04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég get að mestu látið nægja að vísa til nál. okkar í minni hl. fjhn. á þskj. 177. Það er nú orðið svo langt síðan það kom fram, að hv. þdm. hefur gefizt góður tími til að kynna sér það, sem þar segir um málið. Það hefur nokkuð verið rætt og ritað um þetta mál opinberlega, og í þeim ræðum og ritsmíðum hefur farið svo fyrir mörgum. að þeir hafa í sambandi við þetta mál tekið að ræða um, hvernig skipta ætti innflutningnum milli kaupmanna og kaupfélaga og túlka skoðanir sínar um það, hvort hagkvæmara væri fyrir landsmenn, að verzlunin væri rekin af kaupmönnum og kaupfélögum. En um það eru vitanlega skiptar skoðanir. Ég fæ þó ekki séð, að það komi þessu máli við, og mun ekki hefja deilur um það hér. Ég tel alla hafa rétt til þess að hafa sína skoðun í því efni, og finnst mér því ástæðulaust að gera það hér að deiluatriði. — En um það hef ég ákveðna skoðun. Ég tel, að tilveruréttur kaupmanna og kaupfélaga fari eftir því, eða eigi að fara eftir því, hvort eða að hve miklu leyti menn vilja hafa skipti við þessa aðila. Ef 100 menn í einhverjum landshluta vilja skipta við kaupmenn, þá eiga þeir að fá það, og ef hins vegar aðrir 100 menn vilja skipta við kaupfélög, þá er enginn að banna þeim það. Og allir þessir viðskiptamenn eiga að geta fært sig milli búða eftir því, sem þeir sjá sér hagkvæmt í það og það skipti. Þetta sjónarmið hljóta allir frjálslyndir menn að geta viðurkennt, og frv. fjallar einmitt um þetta frelsi manna. Það er um þau sjálfsögðu réttindi mönnum til handa, að þeir megi sjálfir ákveða það og ráða því, hvernig þeir haga kaupum á þeim vörum, sem þeir samkv. ákvörðunum skömmtunaryfirvalda eiga að geta fengið á hverjum tíma. En meðan lög eru þannig framkvæmd að stjórnskipuð ráð og nefndir ráða öllu um skiptingu innflutnings milli verzlana, og innflutningur er mjög takmarkaður, þá hafa viðskiptamennirnir ekki þessi sjálfsögðu réttindi.

Það er óþarft og óviðeigandi að vera með ágizkanir um, hvort það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv., mundi frekar verða til hagsbóta fyrir kaupmenn eða kaupfélög. Úr því fær reynslan ein skorið.

Eins og fram kemur í nál., er það aðeins undirritað af tveimur nm. Hinir nm. hafa enn ekki skilað áliti, og má ef til vill álykta af því, að þeir séu raunar ekki á móti frv., þótt þeir hafi ekki undirritað nál. með okkur hinum á þeim tíma, þegar það var út gefið. Enda þykir mér ólíklegt, að margir séu á móti því, að menn fái frelsi til þess að kjósa sér sjálfir viðskiptastaði án forsagnar yfirvalda.