21.11.1947
Efri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

90. mál, landshöfn í Þórshöfn

Flm. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. á þskj. 124 um landshöfn í Þórshöfn. Fyrir tveimur árum flutti ég í Nd. frv. um sama efni í aðalatriðum. Var það fyrsta frv., sem flutt var á Alþ. um landshöfn. Síðar á sama þingi. 1945, kom fram frv. um landshöfn í Hornafirði og enn síðar frv., sem mþn. í sjávarútvegsmálum hafði samið um landshöfn í Njarðvíkum við Faxaflóa. Það frv. varð samþ. á Alþ. og afgr. sem l., en hin landshafnafrv. voru afgr. á þann veg, að samþ. var í Nd. dagskrártill. frá sjútvn. deildarinnar svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. geri ráðstafanir til að fram fari á komandi sumri nauðsynlegar rannsóknir á byggingu landshafnar í Hornafirði, á Snæfellsnesi, í Þórshöfn og á öðrum þeim stöðum, þar sem nýbyggingarráð telur nauðsyn á bættum hafnarskilyrðum vegna fiskveiða, og jafnframt verði gerðar tillögur um byggingu og rekstur fiskvinnslustöðva og verbúða á þessum stöðum, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þrátt fyrir áskoranir um að láta framkvæma þessa rannsókn leið sumarið 1946, án þess að nokkuð væri rannsakað um þetta. Vegna þess að rannsóknin var ekki framkvæmd sumarið 1946, eins og til var tekið, þótti mér ekki fært að hreyfa þessu máli á þinginu í fyrra, en nú virðist sannarlega tími til kominn að taka fullnaðarákvörðun um hafnargerðina, og er frv. þetta flutt samkv. ítrekuðum áskorunum.

Nú er það vitað mál, að nokkrir staðir á landinu þarfnast mjög hafnarbóta og sumir svo mjög að kallazt getur brýn nauðsyn. Mér virðist því rétt að látið væri athuga, hvaða hafnir gengju fyrir og hverjar yrðu látnar bíða betri tíma, þar sem nú eru slæmir tímar til framkvæmda. Ég hef ekkert heyrt um þetta mál frá hæstv. ríkisstj. né vitamálastjóra, og varð það einnig til þess, að mér virtist ekki tímabært í fyrra að hreyfa málinu á nýjan leik. Hv. þm. vita, hvað vakti fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum, þegar hún samdi frv. um landshöfn í Njarðvíkum og ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um þá augljósu þörf, sem er á góðri höfn í Þórshöfn. Sums staðar kringum landið eru mjög góð fiskimið, sem minna eru notuð en skyldi, því að þörfin fyrir að nota miðin vel hefur stóraukizt með vaxandi skipastól, og það, sem vakti fyrir þessari mþn. í sjávarútvegsmálum. var, að reynt væri að skapa skilyrði til þess að nota mætti hin góðu fiskimið sem bezt. Á þeim stöðum, þar sem hafnir vantar tilfinnanlegast, eru smáþorp, sem eru of fámenn og fátæk til þess að rísa undir stórfyrirtæki eins og hafnargerðum, og má þar sérstaklega benda á Rif á Snæfellsnesi, Þórshöfn og Höfn í Hornafirði, í kringum þessi þorp eru fámennar sveitir og sýnt að aldrei verður byggð höfn þarna af þeim sem þar búa, og þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisvaldið hlaupi hér undir bagga og byggi hafnir, sem verða mundu stöðum þessum mikil efnahagsleg lyftistöng og þjóðarheildinni efnahagsleg stoð, er tímar líða.

Hvað snertir Þórshöfn, þá eru einhver beztu fiskimið landsins í grennd við hana. Togarar stunda veiðar beggja vegna Langaness, og meðan stríðið hamlaði ekki togaraveiðum Englendinga, sóttu þeir mjög á þessar slóðir, og sama máli gegndi um skip margra annarra þjóða. Bátaútvegur á staðnum hefur einnig fært greinilegar sönnur á, að þarna eru góð fiskimið, en höfnin er ekki nógu góð til þess að stórir bátar geti sótt þaðan sjóinn, eins og æskilegt væri, en bátar þeir sem frá Þórshöfn róa, eru litlir og geta því ekki sótt langt til hafs. Engar tölur eru til um það, hvað aflast mundi. ef bátarnir væru það stórir, að þeir gætu sótt út og austur fyrir Langanes, en hins vegar má gera sér nokkra hugmynd um þetta af því, að á öðrum tug þessarar aldar byrjuðu aðkomusjómenn að setjast að á Skálum, sem eru austan á Langanesi norðarlega, þrátt fyrir hin verstu skilyrði og myndaðist þar þorp, sem á tímabili hafði nokkuð á þriðja hundrað íbúa. Var þá lagður þangað sími um langan veg og 2. fl. símastöð starfrækt um mörg ár. Auk þess fólks sem tók sér fasta bólfestu á Skálum, héldu þar til allmargir sjómenn frá Austfjörðum um sumarmánuðina ár hvert og stunduðu þaðan sjóróðra.

