07.10.1947
Neðri deild: 4. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir er ekki nýtt hér í þingsölunum, eins og hv. þm. er kunnugt. Það var flutt hér í fyrra og rætt og skýrðar ástæðurnar fyrir því að það var flutt. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda hér langa tölu um þetta frv. vegna þess, hve þetta mál er mönnum kunnugt og því fylgir glögg grg. Ég vil aðeins segja það, að sjómennirnir sjálfir hafa sýnt sinn lifandi áhuga fyrir málinu og sent hingað til Alþ. áskoranir um að samþykkja frv., og liggja nú fyrir Alþ. áskoranir frá flestum starfandi togarasjómönnum í landinu.

Hér er um svo mikið réttlætismál að ræða. að það ætti skilið að fá fljóta og góða afgreiðslu í þinginu. Vil ég mælast til þess að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.