16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. — Ég tel og hef lengi talið, að brýna nauðsyn beri til gagngerðra og róttækra ráðstafana til þess að stemma stigu fyrir frekara tjóni af völdum verðbólgu og dýrtíðar. Ég tel, að ekki verði hjá því komizt, að allar stéttir þjóðfélagsins taki á sig nokkrar byrðar í sambandi við lausn þessa vanda, sem þjóðinni er nú á höndum. En ég hef jafnan álitið, að byrðar á launþega og verkalýð væru því aðeins réttlætanlegar, að þeir, sem breiðust hafa bökin í fjárhagsefnum, þ.e.a.s. stóreigna- og hátekjustéttirnar, tækju ekki aðeins byrðar á sig fyrst, heldur að þær byrðar væru einnig miklu þyngri en byrðar almennings.

Ég tel, að í frv. þessu séu ekki lagðar nægilega þungar byrðar á stóreignir og hátekjur til þess að réttlæta þá fórn, sem gert er ráð fyrir af hálfu alþýðu og launastétta, þótt Alþfl. hafi að sjálfsögðu kappkostað, að byrðar almennings yrðu sem léttastar, og orðið mikið ágengt í því efni við undirbúning málsins. En þótt ég sé óánægður með frv., mun ég samt ekki greiða atkv. gegn því, þar eð það er flutt af ríkisstj., sem flokkur minn á sæti í og ég því styð. Ég greiði því ekki atkv. um frv.