13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

14. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil á sama hátt og þegar þetta frv. kom fram í fyrra vara við því að samþ. það, af því að það er óeðlilegt. Fyrir utan þau rök, sem ég færði fram, þegar málið var til umr. hér í þd., vil ég geta þess, að með löggjöf um fjárhagsráð er gert ráð fyrir, að fjárhagsráð þurfi að hafa náið samstarf við vinnumiðlunarskrifstofur um land allt, til þess að ekki skapist atvinnuleysi í sambandi við þann óhjákvæmilega samdrátt, sem hlýtur að verða í sambandi við gjaldeyrisskortinn, þó að ekki sé annað. Ég tel þess vegna eðlilegt, að ríkisvaldið, sem kostar vinnumiðlunarskrifstofurnar að nokkru, hljóti að hafa þar fulltrúa, og ég vil skjóta því til n., sem með þetta mál fer, að hún athugi það vel og leiti um það álits fjárhagsráðs. Ég vænti, að það komi í ljós, að fjárhagsráð býst við að geta átt náin samskipti við vinnumiðlunarskrifstofur um land allt, og vænti þess, að þá þyki eðlilegt, að stj. eigi fulltrúa í þessum stjórnum, þótt ekki sé nema einn af fimm á hverjum stað.