25.11.1947
Neðri deild: 24. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

14. mál, vinnumiðlun

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst í öðru orðinu þakka meiri hl. n. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls. Þess utan vil ég leyfa mér að svara nokkrum orðum ræðu hv. þm. Ísaf., er hann flutti hér í gær.

Hv. þm. Ísaf. upplýsti, að sér hefði í fjárhagsráði verið falið að gera uppkast að till. um breyt. á l. um vinnumiðlun og að slík breyt. væri fjárhagsráði nauðsynleg, til þess að unnt væri að láta vinnumiðlunarskrifstofurnar annast allsherjar skýrslusöfnun um vinnuafl í landinu á hverjum tíma. Ég vil ekki vefengja það, sem þessi fjárhagsráðsmaður segir um þetta, en ókunnuglega koma mér þessar fréttir fyrir augu. N., sem hefur um málið fjallað, sendi fjárhagsráði frv. til álita, en það hafði ekki meiri áhuga fyrir því en svo, að það sendi enga umsögn, og mér er kunnugt um það af viðræðum við form fjárhagsráðs, að hann taldi þetta mál í engu snerta fjárhagsráð, og birtist það álit m. a. í því, að ráðið sendi enga umsögn. Ég sé ekki betur en þessi afstaða fjárhagsráðs stangist nokkuð á við upplýsingar hv. þm. Ísaf., að honum hafi verið falið að gera uppkast um breyt. á l. um vinnumiðlun.

Hitt vil ég alveg vefengja, sem hann sagði, að það sé rétt, að það sé ekki hægt að hafa fullt gagn af vinnumiðlunarskrifstofunum, nema l. sé breytt. Enn fremur er það fjarstæða, að samvinna geti ekki tekizt milli fjárhagsráðs og vinnumiðlunarskrifstofanna, þó að ríkið eigi ekki fulltrúa í stjórn þeirra. Það hlýtur að velta á miklu fyrir þessar skrifstofur og bæjar- og sveitarfélögin, að góð samvinna takist við fjárhagsráð, svo að vinnuaflið verði sem bezt nýtt.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. þm. Ísaf. Hann er ekki viðstaddur hér við þessa umr. En varðandi það, sem hann talaði um, að það væri einkennileg hvöt, sem lægi á bak við flutning þessa máls hér á þingi, þá vil ég segja, og ég hef lýst því áður, að það sem fyrir mér vakir með þessu máli, er fyrst og fremst, að bæjarfélögin, sem bera meginhluta kostnaðarins af þessum stofnunum, fái aukin og eðlileg völd yfir þeim. Ég hef bent á, að sú stefna sé ekki æskileg, sem hefur verið uppi undanfarin ár, að ríkið geri hlut bæjarfélaganna minni til íhlutunar um sín mál. Í annan stað hefur ríkið gengið svo á tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. að þau hafa varla neitt við að styðjast nema útsvörin, og tel ég það ranga stefnu. Ég held, að það beri að stefna að því að auka rétt bæjar- og sveitarfélaga og fá þeim nýja, aukna tekjustofna. Þetta eru þær hvatir, sem liggja bak við flutning þessa máls af minni hálfu. Hv. þm. Ísaf., minn góði félagi, getur haft sína skoðun á því, hvaða músarholusjónarmið ég hafi í þessu máli. Ég dreg ekki í efa, að hann láti í hverju máli stjórnast af háleitum hugsjónum. Ég þykist vita, hvaða hugsjónir honum eru efst í huga í þessu máli. Ég læt honum eftir að trúa, að það sé háleitt markmið, sem hann berst fyrir í þessu máli. Hann getur gjarnan talað um músarholusjónarmið í sambandi við flutning þessa máls, en það breytir í engu þeim staðreyndum, sem ég hef lýst, og vænti ég því, að d. taki málinu vel eins og á síðasta þingi, þegar það var samþ. með verulegum meiri hl., og samþykki þess vegna ekki þá rökst. dagskrá, sem minni hl. n. hefur borið fram.