17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. — Það er nú sýnt, hvað verða vill hér í hv. d., eftir þá atkvgr., sem fram fór í gær. Þar með var í rauninni afráðið, hvernig fara mundi um þetta frv., og er það illa farið. Það er slæmt til þess að vita, að hv. þm. skuli ekki að þessu sinni hafa fengizt til þess frekar að beita viti og sannfæringu heldur en að hlýða fyrirskipun ríkisstj. Ég skal nú ekkert fara í neinar grafgötur um hvatir þeirra til slíks, það verða verkin fyrst og fremst, sem dæmd verða, þegar þar að kemur. Það er illt til þess að vita, að með þeim umr.. sem hér hafa farið fram, skuli hafa verið sýnt fram á og sannað, hvað það er fjarri því, áð þetta frv. nái þeim tilgangi, sem lýst var yfir, að það ætti að ná, sem sé að draga úr dýrtíðinni, og hins vegar, hvað sáralítið er gert að því að skipta þeim byrðum, sem sumir álíta að þetta frv. leggi á þjóðina, réttlátlega niður á alþýðuna. Ef einhverjir hv. þm. skyldu hafa tekið afstöðu til þessa máls út frá þeim hugmyndum, sem komu fram hér áðan í ræðu hv. þm. S-Þ., eins og hann komst að orði, að það væri enginn samstarfsmöguleiki til milli austurs og vesturs, og meinti hann auðsjáanlega með því milli auðvaldsstéttar og alþýðustéttar —, þá er það byggt á röngum forsendum. Ef einhverjar slíkar stórpólitískar kringumstæður skyldu vera þess valdandi, að þm. hafa tekið þessa afstöðu, sem þeir hafa gert, þá býst ég við, að það sé engum nauðsynlegra að gera sér það ljóst heldur en íslenzkum alþm. nú, sem Wendell Willkie, fyrrv. forsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum, var í stríðslokin að reyna að gera heiminum ljóst í bók sinni One World, sem mikið var um rætt og búið til það vígorð út af, að annaðhvort yrði til einn heimur eða enginn heimur Ef það ætti eftir að koma til styrjaldar milli þessara andstæðna, þá skulum við gera okkur það ljóst, að það er eins vel mögulegt, að enginn heimur verði til eftir það. En alveg sérstaklega ber okkur þó hér á Íslandi, sem almennt er talið liggja á mörkunum milli þessara heima hernaðarlega, að gera okkur það ljóst, hver hætta er á ferðum fyrir okkar land. Hér kæmi ekki til með að standa styrjöld um það, hvort verkalýður eða auðmannastétt, hvort austur eða vestur yrði ofan á, ef til átaka kæmi, heldur yrði það spursmálið hjá okkur, hvort íslenzka þjóðin yrði til að slíkum hildarleik loknum. Við skulum þess vegna ekki láta neinar slíkar stórpólitískar bollaleggingar blandast inn í okkar mál hér á Íslandi. Sé ótti við það hins vegar, að verzlunarlga verði hugsanlegt samstarf milli stærstu þjóðanna í heiminum, þá býst ég við, að það mundi skiptast öðruvísi en milli austurs og vesturs, sem hv. þm. S.Þ. talaði um.

Það var sagt í útvarpinu í dag eða í gær, að Kanada væri að draga stórkostlega úr allri sinni verzlun við Bandaríkin vegna dollaraskorts og slíta þau miklu verzlunarsambönd, sem þar hafa verið á milli. Annan dag var sagt í útvarpinu, að Bretland væri að gera mikla samninga við Ráðstjórnarríkin og undirbúa samninga til margra ára. Verzlunarsambönd milli þjóðanna í heiminum koma til með að verða hnýtt næstu vikur meir en áður, og hvort sem núverandi forráðamenn Bandaríkjanna kjósa að taka þátt í því samstarfi eða ekki, og hvort sem það verða Kanada, Bretland, Sovétríkin eða önnur ríki, sem taka þátt í því samstarfi, þá verða áreiðanlega ekki lengur við völd þeir forráðamenn Bandaríkjanna, sem kjósa að slita verzlunarsamböndum við aðrar þjóðir í heiminum og leiða þar með kreppu yfir sitt land. Það voru slíkir forráðamenn við völd í Bandaríkjunum 1929 og áfram í 3 ár, en þá var það stefna Roosevelts, sem varð ofan á. Við eigum ekki að láta slíkar stórpólitískar bollaleggingar blandast inn í það, sem við erum að vinna hér. Ef við ætlum að verða okkar þjóð til gæfu nú, þá eigum við að reyna að okkar litlu leyti að taka þátt í því, að veröldin verði einn heimur, hvaða stórveldi eða smáþjóð sem við komum til með að skipta við eftir okkar verzlunarhagsmunum á hverjum tíma og eftir okkar möguleikum til að tryggja okkar hagsmuni í framtíðinni, hvað okkar vöruviðskipti snertir. Hins vegar sýnist mér, að með þessu frv., þar sem allar brtt., sem fluttar hafa verið við 2. umr., hafa verið felldar, sé leikur til þess gerður af hálfu auðmannastéttar landsins að egna hér til ófriðar.

