29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

139. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þær yfirlýsingar, sem komu fram í hans ræðu í sambandi við afgreiðslu málsins. Ég er á sama máli um það, að það beri að leggja meiri áherzlu á, að það fái góða athugun og eðlilega meðferð, heldur en þótt það yrði afgr. og gert að lögum nú á þinginu, þó að ég hins vegar ekki óski eftir því, að það dragist um langan tíma að breyta þessum l. eins og þarf að breyta þeim.

Í sambandi við rekstrarútsvörin vildi ég mega benda á, að ef athuguð er grg., þá er gert ráð fyrir því, að sveitirnar noti sér til hins ýtrasta þetta hámark, sem hér er leyft. Maður þekkir þá illa, ef þeir ekki nota þetta ákvæði, þegar þeir notuðu sér að leggja þetta á án þess að hafa stoð í l. Ýmsir í ráðuneytinu hafa leyft sveitarstjórnum að gera þetta, án þess að nokkuð sé hægt að benda á. að það hafi stoð í l. Mér hefur verið margsinnis sagt af góðum lögfræðingi, núverandi hæstaréttardómara, að það sé mjög vafasamt, að það stæðist dóm að hægt sé að leggja á fyrirtæki veituútsvar í sambandi við gildandi lög.

Í sambandi við síðari ræðu hv. 1. þm. N-M., sem upplýsti, að það væri fjöldi af kærum, sem færi fyrir ríkisskattan., vil ég segja þetta: Því er ekki hægt að sækja þessi mál með verjanda og sækjanda fyrir dómstóli eins og önnur mál? Það er nauðsynlegt að breyta því í frv., að þetta sé ekki endanlegur dómur. Þá geta þeir, sem vilja halda áfram þessum málum og ranglæti eru beittir, sótt þessi mál og áfrýjað til hæstaréttar. Það fær enginn mig til að trúa því, að það sé hægt að senda tveggja krónu kröfumál til hæstaréttar, en ekki tveggja millj. króna. Ég hef bréf frá ríkisskattan., þar sem hún hefur tvisvar fellt dóm í kröfumáli, án þess að leita sér upplýsinga og gefa forsendur fyrir dóminum. Það er engin trygging fyrir þessum málum, meðan þeim er þannig fyrir komið. Slíkur dómur hefur fallið í máli, sem endaði fyrir hæstarétti, það var ekki um útsvarsupphæð, heldur um skuld. Þá vöknuðu þeir við það að allt, sem þeir höfðu gert, var eintóm vitleysa og skuldin var færð niður, það er einmitt í þessum málum útilokað fyrir þessa aðila að ná rétti sínum. Ég tel afar nauðsynlegt að koma inn, ef ekki er hægt að verja og sækja við þetta síðasta dómstig, að þá sé úrskurður ríkisskattan. ekki síðasti dómur um upphæðir. En það er það, sem ég er að deila um.