23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

76. mál, ríkisborgararéttur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú segja það, að ekki greiðir það fyrir málinu, svo nauman tíma sem það hefur, að fara að sakast um það við form. n., hve seint málið sé á döfinni. Ég hygg líka, að form. hafi gert grein fyrir því, að hann hefur ekki getað að því gert, heldur hafi málsatriði verið að berast fram á síðustu stund.

Nú hefur hv. þm. Barð. gefið upplýsingar um það, að einn umsækjandinn varði það mjög miklu fjárhagslega. að hann fái sinn ríkisborgararétt. Þannig hygg ég, að muni standa á um marga fleiri af umsækjendunum. T. d. er mér kunnugt um, að einn þeirra er búinn að vera bóndi á Íslandi um áratugi og öðlast ekki rétt til ellilífeyris fyrir en hann hefur fengið íslenzkan ríkisborgararétt. Réttur hans til ellilífeyris yrði því tekinn af honum eitt ár í viðbót, og fæ ég ekki séð, að það nái neinni átt að fresta afgreiðslu málsins, þegar n. mælir með því og ráðh. hefur borið fram í frumvarpsformi að þessir menn skuli fá ríkisborgararétt, Ég vil vona, að málið fái þá afgreiðslu, sem má nú veita því og það sé afgr. hiklaust frá þessari d., og látið ganga til Nd. og þeir, sem n. hefur mælt með fái þennan rétt, áður en þingi lýkur.