Það var sýnt fram á það við 1. og 2. umr., að það væru einvörðungu tekjur launþega og tilfinnanlegast þeirra lægst launuðu, sem skertar væru. Ákvæði þessa frv. gagnvart hinum tekjumestu eru í þveröfugu hlutfalli við allar þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið af Alþ. um skatta og annað slíkt. Þar er gengið út frá því, að menn eigi að fórna því meir, sem þeir hafa meiri tekjur — því hærri tekjur, því hærri stighækkandi skattar. Hér er aftur á móti miðað við 10% til að byrja með, jafnt hjá þeim lægst launuðu sem þeim hæst launuðu. Maður, sem hefur 2000 kr. til að lifa af á mánuði, verður að láta sínar 180–200 kr. strax og kannske meira seinna. Þetta er að leggjast á smælingjann. Það er fjöldi manna hér í Reykjavík og annars staðar á landinu, sem hefur gert sínar fjármálalegu ráðstafanir á undanförnum árum út frá því öryggi, sem frjálsir samningar í lýðræðislegu þjóðfélagi hafa veitt þeim og l. samin af Alþ. hafa veitt þeim. Það er fjöldi manna, sem lengi hefur langað til þess að eignast þak yfir höfuðið, sem hefur keypt slíkar íbúðir og steypt sér í skuldir til þess. Þessir menn hafa reiknað með því, að þeir yrðu að vísu að leggja allmikinn hluta af sínum tekjum í þetta, en þeir hafa reiknað með ákveðnum tekjum, sem þeir annars vegar hafa fengið með frjálsum samningum, en hins vegar með launal., sem Alþ. hafði samþ. og bæjar- og sveitarfélög líka farið eftir. Ég veit um fjölda manna, sem vegna þessarar launalækkunar nú koma til með að geta ekki staðið í skilum með afborganir og vexti af sínum íbúðum og sínum húsum hafa átt erfitt með það fyrir, en er það ókleift nú. Upphæð skuldarinnar kemur til með að standa við það sama og áður, þó að það sé álit stjórnarliðsins, að raunverulegt gildi peninganna ætti að hækka. Eftir að okkar þjóð hefur þó orðið það rík eins og hún er nú, þá hafa menn haldið, að hún leyfði sínum þegnum að eignast þessar sjálfsögðu nauðsynjar, en nú grípur ríkið inn í og sviptir frá þessum rétti. Fyrir hverja? Þegar einstakir launþegar geta ekki lengur staðið í skilum sakir vaxta og afborgana, þá eru nógir ríkir menn í þessu þjóðfélagi reiðubúnir til að kaupa, þegar boðið er upp. Tekjur þeirra ríku manna eru ekki skertar með þessu frv., hvergi með einum einasta lið. Þess vegna kemur þetta þannig úf, að frv. verður ránsferð á hendur þeim, sem lægstar hafa tekjurnar, þeim. sem hafa vonazt eftir því að geta orðið efnahagslega sjálfstæðari en áður — þetta verður ránsherferð fyrir þá, sem eignir eiga, það gerir þeim léttara að kaupa upp íbúðir, hús, mótorbáta og önnur atvinnutæki, þegar um slíkt er að gera. Innihald þessa frv. verður þess vegna það að gera þá fátæku, sem hafa gert sér vonir um að verða efnahagslega sterkari en áður, ennþá fátækari, en þá ríku ennþá ríkari. Alþýðan, og þá fyrst og fremst launþegar, er látin borga allt, sem borgað er með þessum i. Auðmannatekjurnar eru ekki að nokkru leyti teknar til þeirra þarfa fyrir þjóðfélagið, sem ríkisstj. segir, að verið sé að þjóna með þessu frv. Ég þykist hins vegar vita, að það muni ekki þýða að vera að móralísera sérstaklega mikið yfir þm., vegna þess að þeir munu vera búnir að ráða það við sig að framkvæma óréttlætið, sem hér á að gera, hvaða afleiðingar, sem það hefur, en með því eru þeir að afnema réttaröryggi, sem einstaklingarnir hafa treyst á. Í þessu þjóðfélagi hefur verið reynt að fá menn til þess að viðurkenna það þó a.m.k., að skuldir manna og vexti af skuldum ætti að rýra að sama skapi, þegar þannig er ráðizt á launþega, en því fer svo fjarri, að tekizt hafi að sannfæra meiri hl. um slíkt. að þvert á móti hafa komið fram yfirlýsingar um, að vextir verði endilega að hækka, það sé nauðsynlegt, að bankavaldið gangi harðar að en gert hefur verið undanfarið, enda mun það ekki vera nein tilviljun, að bankavaldið er að búa sig undir að fara að bjóða upp dálítið af eignum millistéttarmanna næstu dagana. Það á að níðast á þeim, sem fara illa út úr síldarvertíðinni, og þeim, sem verða fyrir launalækkun nú og þess vegna eiga bágt með að standa í skilum. Síðan er verið að telja mönnum trú um, að það sé stefnt að því í þessu þjóðfélagi, að hver maður geti orðið bjargálna, og Framsfl. hefur jafnvel alveg sérstaklega lagt áherzlu á, að menn fengju tækifæri til þess. Við sósíalistar höfum barizt fyrir því, að mönnum yrði þetta mögulegt, að menn gætu eignazt íbúð yfir höfuðið og örugga atvinnu, og þá er þetta svarið, sem ríkið gefur þeim, að hjálpa bönkunum og þeim ríku í landinu í ránsherferð þeirra, hjálpa þeim, sem koma til með að græða á launalækkun fólksins. Það er ekki nóg með það, að það hafi verið viðurkennt í þessum umr., að hér væri launalækkun framkvæmd, heldur hefur því líka verið yfir lýst, að þetta væri fyrsta skrefið, grundvöllur, sem lagður sé, síðan verði haldið áfram.

