17.12.1947
Efri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

115. mál, þurrkví við Elliðaárvog

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. landsk. flutt þetta frv. um þurrkví við Elliðaárvog. Frv. fer fram á, að ríkisstj. byggi þurrkví við Elliðaárvog og að til greiðslu kostnaðar við þetta verði ríkisstj. heimilað að taka allt að 15 millj. kr. lán eftir því sem verkinu miðar áfram. Þá er ákveðið, að 3/5 af þessu láni skuli endurgreiða af tekjum þurrkvíarinnar, en 2/5 úr ríkissjóði sem styrk til fyrirtækisins. Í 3. gr. eru fyrirmæli um það, að leita skuli samkomulags við hafnarstjórn Rvíkur um afhendingu á nægilega stóru landi undir þurrkvína og þau mannvirki, sem ætla má, að komið verði upp í sambandi við hana, og heimild fyrir ráðh. að fresta byggingu kvíarinnar að nokkru eða öllu leyti, þar til samningar hafa tekizt um afhendingu á landi. Þá eru einnig í frv. ákvæði um það. hvernig skipa skuli stjórn þurrkvíarinnar, og að síðustu ákvæði um afhendingu mannvirkisins til hafnarsjóðs Rvíkur.

Mér þykir rétt að gera nokkru nánari grein fyrir þessu máli. Árið 1943 var borin fram hér á Alþ. þáltill. um skipun mþn. til að rannsaka skilyrði fyrir byggingu og starfrækslu fullkominnar skipasmíðastöðvar í Rvík. Þessi þáltill. var samþ. 12. apríl 1943, og 28. júní sama. ár skipaði ráðh. n. þessa, með einum fulltrúa frá hverjum þingflokki. Í nóv. 1943 skilaði n. áliti — þetta nál. er í Alþt. 1943. þskj. 400 — og gerði þar ýtarlega grein fyrir málinu. N. var sammála um nauðsyn þess, að hafizt yrði handa í þessum efnum, og lagði til, að fyrst yrðu byggðar tvær þurrkvíar fyrir 400 og 6000 smálesta skip. Það var talið grundvallaratriði. N. lét í samráði við hafnarstjórn og hafnarstjóra velja land, og var það sameiginlegt álit að velja það við Elliðaárvog við ströndina fram undan Kleppi og nokkuð inn með voginum. Fyrst var athugað, hvort hægt væri að hafa þetta inni í sjálfri höfninni, en það sýndi sig að vera ómögulegt, og var þá bara um Elliðaárvog að ræða. Nú er einn ágalli á þessu, og hann er sá, að sjúkrahúsið Kleppur er svo nærri þessum stað. Rætt var við viðkomandi aðila um það, að sjúkrahúsið þyrfti að hverfa, ef stöðin yrði sett þarna upp, en það var álitið að þess yrði þörf hvort sem væri, enda er nú komið á daginn, að þarna er risið upp heilt þorp með 5–6 þús. íbúum. Það segir sig sjálft, að ekki er hægt að hafa geðveikrahæli inni í miðri borg.

Málið var borið fram á Alþ. 1943 og afgr. sem breyt. á hafnarl. Var ákveðið, að ríkissjóður greiddi 2/5 af kostnaðinum við að koma mannvirkinu upp, en tryggði lán til þessara framkvæmda, sem næmi 3/5 af kostnaðarverðinu. Síðan var rætt við hafnarstjórn Rvíkur, en hún treysti sér ekki til að ráðast í þessi mannvirki vegna aðkallandi framkvæmda inni í höfninni sjálfri, en kostnaður við þær er áætlaður um 8 millj. kr. Hér er um að ræða bátabryggjur, verbúðir og hafnarmannvirki fyrir hinn nýja togaraflota. Hafnarstjórnin taldi þetta svo aðkallandi, að ekki væri hægt að fresta því. Það er vegna þess, að hafnarstjórnin hefur ekki treyst sér til þess að ráðast sjálf í framkvæmdirnar við Elliðaárvog á næsta ári, að ég hef borið þetta mál fram. En það er vitað, að Alþ. veitir engan styrk til þess að bæta höfnina.

