24.10.1947
Neðri deild: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

41. mál, Faxaflóasíld

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég flutti frv. þessu samhljóða á síðasta þingi. ásamt hv. þm. Siglf. Það frv. komst til n., en dagaði svo uppi. Nú flytjum við þessir sömu þm. þetta frv. hér á ný. Aðstaða í þessum efnum hefur ekki svo breytzt, að ekki sé ástæða til að samþ. þetta frv., eins og einnig gilti í fyrra, þegar þetta mál var flutt.

Á undanförnum árum hefur oft verið mikil síldveiði við Faxaflóa, þó að þessari síldveiði hafi ekki verið gefinn sá gaumur sem skyldi. Nú á síðustu árum hefur þó veiðin þarna verið meiri en áður og í fyrra bárust ógrynni af síld á land við Faxaflóa. Þá kom einnig berlega í ljós, að ráðstafanir hafa ekki verið gerðar nægilegar til þess að koma þessari vöru, Faxaflóasíldinni, í gott verð. Sú útgönguleið í þeim efnum, sem þá var valin eftir miklar bollaleggingar, var að senda síldina norður í bræðslu. En á því voru margir erfiðleikar. Leiðin norður er löng, og margir erfiðleikar aðrir voru í því sambandi. Það er vitað mál, að þó að Faxaflóasíldin sé ekki eins góð til sumra nota eins og Norðurlandssíldin, þá er hún þó verðmikil, ef hún kemst í sæmilegu ástandi á erlendan markað. Þessi síld er ekki eins feit og Norðurlandssíld, og er það kostur út af fyrir sig, sem gerir það að verkum, að hún mundi seljast betur til vissra nota heldur en Norðurlandssíldin. Ýmsir einstaklingar hafa gert tilraunir til þess að hagnýta þessa síld og koma henni í verð, t. d. Haraldur Böðvarsson á Akranesi, sem gerði hverja tilraunina á fætur annarri til þess að koma þessari síld í verð og varð töluvert ágengt. Aðrir einstaklingar hafa líka gert slíkar tilraunir. En tilraunir þessara einstaklinga í þessa att hafa ekki verið samræmdar. — Fyrir stríð skapaðist mjög góður markaður fyrir Faxaflóasíld í Þýzkalandi, og voru fjöldamargir togarafarmar af þessari síld seldir þangað. Síldin var ísuð og síðan reykt. Og það var það, sem ég átti við áðan, er ég sagði, að þessi síld hefði kost fram yfir Norðurlandssíldina, að hún er ekki eins feit eins og síldin fyrir norðan og því hægt að reykja hana með góðum árangri. Og þess vegna var hennar mikið neytt erlendis.

Með þeim l., sem með frv. þessu er lagt til, að sett verði, er til þess ætlazt, að það verði létt af síldarútvegsn. áhyggjum vegna Faxaflóasíldarinnar. Það verður að viðurkenna það eins og það er, að síldarútvegsn. hefur að mörgu leyti vanrækt að sinna þessari síldveiði hér við Suðvesturlandið eins og skyldi. Má vera, að þar hafi valdið nokkru um, að n. hafi álitið, að með því að sinna meira um Faxaflóasíldina en gert hefur verið, mundi verða spillt fyrir markaðsmöguleikum fyrir Norðurlandssíld. En það virðist fjarri því, að svo mundi verða. Það virðist ekki vera erfiðleikum bundið að koma svo góðum mat í verð sem Norðurlandssíldin er, þó að meira væri að gert til að afla markaða fyrir og koma í verð Faxaflóasíldinni. — Ef málum væri svo fyrir komið eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá mundi vera hægt að samræma gerðir þeirra aðila, sem vildu beita sér fyrir að hagnýta sem bezt markaðsmöguleika, sem við höfum fyrir Faxaflóasíld, og einnig afla nýrra og betri markaða fyrir þessa síld. Og þó að nú sé lítil síldveiði við Faxaflóa sem stendur, þá er það ekki sönnun þess, að ekki sé nauðsynlegt, að sérstakar ráðstafanir séu gerðar til markaðsöflunar fyrir Faxaflóasíld. Síldin hefur brugðizt fyrir norðan líka, en samt hefur engum dottið í hug þess vegna að gera ekki ráðstafanir til þess að hagnýta síldina þar þegar hún kemur. Og það er ekki efa undirorpið, að síldin við Faxaflóa kemur, hvort sem það verður fyrr eða síðar.

Sem sagt, tilgangur þessa frv. er að skipuð verði n. til þess að skipuleggja og undirbúa öflun og hagnýtingu markaða fyrir þá síld, sem veiðist í Faxaflóa og í hafinu í kringum Reykjanes og Snæfellsnes.

Ég vona, að hv. d. sýni þessu máli velvild. og legg til, að málinu verði. að lokinni þessari umr., vísað til hv. sjútvn.