03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

56. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég gat því miður ekki heyrt allar athugasemdir 1. þm. N-M., vegna þess að ég þurfti að mæla fyrir frv. í Nd., en eftir þessum síðustu orðum hans held ég að ég hafi fengið nokkra vitneskju um afstöðu hans til frv. Ég get alveg fallizt á það atriði hjá hv. þm., að löggjöfin hefði betur náð tilgangi sínum, ef þessi ákvæði sem nú hafa verið felld úr frv., hefðu mátt þar vera. En hins vegar er ekki kostur að setja það í löggjöfina, sem ekki samrýmist stjórnarskránni, og sé ég ekki ástæðu til að fara fræðilega út í það atriði. Það verður að haga þessu máli í samræmi við núgildandi stjórnarskrá, en hitt er það, að þessu atriði má bæta í löggjöfina, ef stjórnarskránni verður breytt á þann veg, að það brjóti ekki ákvæði hennar.

Út af fyrirspurn hv. þm. varðandi Egilsstaðaþorp, þá er því til að svara, að félmrn. hefur gert ráðstafanir til, að þar fari fram mat til undirbúnings eignarnámi. Það kom í ljós við samninga um kaup á þessu landi, að munurinn á verði því, sem seljandi og kaupandi höfðu hugsað sér, var svo mikill, að óhugsandi var að brúa það bil. En sem sagt, það hefur verið óskað eftir mati á þessu landi. en það getur að sjálfsögðu dregizt nokkuð, að málið verði afgreitt, einkum ef fram þarf að fara yfirmat, en ráðuneytið mun gera það, sem í þess valdi stendur. til að hraða málinu.