13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

14. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vildi ekki endurtaka hér í d. þær ástæður, sem ég færði fram í fyrra, en benti aðeins á það til viðbótar, að fjárhagsráð þyrfti að hafa samskipti við vinnumiðlunarskrifstofurnar.

Þau rök, sem ég áður hef fært, voru þau, að ríkissjóður kostaði þessa starfsemi, eins og fram er tekið, og vinnumiðlunarskrifstofurnar hafa með höndum að miðla vinnu, ekki eingöngu bæjarvinnu, heldur líka opinberri vinnu, vinnu ríkisins, sem til fellur á starfssviði hverrar vinnumiðlunarskrifstofu um sig. Af þessari ástæðu taldi ég eðlilegt, að stj. hefði einn fulltrúa í stjórn þessara stofnana. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki sé verið að taka nokkur völd af bæjarfélögunum, þar sem þau kjósa tvo menn og verkalýðs- og vinnuveitendasamtökin kjósa sinn manninn hvort.

Út af því, sem flm. sagði, að sér fyndist skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar fjárhagsráð væri orðið eins konar yfir Alþingi, fyrst leita þyrfti ráða til þess út af því máli, sem hér er til umr., þá veit ég, að hv. þm. N-Ísf. er svo þingvanur, að hann veit, að frv. eru oft send til einnar stofnunar og annarrar til umsagnar og álits. Að mínu viti er þetta frv. svo skylt verkefnum fjárhagsráðs, að mér þótti eðlilegt að leita þangað. Fjárhagsráð er ekki frekar yfir Alþingi en bæjarráð Reykjavíkur, en þangað þykir eðlilegt að senda mál, sem það fjallar um. Ég ætla því, að í þessu atriði sjái flm., að hann hefur byggt á nokkuð miklum misskilningi eða fljótfærni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, nema tilefni gefist til.