29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

139. mál, útsvör

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur viljað þannig til á undanförnum árum, þegar útsvarslöggjöfin hefur verið hér til umr. á Alþ., að þá hefur það komið í minn hlut að fjalla sérstaklega um þau mál í allshn. Ég hef því reynt eftir mætti að setja mig nokkuð inn í þessi l., sem Alþ. þá hefur verið að endurbæta og leiðrétta.

Það sem aðallega kom mér til þess að standa upp er það að ég vildi beina nokkrum orðum til þeirrar n., sem kann að fá þetta mál til meðferðar og það er um greiðslu útsvaranna. Ég sé að hv. mþn. hefur nákvæmlega þrætt eldri reglur um greiðsludagana. Ég held, að ég tali þar af nokkurri þekkingu eftir að hafa verið hér í Reykjavík yfir 40 ár, að með þeim kvöðum, sem nú eru lagðar á borgarana um greiðslur opinberra gjalda yfirleitt, þá er það sama, við hvern ég tala, að það vilja helzt allir, sem þurfa að greiða háa skatta og útsvör, a. m. k. þeir, sem eru launþegar, greiða þetta mánaðarlega, svo að þeir þurfi ekki að reikna með þeirri upphæð, sem í opinber gjöld fer, í því, sem þeir geti tekið og notað til eigin þarfa. Reykjavík hefur notað heimild, sem var í 1. um að hafa greiðsludaga útsvara fleiri á árinu heldur en almennt er gert úti um landið, en í l. er gert ráð fyrir, að þeir séu fjórir. Nú hefur nokkur reynsla fengizt um þetta í sumum nágrannalöndum okkar. Ég varð var við það t. d. í Noregi í sumar, að það eru ný l. þar, sem fjalla eitthvað um greiðslur opinberra gjalda. Og Norðmenn, sem eiga nokkuð mikinn skipastól, þeir gera það að skyldu, að af hverri mánaðarkaupgreiðslu til þeirra manna, sem á skipunum vinna, skuli halda eftir svo eða svo mörgum hundraðshlutum í greiðslur til hinna opinberu þarfa. Norðmenn töldu þetta fyrirkomulag óumflýjanlega nauðsyn til þess að fá þessi gjöld greidd og töldu, að slíkt fyrirkomulag mundi koma betur niður á þeim, sem greiða þessi gjöld. Ég held, að við séum komnir eitthvað í líka aðstöðu og Norðmenn að þessu leyti, enda erum við farnir að dreifa greiðslunum til hins opinbera meira á greiðsludaga heldur en áður var gert. En ég hef nokkra kynningu af því, að þó að nú sé gert ráð fyrir því, að atvinnurekendur haldi eftir af kaupi starfsmanna, þá er það í mörgum tilfellum alls ekki gert. Það hafa komið fram kvartanir um, að þetta hafi verið látið niður falla, sumpart í opinberum rekstri og sumpart í einkarekstri, þannig að þegar átti að fá gjöldin greidd, þá var ekkert til fyrir þeim, og átti að taka lögtak, til þess að þau yrðu greidd. Eru nú nokkur viti í l. gagnvart atvinnurekendum, sem vanrækja þessa skyldu sína að taka þessar greiðslur af kaupi manna? Ég held, að það séu ekki nein skýr ákvæði um þetta í frv. Ég hef ekki þrautlesið frv., en mér finnst, að greiðsludagarnir hefðu mátt vera á þessu sviði nokkru fleiri heldur en hér kemur fram, til þess bæði að létta undir með því opinbera um að fá inn það, sem krafizt er af skattþegnunum að greiða, og um leið til hægðarauka fyrir þá, sem gjöldin eiga að greiða. Ég álít, að það sé ennþá tekið allt of mikið af opinberum gjöldum af mönnum á stuttu tímabili á árinu. Það mun vera í eldri l. gert ráð fyrir því, að það megi taka af giftum manni allt að 2/5 hlutum, í hvert sinn þegar krafizt er og af einhleypum manni allt að 1/3 hluta. Aðferð sem þessi kemur illa niður á einstökum mönnum. En ef þetta er tekið mánaðarlega prósentvís af tekjum manna, þá finna menn minna til þess. Og ég hef orðið þess var í viðtölum við fjölda manna. að það er einmitt þetta, sem fólk óskar eftir að gjöldin séu tekin mánaðarlega. Ég vildi sérstaklega beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún athugi þetta mjög vel, þegar hún fjallar um frv., hvort ekki megi ganga lengra í þessari skiptingu á greiðslu gjaldanna á greiðsludaga heldur en gert er ráð fyrir í frv., og þá hvort ekki megi láta vissa ábyrgð hvíla á þeim, sem þá ber að krefja þetta inn af launafólki.

Mér hefur ekki gefizt tími til þess að fara í gegnum þetta frv. í mörgum atriðum. En e. t. v. eru þessi l., sem hér liggur fyrir frv. um breyt. á, ein af allra viðkvæmustu l., l. um greiðslu útsvaranna því að alltaf, þegar farið er í buddu manna, þá eru það viðkvæmustu málin. Og um þetta verður að mínu áliti að byggja að nokkru á reynslu þeirra þjóða, sem hafa hana meiri heldur en við, hvernig beri að fara að í þessum efnum. Vel má vera, að nokkuð annað henti í dreifbýlinu heldur en í fjölmennum bæjum í þessu efni. En ég álít að þetta sem ég hef sagt frá, frá Noregi, megi taka upp hér í fjölmennustu bæjunum. — Skal ég svo ekki á þessu stigi málsins fjölyrða frekar um þetta mál. En ég mun, ef mér endist tími til, athuga frv. við 2. umr. málsins og að sjálfsögðu gera mínar brtt., þegar þar að kemur.