05.03.1948
Neðri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég get líka lofað því að vera stuttorður. Það fóru fram nokkrar umr., þegar málið kom úr n. í fyrra, þó að umr. yrði ekki lokið þá. Gerði ég þá grein fyrir minni afstöðu til málsins í allýtarlegu nál., sem ég skilaði þá og er ekki ástæða til að endurtaka það. en ég vil aðeins drepa á höfuðatriðin sem eru þau, að eins og nú standa sakir, eiga togaramenn að hafa 8 tíma hvíld á sólarhring, þ. e. a. s. þeir eru skyldir til að vinna 16 tíma á hverjum sólarhring. Höfuðrökin fyrir að leiðrétta þetta hvíla á þeirri staðreynd. að það eru engir aðrir menn í þessu landi, sem er upp á lagt að vinna annað eins og þetta. Þetta misræmi verður að leiðrétta.

Því hefur verið haldið fram að sérstaklega stæði á með togaramenn, þó að þeir ynnu svo langan tíma, af því að þeir hefðu hlé á milli, og því væru togarasjómenn sjálfir ekki sérstaklega spenntir fyrir þessu máli, heldur væri verið að ýta málinu fram af pólitískum ástæðum. En eftir að málið var flutt á þingi í fyrra af sömu mönnum og flytja það nú, þá gekk bylgja um allan togaraflotann, og mikill hluti starfandi togaraháseta hefur sent áskorun til Alþ. um að lögfesta frv. um að hækka hvíldartímann úr 8 stundum í 12 stundir. Þar með er slegið föstu, að togaramenn telja þetta óhjákvæmilega nauðsyn og réttlætismál. Hitt þarf ekki að ræða, að það er óhæfa að ætlast til þess, að sjómenn á togaraflotanum vinni 16 tíma á sólarhring, þegar 8 tíma vinnudagur er viðurkenndur í landi, enda býst ég við, ef saman er borið það erfiði og vosbúð, sem fylgir þessu starfi, þá muni vera leitun á störfum hér á landi, sem eru jafnerfið og vosmikil eins og einmitt þessi störf eru. Gegn þessu hefur af hálfu útgerðarmanna, sem skrifuðu bréf til sjútvn. í fyrra, þegar þeir voru beðnir umsagnar um þetta mál, verið haldið fram, að þetta mundi íþyngja svo rekstri togaranna, að ekki væri hægt að leggja þetta á hann, eins og nú standa sakir. Í fyrsta lagi eru það ekki gild rök gegn málinu. Það er ekki enn þá reynt, hversu mörgum mönnum þyrfti að bæta við eða hvort það þyrfti að bæta mönnum við. Sumir draga í efa, að það þurfi að bæta við mönnum, vegna þess að vinnan nýtist betur, mönnum vinnist betur með 12 tíma hvíld en með 8 tíma hvíld. Ég býst við, að einmitt sá skriður, sem hefur komið á málið, síðan það var tekið upp í fyrra, hafi orðið þess valdandi, að ýmsir útgerðarmenn hafi farið að verða í mjög miklum vafa um, að rétt sé að hamast eins mikið á móti málinu eins og þeir virtust ætla sér að gera í fyrstu. Og þó að það þyrfti að fjölga á togurunum, sem getur ekki orðið nema 2–3 menn, þá er það atriði vitanlega ekki nægileg rök. Ef okkar útvegur þolir þetta ekki, þá verður að leysa það á annan hátt en að ætla þeim, sem þessi störf vinna, að leggja miklu meira á sig en aðrir gera. Það er því óhæfa að bera slíkt fram sem rök gegn 12 stunda hvíldartíma. Ég býst við að flestir séu sammála um, að það sé ekki hægt að létta rekstur útgerðarinnar með því að leggja verkafólkinu, sem við hana vinnur, þær skyldur á herðar að vinna lengur en aðrir og lengur en hæfilegt er.

Þetta mál er því mannréttindamál, sem ekki er hægt að smeygja fram hjá sér. Það er ekki forsvaranlegt að búa þannig að mönnum, sem starfa við einn allra þýðingarmesta atvinnuveg þjóðarinnar, að þeir þurfi að vinna helmingi lengri tíma en almennt er viðurkennt við störf manna í landinu. Þetta er mannréttindamál, sem hlýtur að ná fram að ganga. Og ef maður ber saman undirtektir undir málið nú og í fyrra, þá sér maður að það hefur þegar nokkuð áunnizt. Og þeir, sem vilja standa gegn málinu nú, geta verið vissir um, að þó að það verði nú fellt, þá er það ekki búið að vera, það verður tekið upp aftur og aftur, og fylgi þess eykst, þar til gengið verður inn á þessa mannréttindakröfu sjómanna. Í fyrra afgr. sjútvn. málið á þann hátt, að ég var einn um að frv. yrði samþ. óbreytt. Sjálfstæðis- og framsóknarflokksmenn lögðu til, að það yrði fellt, en fulltrúi Alþfl., hv. þm. Ísaf., var ekki við því búinn að taka afstöðu til frv. Frv. hafði áður verið sent til umsagnar sjómannafélögunum í Reykjavík og Hafnarfirði. Sjómannafélagið í Hafnarfirði tók það fyrir á fundi og samþykkti að lýsa fylgi við það, þó að sú ályktun bærist ekki í hendur n. Í umr. hér á Alþ. um þetta mál talaði enginn af hálfu Alþfl. En þetta hefur málið þó þokazt áfram. að nú hefur hv. þm. Ísaf., sem er fulltrúi flokksins í sjútvn., gengið það langt að hann vill láta vísa málinu til ríkisstj. til athugunar. Hv. þm. Ísaf. kom þetta ráð ekki til hugar í fyrra. Þá taldi hann að málið væri þannig og undirtektir, að óhætt væri að fella það. Nú er honum ljóst, að sú alda, sem gengur yfir flotann út af þessu máli, er það þung, að ekki tjáir að streitast á móti. Og nú er allt í lagi með að segja: Við erum með þessu máli, en það verður að athugast betur. — Þeir menn sem í fyrra lögðu til, að málið yrði fellt og eru enn þá andvígir því, geta fallizt á þá leið að vísa málinu til ríkisstj. Þar með er því komið fyrir kattarnef a. m. k. í bili. Hér er því ekki um annað að ræða en það að breyta forminu á að fella málið. Þess vegna gat ég ekki fallizt á að vísa málinu til ríkisstj. Ég tel málið þrauthugsað. Sjómenn eru búnir að gera málið upp við sig og eru allir sem einn maður fylgjandi því. Hv. þm. eiga ekkert annað eftir að rannsaka en hug sinn um það, hvort þeir vilja synja sjómönnum um þau réttindi sem verkamenn í landinu hafa fengið almennt viðurkennd, og hvort sjómenn eigi þannig að sitja við skarðari hlut heldur en almenningur í landinu. — Það verður fróðlegt að heyra, hvernig með þetta mál verður farið og þótt svo fari enn, að þingmeirihlutinn vilji ekki fallast á að lögfesta 12 tíma hvíldartíma fyrir háseta á togurum, er ég viss um að hér er aðeins um tímaspursmál að ræða, þar til hann sér sér ekki lengur fært að ganga gegn því, að þetta réttindamál sjómannastéttarinnar verði lögfest.