13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

14. mál, vinnumiðlun

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég get engan veginn verið sammála hæstv. forsrh. um það, að til þess að samvinna geti orðið á milli vinnumiðlunarskrifstofanna og fjárhagsráðs, þurfi stj. að eiga fulltrúa í stjórnum vinnumiðlunarskrifstofanna. Ég veit ekki annað en að það hljóti að vera jafnþægilegt fyrir fjárhagsráð að eiga samvinnu við stjórnir vinnumiðlunarskrifstofanna, þó að bæjarstjórnirnar hafi þar meiri hluta. Þetta eru svo augljós rök, að ég er undrandi á því, að hæstv. forsrh. skuli hafa á móti þeim rökum.

Ég hef ekkert á móti því, að fjárhagsráð skoði þetta frv., en mér þykir skörin fara að færast upp í bekkinn. ef Alþingi þykist ekki geta afgr. l. um fjarskyld efni, án þess að þau séu send til fjárhagsráðs. Það er þá búið að setja nokkurs konar yfir Alþingi, og er dálítið einkennilegt að heyra slíkt frá forsrh. Ég veit. að fjárhagsráði er ætlað mikið starf, og skal ekki gagnrýna það, en tel það mjög einkennilegt, ef það á að taka upp þann sið að vísa þingmálum til fjárhagsráðs til ályktunar. Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi, að þetta er hreint bæjarmál og bæjarstjórnirnar eiga þess vegna að kjósa meiri hl. í þessar stofnanir. Það leiðir af sjálfu sér, að bæjarstjórnirnar yrðu jafnfúsar og áður til samvinnu við stj.

Ég vil líka ítreka það, sem ég sagði á síðasta þingi um þetta mál, að ég hygg, að gengið hafi verið það langt í sentraliseringu ríkisvaldsins, að nú sé mál að snúa til baka, að ganga lengra inn á þá braut að fá bæjarstjórnum og sveitarfélögum meira vald, en auka ekki stöðugt vald ríkisins. Ég held. að nú sé kominn tími til þess að snúa við. Við sjáum afleiðingar þess, að allt er dregið á einn stað. Ég held, að afleiðingarnar sýnt sig m. a. í því, að sífellt eykst flótti fólksins frá landsbyggðinni og í stóru kaupstaðina, sérstaklega til Reykjavíkur. Ég held ekki, að fólkið uni í bæjunum, ef völdin eru tekin af þeim, og vil, að þeirri óheillastefnu sé ekki haldið lengur, sem gengið hefur fyrir sig.

Ég vil benda á, að í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að kosið sé til þriggja ára. Þetta var þannig í fyrra, en nú þarf að breyta því í tvö ár, því að það er miðað við bæjarstjórnarkosningar.

Ég vil ítreka ósk mína um það, að hv. d. taki þessu máli með skilningi.