05.03.1948
Neðri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að stytta vinnutíma togaraháseta. Það hefur verið gert svo rækilega áður og einnig af frsm. minni hl., hv. þm. Siglf., að ekki þarf þar við að bæta. — Ég vil því aðeins segja örfá orð um störf n. og annað sem fram hefur komið í málinu á þessu þingi. Frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv., gat um það í upphafi máls síns, að málið hefði legið lengi hjá n. og að það hefði raunverulega orðið mjög langur dráttur á meðferð málsins þar. Þetta er hreinskilnisleg játning og það eru fleiri sammála honum um það. Þetta mál hefur legið lengur en góðu hófi gegnir hjá n., og þess vegna kemur það síðar en skyldi fyrir þingið. — Út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. og þó sérstaklega út af nál. meiri hl. furðar mig stórlega á að hann skuli birta svo ósanna hluti sem hann gerir. Því er haldið fram af hv. meiri hl. að frv. hafi verið vísað til 3 aðila, þ. e. til sjómannafélaganna í Reykjavík og Hafnarfirði og Landssambands ísl. útvegsmanna og að svör hafi borizt frá Landssambandinu, en ekki frá sjómannafélögunum. En sannleikurinn er sá, eins og áður hefur verið tekið fram að sjómannafélag Hafnarfjarðar svaraði rækilega, enda neyddist frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv., til að viðurkenna, að rétt væri en að þetta plagg hefði ekki borizt í hendur n., heldur hefði það aðeins verið lagt inn á lestrarsal. Þetta er því alls ekki sök sjómannafélags Hafnarfjarðar, heldur hljóta hér að vera önnur öfl að verki. Sjómannafélag Hafnarfjarðar hefur svarað skilmerkilega og tekið skelegga afstöðu með frv., en Sjómannafélag Reykjavíkur hefur ekkert látið frá sér heyra, og skal það enn einu sinni sagt hér, að í þessu kemur fram alvarlegt sinnuleysi félagsins varðandi mál sjómannastéttarinnar, sem á engan hátt er verjandi, svo að ekki sé meira sagt.

Hv. þm. Ísaf., sem á sæti í sjútvn. ræddi um orsakir þess, er l. voru sett í upphafi um hvíldartíma háseta. Kvað hann l. þessi einstæð í sinni röð, og að þau hefðu verið sett vegna þess, hve þessi stétt hefði verið illa sett og hversu vinnuþreki sjómanna á skipum hefði verið ofboðið. Ég vil nú ekki skilja ummæli hv. þm. á þann veg, að hann hafi viljað draga úr réttmæti þess, að þessum l. verði breytt, því að eins og hann kom síðar að, hafa orðið stórfelldar breytingar á vinnutíma þeirra er í landi vinna, síðan þessi löggjöf var sett og það svo að 8 stunda vinnudagur er nú almennt viðurkenndur. Það virðist því full ástæða til að þessum l. sé breytt og þau færð meira til samræmis við gildandi reglur hjá öðrum stéttum um þessi atriði og það var með hliðsjón af þessu, sem frv. var flutt í fyrra og nú aftur í ár. — Það hefur verið orðað hér, að nauðsyn beri til að endurskoða vinnutíma sjómanna almennt, en ekki aðeins togaraháseta. Þetta er að vísu rétt, en staðreyndin er sú að togarahásetarnir verða langharðast úti í þessum efnum. Önnur skip sem til greina koma, eru trollskip upp undir 10 smál. Þau verða að koma inn á 5 daga fresti. og bátar á línuveiðum helzt vikulega. — og þótt þeir stundi ekki þá veiði nú, er alls ekki þar með sagt, að svo verði ekki í framtíðinni.

Hv. þm. Ísaf. minntist á nýju skipin og kvað nauðsynlegt að þau skiluðu arði og að ekki mætti heldur ofbjóða sjómönnunum. Það er auðvitað rétt að skipin verða að bera sig, en atriði nr. 1 er það, að sæmilega sé búið að þeim, sem á skipunum eru. Sjómennirnir sjá það bezt sjálfir, hvílík nauðsyn er að breyta hinu úrelta fyrirkomulagi um hvíldartímann á skipunum og með tilkomu nýju skipanna hafa þær línur skýrzt mjög. Þess vegna hafa áhafnir nýju skipanna ekki verið neinar undantekningar um það að skora á Alþ. að samþykkja þetta frv.

Það hefur verið getið um það í þessu sambandi, að ekki sé þörf á að breyta til um hvíldartímann vegna þess að sjómenn á ísfiskveiðum fái nú alltaf annað slagið að vera nokkra daga í landi, á meðan skipin sigla út með afla sinn. En vinnutíminn á sjónum er jafnlangur eftir sem áður og verður þetta því ekki notað sem röksemd fyrir því að halda áfram í sama gamla farinu.

