27.02.1948
Efri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

38. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vil aðeins minna hv. frsm. meiri hl. n. á það, að það var óskað eftir því. að hæstv. iðnmrh. og hæstv. fjmrh. mættu á fundi í n., því að ef frv. verður samþ., þá hefur það mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð og ekki sjáanlegt, að nein vinna sparist í fjárhagsráði þrátt fyrir það. Þetta fékkst ekki, og það var ekki upplýst, hvað fjmrh. hefði sagt um fjáröflunarmöguleika. Hins vegar voru flutt meðmæli, munnleg þó, frá iðnmrh. Þó að ég hafi ekki farið inn á það og ætli mér ekki að gera nema að litlu leyti, þá er það augljóst að ef setja á á stofn skrifstofu, sem á að ráða innflutningi iðnaðarvara og hvaða iðnaðarverksmiðjur skuli reistar og hafi enn fremur eftirlit með þeim verksmiðjum o. s. frv., þá er það ekki eins manns verk að sjá um það allt, heldur kemur þetta til með að verða stór skrifstofa með miklu starfsliði. Á henni getur verið full þörf, en þá á ekki að láta fjárhagsráð gutla við sömu störf og taka skrifstofumenn til þess. Það má vera, að ætlunin sé, að ákvæði fjárhagsráðsl. um þessi efni falli úr gildi en þá á að láta slíkt koma greinilega fram.