Mörgum þykir það kannske mikið að ætla 15 millj. kr. í þurrkví, en ég vil benda á, að þetta mannvirki er áraverk, sem verður að hefja því fyrr því betur. Það er því ekki vert að láta sér bregða, þótt tölurnar séu háar. N. taldi skyldu sína að benda á hvað þetta yrði dýrt og hve mikið land þyrfti og hún miðaði ekki áætlanir sínar við daginn, heldur til frambúðar. Ef til vill hefur þessi stórhugur n. tafið framkvæmdir. En það var eðlilegt að segja sem var um kostnaðinn. Því er ekki að leyna, að það verður dýrt, en það er svo mikil nauðsyn fyrir framtíð Rvíkur og landsins að það má ekki dragast miklu lengur. Nýlega samþ. Alþ. að heimila ríkisstj. að ábyrgjast 2,7 millj. kr. lán til þess að fullgera byggingu dráttarbrauta hér í Rvík, sem taka allt að 1500 smálesta þunga. Ég held að enginn þm. hafi mælt gegn því, að þessi ábyrgð væri veitt, enda var þetta aðkallandi, svo að hægt væri að draga hér á land hinn nýja fiskiflota og hin minni flutningaskip svo að ekki þyrfti að flytja viðgerðirnar út úr landinu. En ef þetta var nauðsyn, þá er sama nauðsyn fyrir hendi hvað stærri skip snertir, hinn nýja verzlunarflota, skip Eimskipafélagsins, er ekki komast í nýju dráttarbrautirnar, hvað sem að höndum ber. Ef það var óverjandi að hindra lausn þessara mála hvað snerti 1500 tonna skip og minni og stöðva þannig rekstur þeirra, þá er það ekki síður óverjandi að stöðva rekstur hinna stærri skipa.

Þá vil ég benda á það, að bygging þurrkvíar er frumskilyrði fyrir því, að unnt sé að koma hér upp skipasmíðastöð. Án þess verður þessum iðnaði ekki komið upp og iðnaðarmönnum tryggð sú mikla vinna, sem honum er samfara. Án þess er það ekki heldur tryggt, að útgerðarmenn þurfi ekki að senda skipin til annarra landa til þess að láta gera við þau. Alþ. hefur viðurkennt þessa nauðsyn með því að styrkja Reykjavíkurhöfn til þessara framkvæmda. Hér er ekki farið fram á aukastyrk. Í frv. er framlag ríkissjóðs bundið við 2/5 af kostnaði þurrkvíarinnar, eins og ákveðið er í gildandi 1. Því hlutfalli er ekki raskað í frv. Það er skýlaust rétt, að Reykjavíkurhöfn eigi að fá ábyrgð ríkissjóðs fyrir því láni, sem Reykjavíkurbær kynni að vilja taka allt að 3/5 kostnaðar. Þessi hlutföll hef ég ekki rakið í frv., svo að það ætti ekki að verða til trafala. Ég fer þess í stað fram á það, að Reykjavíkurbær hafi forgöngu, láti undirbúa málið og snúi sér síðan til ríkissjóðsins. Einkum er aðkallandi að afmarka það land, sem þarf að tryggja, til þess að þetta mannvirki komist upp. Það svæði sé ekki tekið til annarrar starfsemi og stöðvuð sé stækkun sjúkrahússins á Kleppi. Ef byrjað hefði verið á þessum mannvirkjum árið 1943. eins og ætlazt var til hefði aldrei verið horfið að því að láta mörg hundruð þúsund krónur í að byggja Kleppsspítalann. Þá hefði fyrir löngu verið búið að stöðva verkið í stað þess að halda áfram byggingu þeirra bústaða, sem þar eru nú. Það mun líka sannast, að fyrr eða síðar verður að flytja sjúkrahúsið í burtu, þótt ekki komi þarna upp þurrkví. Við þetta bætist, að komið hefur til mála, að stórútgerðin í Rvík fái stórt svæði við Laugarnes, og menn eru meira og meira að komast á þá skoðun, sem n. lagði fram 1943, að flytja yrði afgreiðslu útgerðarflotans frá Reykjavíkurhöfn og inn í Elliðaárvog.

Ég hef gert ráð fyrir að 15 millj. kr. þurfi til þess að koma upp þessu mannvirki. Þó skal ég geta þess, að ekki er gert ráð fyrir, að sjálf þurrkvíin kosti nema 8 millj., svo eru það tvær dráttarbrautir sem áætlað er að kosti um 5 millj., en það er ekki nauðsynlegt, að þær komi strax. Þá er stífla sem áætlað er að kosti eina millj. Enn fremur má gera ráð fyrir, að byggja þurfi varnargarð, en ég er ekki viss um, að hann þurfi að vera eins voldugur og hér er gert ráð fyrir, en það er áætlað að hann kosti 4 millj. kr., og svo þarf að byggja bryggjur. Ein upphæðin er jöfnun á lóð og vegir. Þetta er ekki gert ráð fyrir að þurfi að gera strax. Það er meira en 14.810.000 kr. Svo þótti okkur rétt að áætla 1½ millj. vegna hækkunar á vísitölunni, en með þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera ætti þess ekki að þurfa.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að ræða málið frekar en ég óska, að því verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr. og vænti, að það fái afgreiðslu frá þessu þingi.