Hv. þm. Ísaf. drap á það að togarasjómenn almennt mundu hafa sent áskorun til Alþ. um að samþykkja frv., en sú áskorun hafi ekki verið borin fram af samtökum sjómanna. Mér er ekki ljóst, hvað hv. þm. á við ef hann vill draga úr því, að frv. sé flutt vegna almenns áhuga fyrir þessu máli. Ég get t. d. bent á það, að á Alþýðusambandsþingum hafa verið samþykktar ákveðnar áskoranir til Alþ. um að beita sér fyrir því að stytta vinnutíma sjómanna. Það liggja því fyrir ákveðin tilmæli frá samtökum sjómanna um. að hvíldartíminn sé lengdur, enda þótt afstaða Sjómannafélags Reykjavíkur hafi verið sú, sem raun er á. Og ástæðan fyrir því, að frv. var flutt í upphafi er sú, að stéttarsamtök sjómanna voru þessu máli fylgjandi. Eftir að frv. kemur fram, hefur það sannazt að starfandi sjómenn eru einhuga um málið, því að fyrir Alþ. liggur áskorun allflestra togarasjómanna, sem starfandi eru í dag um, að frv. verði samþykkt.

Það nál., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. sjútvn., gerir ráð fyrir því að frv. verði vísað til ríkisstj. Það hefur áður verið skýrt, að sumir af þeim nm. sem nú vilja fara þá leið, eru sömu mennirnir sem fella vildu frv. í fyrra, — og óvænt slær það mann, að varla getur það verið til þess að flýta fyrir afgreiðslu þess nú að þeir vilja vísa því til ríkisstj.

Hv. þm. Ísaf. komst að þeirri gáfulegu niðurstöðu, að annaðhvort yrði málið drepið eða ekki drepið. Það er nú svo! Hins vegar eru ýmsar aðferðir til þess að drepa mál. — Hvort þessi till. um að vísa málinu til ríkisstj. hefur þau áhrif, er erfitt um að dæma. Hv. þm. Ísaf. virðist helzt komast að þeirri niðurstöðu að málinu sé mestur greiði gerður með því að vísa frv. til ríkisstj. Ég er þar á annarri skoðun. Ég tel að málið liggi svo skýrt fyrir, að ekki þurfi enn að hafa um það miklar vangaveltur. Það liggja fyrir í því svo ákveðin tilmæli sjómanna og samtaka þeirra, að ekki verður um villzt. Hvað andmælum útgerðarmanna viðvíkur, er ekki við öðru að búast, þeir hafa alltaf verið á móti velferðarmálum sjómanna, ég minnist þess ekki, eftir að hafa lesið ræður samflokksmanna hv. þm. Ísaf. um þetta mál endur fyrir löngu, að þeir teldu þörf á að leysa það með samkomulagi útgerðarmanna og sjómanna. Ég skal ekki mæla á móti því, að æskilegt væri að slíkir samningar væru gerðir. En ég hef bara ekki trú á, að togarasjómenn hafi þessar kjarabætur sínar fram með samningum.

Hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu, að honum skiljist að meiri hl. sjútvn. vilji með nál. fá því framgengt, að tími vinnist til að athuga málið betur og ríkisstj. mundi vinna að slíkri rannsókn, ef samþ. yrði. Það er sjálfsagt gott að fá þessa yfirlýsingu frá hæstv. forsrh., og væntanlega yrði þar ekki látið staðar numið við orðin tóm. En eins og áður er sagt þá liggur málið þegar svo ljóst fyrir, að þess vegna þarf það ekki til ríkisstj. að fara. Það hefur verið svo með mörg mál, sem fengið hafa þá afgreiðslu, að þau hafa lent í ruslakistuna og sofnað. Ég segi ekki að svo mundi fara um þetta mál. Það munu verða tök á að sjá svo um, að það fái önnur afdrif, — og hefur réttilega verið á það bent, að hér er um mál að ræða, sem ekki verður þagað í hel. Og það mun ekki verða stöðvað, fyrr en sjómenn hafa fengið hinar sjálfsögðu kjarabætur, sem þeir óska eftir svo einhuga, hvort sem nál. meiri hl. sjútvn. verður samþ. eða ekki.

Ég vil leggja áherzlu á það ennþá einu sinni, að málið liggur svo ljóst fyrir, að það er engin ástæða til að tefja það með frekari vangaveltum, og vil því eindregið fara fram á það að frv. okkar Sigurðar Guðnasonar nái fram að ganga, en málinu verði ekki vísað til ríkisstj.