Það hefur verið á það bent af hálfu sósíalista, að með samþykkt þessa frv. fengi ríkisstj. vald í hendur, til þess að lækka kaupíð ennþá meira með því að draga úr niðurgreiðslum á vísitölunni, og sú ríkisstj., sem lýsir yfir, að þetta sé aðeins fyrsta skrefið og aðalatriðið í því að binda vísitöluna, mun varla hika við það að stíga fleiri skref, þegar hún er búin að fá frá Alþ. valdið til þess. Þess vegna höfum við reynt að fá hér fram yfirlýsingar hjá ríkisstj. um, að það sé ekki meiningin að draga úr þessum niðurgreiðslum, en það hafa engar slíkar yfirlýsingar fengizt. Hv. alþm. verða þess vegna að gera sér það ljóst, hvaða vald þeir eru að gefa ríkisstj. með þessu, því að það er á þeirra valdi, hvernig hún kemur til með að nota sér þetta vald á næstunni. Ríkisstj. hefur reynt að bera það fyrir sig, að verið væri að reyna að tryggja atvinnu með þessu, en hún hefur ekki svo mikið sem getað gefið yfirlýsingar um, að sjávarútvegurinn fari af stað samkvæmt þessum l. Ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að gefa þær yfirlýsingar, og það þýðir, að ríkisstj. veit, að það eru hverfandi litlar líkur til þess, að sjávarútvegurinn fari af stað á vetrarvertíðinni með þessum l. Nú vitum við, hvað ríkisstj. mundi þá segja, hún mundi líklega segja: Það er auðséð, að þetta er ekki nóg, það þyrfti að gera meira. — Þetta býst ég líka við, að sé þeim þm. ljóst, sem þetta styðja. Það er þess vegna rofið skarð í múrinn, sem nú á að höggva, síðan er meiningin að fara á eftir. En þetta verður þjóðinni líka ljóst, og launþegum, og út frá þessu koma þeir til með að breyta.

