17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég get verið þakklátur hv. meiri hl. fjhn. fyrir að hafa í samræmi við yfirlýsingu hæstv. ráðh. komið nokkuð til móts við þá brtt., sem ég ásamt hv. 2. þm. Reykv. flutti á þskj. 204. 2. brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 213 er um þetta, og er þar svo ráð fyrir gert, hvað snertir elli- og örorkulífeyri, að það megi greiða hann með verðlagsuppbót, sem nemi allt að 315 vísitölustigum. Mér urðu það þó vonbrigði, hversu skammt er gengið til móts við brtt. okkar. Í fyrsta lagi er sá munur á þessari brtt. og þeirri, sem ég flutti ásamt hv. 2. þm. Reykv., að brtt. n. nær aðeins til elli- og örorkubóta, en mín brtt. tók til allra lífeyrisgreiðslna, þ. á m. til barna og mæðra og ekkna. Þá þykir mér það ljóður, að hér er aðeins um heimild að ræða: „Má þó greiða“ segir í brtt. og heimilað er að greiða verðlagsuppbót, sem „nemur allt að“ 315 vísitölustigum. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að þetta er meðalvísitala líðandi árs, 31ö stig, en vísitala yfirstandandi mánaðar er 328 stig. Og ég hygg, að ekki séu líkur til, að vísitala næsta mánaðar verði lægri en sú, sem við búum við nú. Mér virðist því, að hér sé um allverulega kjaraskerðingu að ræða gagnvart þeim aðilum, sem hv. frsm. tók réttilega fram, að hefðu naumast skorinn lífeyrinn, og allir eru sammála um, að sé minni en svo, að nægi til fulls til framfæris, þó að tilgangurinn með tryggingal. væri sá, að lífeyririnn entist til fulls framfæris. — Ég mun af þessum ástæðum ekki sjá mér annað fært en að endurflytja brtt. mína og hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 204, en tel þó hins vegar, ef svo færi móti von minni, að brtt. mín og hv. 2. þm. Reykv. næði ekki fram að ganga, að veruleg breyt. til bóta fælist í því að samþykkja 2. brtt. hv. fjhn. á þskj. 213.

Ég skal svo ekki eyða tíma í að fara út í fleiri brtt., sem hér liggja fyrir, né út í málið í heild sinni. Ég þykist hafa gert afstöðu mína til málsins ljósa og ekki hafa neinu við það að bæta.