05.03.1948
Neðri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Í nál. hv. meiri hl. sjútvn. á þskj. 405 er það réttilega eftir mér haft, að ég hafi lýst yfir að ég væri fús til, ef ósk um það komi fram, að láta fara fram nánari athugun á því máli, sem hér liggur fyrir og ég gat þess um leið — eins og tekið er fram í nál. —, að sú athugun yrði væntanlega framkvæmd með skipun sérstakrar n. — Ég skal staðfesta þessi ummæli, sem eftir mér eru þarna höfð, og skal bæta því við að ég skoða það svo, ef till. hv. meiri hl. sjútvn. yrði samþ. um að vísa málinu til ríkisstj., að það væri gert með þeim rökstuðningi sem fram hefur komið við umr. hér og í nál., að ríkisstj. léti fara fram á málinu nánari athugun.

Ég mundi fyrir mitt leyti gera ráðstafanir til þess eins fljótt og unnt væri, að fulltrúar frá sjómannafélögunum og útvegsmönnum auk annarra viðkomandi aðila yrðu þar kvaddir til ráða og að reynt yrði að koma sér niður á þá lausn málanna, sem eftir þá íhugun þætti líklegust til, að málin yrðu á sem beztan hátt til lykta leidd fyrir alla aðila.

Það er alls ekki tilætlun mín, ef máli þessu verður vísað til ríkisstj., að svæfa það heldur að láta fara fram á því þá athugun, sem ég hef hér á minnzt. Vildi ég vænta þess, að þeirri athugun lyki á þá lund, að annaðhvort yrði sett löggjöf um þessi atriði eða samkomulag næðist milli aðila, sem viðhlítandi væri fyrir sjómenn og ekki yrði til þess að stofna til óþæginda að nokkru leyti við rekstur sjávarútvegsins í landinu yfirleitt. Og að sjálfsögðu er þjóðfélagið sem heild og Alþ., sem á að gæta heildarhagsins, einnig áhugasamt um það, að lausn næðist í þessum málum, sem væri viðunandi fyrir alla. Virðist mér margt benda til þess að það stefni smám saman í þá átt að samkomulag fari stöðugt batnandi milli sjómanna og útvegsmanna um þessi mál, nú seinast þegar samið var um kaup og kjör sjómanna á flutningabátum, en þá sömdu fulltrúar sjómanna og útvegamanna um vissan vinnutíma sjómanna á þessum bátum.

Ég vil mega vænta þess að góð lausn á þessum málum gæti fengizt upp úr þessari athugun og þá sem allra fyrst.