Ríkisstj. hefur sem sé ekki einu sinni getað gefið þær tryggingar, að sjávarútvegurinn fari af stað. Hefur hún þá reynt að gefa Alþ. tryggingu fyrir því, að ekki verði atvinnuleysi? því fer svo fjarri, að ríkisstj. virðist þessa dagana vera að lýsa því yfir með verkunum gagnvart alþjóð, að hún ætli ekkert um það að hugsa, hvort nokkur atvinnurekstur verður í þessu landi, það verði aðrir aðilar, sem því eigi að ráða. Niður á hafnarbakka er lítt starfhæft fiskiðjuver, sem ríkisvaldið á, af því að Landsbankinn neitaði ríkisstj. um lán til rekstrarins. Ég ætla ekki að fara inn á landsbankavaldið að þessu sinni, en öll blöð bæjarins hafa bent á þessa eign og ríkisstj. er svo umkomulítil, að hún hefur hvorki treyst sér til að mótmæla þar neinu né gera neitt. Það sýnir bezt, hvernig hún lítur á sig sem nokkurs konar minnsta fingur fyrir alla embættismenn ríkisins og bankana, sem með þessu móti geta haft vald til þess að stöðva atvinnureksturinn í landinu. M.ö.o., sjálf ríkisstj. og atvinnulífið í landinu er í hendi örfárra steinrunninna embættismanna, sem gera það, sem þeim þóknast, í þessu sviði, hvernig sem þjóðin kvartar, og hafa ekki einu sinni svo mikið við að reyna að verja sínar aðgerðir frammi fyrir þjóðinni. Þetta er ekki lýðræði og ekki þingræði, þetta er embættismannaeinræði — einræði ábyrgðarlausra manna, sem í skjóli þess, að þeir séu ævilangt settir sem embættismenn bankanna, ætla án allrar ábyrgðartilfinningar gagnvart þjóðinni að segja, að þetta sé gert til þess að tryggja atvinnuna. Þess vegna hefur þetta heldur ekki við neitt að styðjast.

Þá hefur ríkisstj. lýst því yfir, að þetta frv. eigi að verða til þess að vinna á móti dýrtíðinni, en enginn maður hefur dirfzt að koma fram við allar þessar umr. í þinginu, sem hefur reynt að sanna það, að þetta frv. yki ekki dýrtíðina.

