23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

76. mál, ríkisborgararéttur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Svo mikla ástæðu sem ég sá í minni fyrri ræðu til þess að óska eftir að hæstv. dómsmrh. eigi að vera viðstaddur, þegar þetta mál er afgr. hér, þá er þó eftir ræðu hv. þm. Barð. — ef hana ber að taka alvarlega — enn þá meiri ástæða til þess að óska eftir því nú, að mál þetta verði ekki afgr., fyrr en hæstv. dómsmrh. getur verið við, vegna þess að þessi hv. þm. hefur ráðizt hér á mig alveg að tilefnislausu og með ósæmandi ásökunum. Hv. þm. Barð. taldi, að hæstv. dómsmrh. hefði tilefni til þess að vita allshn. og sérstaklega mig fyrir drátt á þessu máli. En ég get fullyrt við þennan hv. þm., að allt, sem ég hef gert í n. í þessu máli, er í fullkomnu samráði við hæstv. ráðh., og ég er sannfærður um, að ef hann væri hér viðstaddur, mundi hann staðfesta þetta, þannig að hv. þm. Barð. þyrfti ekki að vera hér með tilefnislausar og rakalausar ásakanir í minn garð.