Skálar eru einhver hinn ömurlegasti staður á landi hér, þar sem byggð hefur myndazt. Samgöngur á landi eru afar erfiðar vegna fjarlægðar frá öðrum byggðum bólum og vegur einhver hinn versti og alls ófær bílum. Mjög er þar þokusælt og skilyrði til ræktunar slæm. Þó er sá ókosturinn verstur, að þar er engin höfn, aðeins óvarin stórgrýtislending fyrir opnu hafi. Var því ekki um aðra sjósókn að ræða en handfærafiski á smákænum. sem setja varð á land eftir hvern róður. Urðu því margir landlegudagar, jafnvel á sumrum. Við upp- og framskipun vara varð að nota þessa litlu báta, og voru skipaafgreiðslur því aðeins mögulegar, að brimlaust væri með öllu en þegar eitthvað var að veðri, urðu skipin að fara þaðan óafgreidd. Þessir erfiðleikar voru svo miklir og þreyttu svo mjög íbúa þorpsins, að eftir 1930 byrjuðu fólksflutningar þaðan til annarra staða. Fækkaði fólkinu eftir það ár frá ári og nú er svo komið, að allt fólk er burt flutt og staðurinn lagður í eyði.

Eina ástæðan, sem var til myndunar þorpsins, var því nær óbrigðul aflavon, hvenær sem komizt varð á sjó og má af því sjá að til mikils væri að vinna, ef örugg höfn yrði byggð á Þórshöfn því að fyrir 20–30 lesta báta eða þaðan af stærri væri auðvelt að sækja sjó austur fyrir Langanes. En meðan ekki er hægt að gera út frá Þórshöfn nema smábáta, er leiðin allt of löng á þau ágætu mið.

Fyrir utan hin ágætu fiskimið báðum megin Langaness er það að öðru leyti um Þórshöfn að segja, að þar eru mjög góð og nær ótæmandi ræktunarskilyrði. Hafa allir, er þar búa, meiri eða minni túnrækt og smábúskap, sem er og mun verða mikill og ómetanlegur stuðningur fyrir efnalega afkomu þeirra. Skammt frá Þórshöfn má fá vatnsafl, sem tiltölulega auðvelt væri að virkja. og hefur það verið athugað og mælt af verkfræðingum.

Eins og tekið er fram í grg. með þessu frv., hafa Austfjarðabátar oft stundað þorskveiðar frá Þórshöfn á sumrum og aflað vel. Er enginn efi á því, að aðkomubátum mundi mjög fjölga, ef þar yrði gerð örugg höfn, og mundi sú framkvæmd þess vegna hafa þýðingu fyrir miklu fleiri menn en þá, sem búa þar á staðnum.

Þórshafnarkauptún var til skamms tíma hluti af Sauðaneshreppi hinum forna, en er nú orðið sérstakur hreppur með röskum 300 íbúum. Er auðsætt, að svo fámennu sveitarfélagi er algerlega um megn að leggja út í svo kostnaðarsamt fyrirtæki sem fullkomin hafnargerð hlýtur að verða. Framkvæmd hennar er því algerlega háð því. að sjálft ríkið kosti þetta mannvirki að öllu leyti, enda njóti það og að sjálfsögðu þeirra tekna, sem það gefur. Má gera ráð fyrir því, að fyrst í stað vanti allmikið til þess, að tekjur af höfninni geti staðið undir vöxtum og afborgunum af þeim hluta stofnkostnaðarins, sem umfram verður venjulegt framlag ríkisins til slíkra mannvirkja, því að blómlegt atvinnulíf og mikil fólksfjölgun getur ekki orðið á svipstundu, hvorki þar né annars staðar. En það er sannfæring mín og trú, að þegar frá líður, muni höfnin bera sig vel fjárhagslega og gefa þjóðarheildinni auk þess miklar óbeinar tekjur.

Enda þótt ég telji hafnargerð á Þórshöfn mjög mikið nauðsynjamál, bæði fyrir héraðið og þjóðarheildina, og vænti því, að frv. þessu verði vel tekið, þá geri ég mér ekki von um, að hv. Alþ. sjái sér fært að leggja fram nú þegar svo mikið fé sem til hafnargerðarinnar þarf. Hins vegar sé ég ekki, að fjárskortur í bili eigi að verða frv. þessu að falli. Samþykkt þess mundi til að byrja með aðeins þýða það, að ákveðið væri af Alþ., að á þessum stað eigi að byggja höfn á kostnað þjóðfélagsins í heild, og væri það alveg hliðstætt því, sem gert er í brúa- og vegalögum, þar sem ákveðið er, að ríkið kosti byggingu tiltekinna brúa og vega, þegar fé verði veitt til þess í fjárlögum, án þess að ákveðið sé í upphafi, hvenær það skuli gert. Þann hemil mundi Alþ. einnig hafa að því er snertir fjárveitingu til landshafnar á Þórshöfn og öðrum þeim stöðum, þar sem slíkar hafnargerðir kunna að verða ákveðnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv., en leyfi mér að vænta þess, að því verði vel tekið. Legg ég til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.