Hæstv. ríkisstj. hefur reynt að blanda inn í þetta mál horfum viðvíkjandi sölu á íslenzkum afurðum, og það hefur verið reynt að gefa til kynna, að söluhorfur á þeim mundu batna. En hæstv. ríkisstj. hefur engin rök getað fært fyrir þessu. Ég er margbúinn að benda á og spyrja ríkisstj. að, hvers vegna hún er ekki búin að selja íslenzku afurðirnar, og hef ekki fengið eitt einasta svar. Hvers vegna hefur ríkisstj. ekki viljað athuga, hvaða verð hægt er að fá erlendis fyrir íslenzku afurðirnar, áður en stofnað væri til ófriðar í landinu út af því, hvað verðið ætti að vera? Hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað sannprófa það. Hún neitar að nota tækifæri, sem hafa gefizt, og gengur svo langt að banna sínum sendimönnum að undirskrifa samninga við erlendar þjóðir um hraðfrysta fiskinn fyrir ábyrgðarverð eða hærra, hindra, að slíkir samningar verði gerðir fyrir fram, svo að það þurfi ekki að standa neins staðar, að í mörgum löndum væri hægt að fá ábyrgðarverð fyrir fiskinn okkar. Stjórnin hefur samtímis reynt að skrökva því að þjóðinni. að ekki væri hægt að fá verð fyrir þær, og reynt þannig að nota söluhorfur á íslenzkum afurðum sem rök fyrir frv. Þetta er blekking. Stjórnin mun ekki komast hjá því, þó að hún geri tilraunir til þess, að gera slíka samninga við aðrar þjóðir, þó að hún verði búin að koma fram þessari launalækkun. Hún þykist vita, að það kunni að liða tími, þar til starfsmenn ríkisins eru búnir að bæta sín laun, enda veit hver þm., að horfur á að skera niður laun starfsmanna ríkisins eru hverfandi litlar. Þetta er eins og hver annar almennur niðurskurður og launalækkun, en stendur ekki í neinu sambandi við erlenda markaði. Það er bara blekking. M.ö.o., allt. sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt sem röksemdir við þetta frv., það er blekking, sem að vísu er hægt að reyna að þyrla framan í alþýðumanna, en ég býst ekki við, að nokkrir þingmenn trúi sjálfir. Þess vegna er nauðsynlegt að draga þetta fram, svo að þm. okkar séu sér þess fyllilega meðvitandi, hvað þeir eru að gera. Ósvífin launalækkun, sem þingið réttir að þeim, sem lægst eru launaðir, verður samtímis því, að tekjum auðmanna er hlíft, og án þess að þetta tryggi hag manna eða dragi úr dýrtíð eða veiti þjóðinni nokkurt það öryggi, sem hún lætur í veðri vaka, enda sýnir það sig líka í þeim umræðum, sem hafa orðið um málið, að stjórnin grípur til annarra hluta en umræðna um málið, alls konar mannskemmandi lyga og annars slíks, sem þeir setja í Morgunblaðið til að blekkja fólk, svo að ekki sjáist, hvað þeir eru að gera. Hins vegar skal ég víkja að því, sem hv. 4. þm. Reykv. kom hér að í gær, um stefnu Íslendinga, hvað snertir aforðasölumálið, þar sem hann minntist á, að það að selja til meginlandsins væri í raun og veru sama og gengislækkun vegna þess verðlags, sem þar er.

Ég veit ekki, hvort hv. 4. þm. Reykv. hefur gert sér far um að kynna sér þær röksemdir, sem við sósíalistar höfum flutt fram, hvaða stefnu við álítum skynsamlegasta í afurðasölumálinu. Það er tvennt, sem við höfum lagt áherzlu á. Það er ekki í fyrsta lagi vöruskiptaverzlun, eins og hann sagði, þó að hún kæmi sem afleiðing. Það er í fyrsta lagi lögð áherzla á að ná þeim mörkuðum fyrir afurðir okkur, sem bregðast ekki í framtíðinni. Ég hef fært rök fyrir því, að þjóðirnar á meginlandi Evrópu, sérstaklega þær, sem eru minnstar fiskveiðiþjóðir, væru að ýmsu leyti. eðlilegustu kaupendurnir að vörum okkar. Og ég býst við, að það hafi verið staðfest sem kunnugt mál, að þjóðir eins og Englendingar, Frakkar, Hollendingar og Þjóðverjar, þó að þar séu góðir viðskiptavinir nú, mundu ekki verða það í framtíðinni. Þetta eru allt gamlar fiskveiðiþjóðir, sem veiddu sérstaklega á Íslandsmiðum og allar búa sig undir það nú, þegar þær eru lausar við vandræði þau, sem nú steðja að þeim, að taka upp slíkar veiðar í stórum stíl á ný, þannig að þótt það séu ýmsir kostir á því nú fyrir okkur að selja á „business“-mörkuðum í Englandi og Þýzkalandi í ár, þá vitum við, að undir eins og þessar þjóðir losna úr þessum vandræðum, þá verða þar ekki lengur markaðir fyrir okkur. Þess vegna er það, ef við hugsum okkur verkaskiptingu í Evrópu, hvað hagnað snertir í framleiðslunni, það eðlilegasta, sem við getum hugsað okkur, að við Íslendingar, sem höfum ein beztu fiskimið í heiminum, veiðum handa þeim þjóðum, sem ekki eiga land að Atlantshafi. Ég vil leggja áherzlu á þetta tækifæri, sem nú er. Þjóðir eins og Tékkóslóvakía, sem borðuðu minnstan fisk fyrir stríð, eru nú komnar á bragðið — og þykir fiskurinn góður. Við ættum að nota þessa markaði, sem gætu orðið framtíðarmarkaðir, en ekki hugsa um augnabliksaðstöðu þá, sem er nú í Evrópu, enda væru þetta eðlilegustu markaðir okkar sem fiskveiðiþjóðar.

