en kusu af einhverjum ástæðum að afhenda heildsölum, svo milljónum skipti?

Það, sem hér hefur verið drepið á, verður að nægja að þessu sinni til að sýna, að með öllu er ástæðulaus sú umkvörtun, að rétta þurfi hlut samvinnuverzlunarinnar um innflutning frá því, sem verið hefur, með einhverjum nýjum reglum. Er að vísu margt í þessu sambandi. sem þörf er gaum, gæfilegrar rannsóknar á í þingnefnd, en alveg efast ég um, að þessi málatilbúningur komi til með að reynast í þökk kaupfélaganna. Reyndar vita þá líka allir, að það er ekki af góðvildinni einni saman, sem málið er flutt.

Hitt er svo ljóst, að aðilar verzlunarinnar hafa mjög ólíka aðstöðu til þess að safna að sér skömmtunarseðlum fyrir fram, og mundi því leiða til mesta misréttis að láta þá segja til um innflutningsskiptingu milli kaupmanna og kaupfélaga eða kaupmanna innbyrðis, sem einnig geta haft mjög misjafna aðstöðu að þessu leyti.

Fyrir neytendur horfir framkvæmd þessarar till. í frv. 6. þm. Reykv. þannig við, að innleiddir væru eins konar nýir átthaga- eða verzlunarfjötrar, þar sem þeir, sem afhent hefðu fyrir fram skömmtunarseðla sína hefðu þar eftir ekki í önnur hús að venda en sömu búðina — sama fyrirtækið og veitt hefur skömmtunarseðlunum móttöku.

Frjálsræðið, sem hv. þm. hafa gert sér svo tíðrætt um í kvöld. er bezt tryggt í viðskiptamálum með frjálsu samkomulagi samvinnuverzlunarinnar og kaupmannaverzlunarinnar, innan þeirra takmarka, sem aðstaða þjóðarinnar í heild skapar á hverjum tíma, — og einmitt á grundvelli yfirlýstrar stefnu ríkisstjórnarinnar í verzlunarmálum, sem nú er lögfest í 12. gr. l. um fjárhagsráð.