Í öðru lagi höfum við sósíalistar lagt áherzlu á það, að þær þjóðir á meginlandi Evrópu, sem tækju upp áætlunarbúskap og þá um leið sósíalistíska búskaparháttu, væru öruggustu markaðir, sem við getum fengið, fjárhagslega séð, vegna þess að þjóðir, sem koma þeim búskap á hjá sér, geta með verzlunarsamningum tryggt, að við getum árlega selt svo og svo mikið af framleiðslu okkar. Áætlunarbúskapur hjá ýmsum þjóðum á meginlandi Evrópu mundi skapa okkur það, sem okkur vantaði fyrir stríð, þ.e. örugga markaði. Við, sem þekkjum kreppur og vandræði millistirðsáranna, vitum, hvað slíkt þýðir. Það er afleitt, þegar við erum að ákveða okkar viðskipti pólitískt, þá skuli svo skammsýn sjónarmið ráða og ekkert hugsað um, hvað verður á komandi árum.

Hver einasti hagfræðingur veraldarinnar, að minnsta kosti ef hann hefur einhverja hugmynd um áætlunarbúskap, gengur nú út frá því, að áður en eitt eða tvö ár séu liðin, muni Bandaríkin koma á hjá sér stórfelldri kreppu, sem ef til vill yrði ægilegri en 1929. Við vitum, að sá möguleiki, sem Bandaríkin hafa helzt með núverandi stjórnarfari til þess að afstýra slíku, væri það sama sem Þýzkaland greip til 1933, að koma á hjá sér meira eða minna fasistísku fyrirkomulagi, þannig — að hervaldið gleypti vinnukraft og getu þjóðarinnar í framleiðslunni, svo að offramleiðslan, sem valdið hefði kreppunni. færi í hervæðingu. Slíkt mundi á endanum leiða til styrjaldar. Sá möguleiki er líka til, þó að litlar líkur séu fyrir honum, að svipuð stefna komist til valda og kom 1932, þegar Roosevelt kom þar til valda. Til þess eru mjög litlar líkur.

Fyrir okkur Íslendinga hins vegar, sem erum að ráðgera nú um okkar atvinnulíf, hvað framtíðina snertir, og höfðum nú í haust m.a. tækifæri til að skipuleggja, hvernig okkar atvinnulífi yrði háttað og verzlunarsamböndum, við þyrftum að gera okkur ljóst, hvaða hætta er þarna fram undan. Ég held, að það hefði farið betur, að þeir sérfræðingar, sem ríkisstj. átti í þeim málum, sem snerta hagfræði, hefðu leiðbeint henni alvarlega um, hvaða ráðstafanir væru nauðsynlegar til að forðast, að kreppa skylli á okkur eftir 2–3 ár. Þess vegna færi það saman. hvað slíkt snertir, markaðsöflun á meginlandi Evrópu og ráðstafanir gegn þeirri kreppu, sem býr um sig í Bandaríkjunum.

Þetta er það tvennt, sem eru höfuðatriði til þess að tryggja framtíðarafkomu okkar Íslendinga. Það hefði verið æskilegt að geta nú tryggt þessi viðskiptasambönd. Hins vegar er þannig með fjölmörg þessi lönd, að það hefði leitt til vöruskipta. T.d. hafa viðskiptin við Sovétríkin gefið okkur mest af frjálsum gjaldeyri. Við munum hafa flutt þangað fyrir eitthvað um 18 millj. króna. en ekki keypt af þeim nema fyrir ca. 10 milljónir. Á sama tíma höfum við keypt frá 15retlandi fyrir 90 millj., en aðeins selt þangað fyrir 11 millj. Viðskiptin eru þannig miklu hagstæðari við Rússland. Hins vegar fær það ekki staðizt, að vörur í vöruskiptalöndunum séu, ef rétt er valið úr, með óhagstæðari kjörum en þær, sem við kaupum í Englandi.

Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvernig á því stæði, að það skorti allan undirbúning í slíku. Það hafa ýmsir athugað þetta, og það eru komnar niðurstöður. Ég veit, að það er fjöldi af vörum, sem hægt er að kaupa með jafn góðu verði í þessum löndum og í Englandi, og fleiri, ef Bandaríkin eru tekin, og er þá mikið sagt.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði líka í gær, að við gætum ekki fengið allar vörur, sem við kaupum annars í þessum löndum. Ég býst við, að allar vörur, sem við flytjum inn, getum við fengíð í þessum löndum. En innflytjendur vorir eru allt saman hringar og hagsmunir þeirra látnir sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum þjóðarheildarinnar. Þess vegna höfum við sósíalistar hugsað okkur, að það væru „centraliseruð“ innkaup. Ég vildi aðeins minnast á þetta út frá því, sem mikið hefur verið rætt í þessu sambandi, og ítreka þar af leiðandi einu sinni enn, að það er enginn grundvöllur fyrir þeim staðhæfingum, sem fluttar eru af hæstv. ríkisstj., að það sé vegna dýrtíðar, slæmra söluhorfa og til að tryggja atvinnu, að þetta frv. sé sett. Mér liggur við að segja, að inngangurinn að þessu frv. ætti að orðast eitthvað á þessa leið: „Til að vinna að verðbólgu og dýrtíð, stemma stigu fyrir atvinnu og draga úr framleiðslu til gjaldeyrisöflunar.“ Það er öllu snúið öfugt í þeim röksemdum, sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt fram. Það sést líka á þeim skrifum, sem samtímis fara fram í Morgunblaðinu, að það mun vera til þess ætlazt, að áróðursvaldi þess takist að villa svo sýn fyrir fólkinu, að það viti ekki, hvað sé verið að gera. Ég held, að þrátt fyrir útbreiðslu þess, sé það eitt af því, sem Sjálfstfl. eða sá maður, sem þar hefur mest völd, hæstv. dómsmrh. Bjarni Benediktsson, reiknar skakkt út. Morgunblaðið er útbreitt blað, en það er ekki þar með sagt, þótt fólk lesi það, að það trúi því. Ég vil minna stjórnarliðið á það, að þegar sams konar stefna og það heldur nú fram var í Bandaríkjunum, voru þeir vissir um að vinna kosningarnar, vegna þess að þeir höfðu 90% af blöðum þjóðarinnar með sér. Þetta voru átökin milli Roosevelts og afturhaldsins. Roosevelt hafði 10% af blaðakostinum yfir að ráða. En kosningin fór þannig, að Roosevelt varð ofan á. Skynsemi fólksins verður yfirstrikun á öllum áróðri og lygum, sem auðmannastéttin beitir í sínum mikla blaðakosti.

Hver einasti launþegi Reykjavíkur veit næstu daga, hve miklu af mánaðarkaupinu er stolið úr vasa hans með þessum lögum. Af 2000 kr. verða það 180–200 kr. á mánuði. En menn spyrja: „Á hvern hátt voru tekjur auðmanna skertar?“ — og menn fá svarið : „Á engan hátt.“ Staðhæfingar Morgunblaðsins eru þannig rangar. Svo er hins vegar rétt fyrir hv. þm. að gera sér ljóst, að af þessu draga menn ályktanir og segja: „Hér er ráðizt á launþega landsins eingöngu, þá menn, sem vilja gera þetta þjóðfélag þannig úr garði, að allir geti búið við sæmileg kjör. Það er ekki ætlazt til þess. Nei, það er ætlazt til, að 200 milljónamæringar í Reykjavík, sem eiga 500 milljónir í skuldlausri eign skv. mati, þeir fái að verða enn ríkari en áður. Það fá þeir með því, að tekjur fólksins eru lækkaðar.“ Meiri hluti Alþ., Alþfl. sem höfuðaflið, Sjálfstfl. og Framsfl., eru þjónar þessara 200 milljónamæringa. Þeir ráðast á launþegastéttirnar, af því að þeir halda, að þær séu valdalausar. Launþegastéttirnar eru þó tvisvar búnar að hrinda af sér árásum, þó að þær hafi ekki verið eins ósvífnar og sú, sem hér er á ferðinni.

Ég vildi aðeins segja þessi orð hér við síðustu umræðu málsins í þessari deild, ekki af því að ég búist við, að þau hafi svo mikil áhrif, heldur til þess, að þeim sé engin vörn eftir skilin, hvað síðari tímann snertir, svo að þeir geti ekki afsakað sig með því, að þeir hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera.