18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum í byrjun febrúarmánaðar s.l., lýsti hún yfir því á Alþ., að það væri stefna hennar, að atvinnuvegir landsmanna yrðu reknir á arðbærum grundvelli og á hinn hagkvæmasta hátt, en þyrftu ekki að stöðvast sakir verðbólgu og dýrtíðar. Kvaðst ríkisstj. mundu vinna að því af alefli, að vöxtur dýrtíðar stöðvaðist, og einnig yrðu athugaðir möguleikar til að lækka hana og framleiðslukostnað í landinu. Það var og samkomulag stjórnarflokkanna, að vöruverð skyldi fyrst um sinn greitt niður með ríkisfé til þess að hindra frekari hækkun vísitölunnar, en hún var 316 stig, er stjórnarskipti urðu. Gerði ríkisstj. ráðstafanir til þess, að hún lækkaði í 310 stig, og hélzt hún í 310–312 stigum fram í október s.l., en síðustu þrjá mánuðina hækkaði hún verulega, einkum vegna hækkaðs verðs á landbúnaðarvörum. Meðalvísitala ársins 1947 hefur orðið nákvæmlega 315 stig. Hefur ríkisstj., eins og áður segir, greitt vísitöluna niður á árinu í samræmi við yfirlýsingu sína í upphafi.

Ríkisstj. var það strax í öndverðu ljóst, er hún tók við störfum, að taka varð til alvarlegrar athugunar að stöi5va dýrtíðina og hækkun framleiðslukostnaðarins. Eftir því sem lengra leið á yfirstandandi ár, kann það betur í ljós, hversu brýn þessi nauðsyn var. Einkum varð þetta ljóst, eftir að síldveiðin brást í sumar, enda kom og í ljós, að gjaldeyriseign þjóðarinnar var til þurrðar gengin og að ráðstafanir þurfti að gera til að spara gjaldeyrinn, bæði með skömmtun nauðsynjavara og með innflutningshömlum.

En þótt þessar ráðstafanir væru gerðar, var sýnilegt, að reka mundi að því, að ef framleiðslan yrði ekki rekin til hins ýtrasta, yrði vegna vaxandi verðbólgu skortur á erlendum gjaldeyri til kaupa á helztu lífsnauðsynjum. Það var því með öllu óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess, að sjávarútvegurinn yrði rekinn.

Snemma í haust tók stjórnin til ýtarlegrar athugunar það, sem gera þurfti, og á hvern hátt mundi verða unnt að framkvæma það. En áður en til þess kæmi, að ríkisstj. gæti lagt till. fyrir stuðningsflokka sína til að fá fulltingi þeirra og eins fyrir Alþ., þá þurfti að framkvæma margvíslegar og ýtarlegar rannsóknir og athuganir. Þessar athuganir voru framkvæmdar af trúnaðarmönnum ríkisstj. og tóku að sjálfsögðu nokkuð langan tíma.

Rannsóknir þessar leiddu í ljós á óvefengjanlegan hátt, að ráðstafanir þurfti að gera til þess alveg sérstaklega að tryggja rekstur sjávarútvegsins, sem einkum aflar gjaldeyris í þjóðarbúið, og hindra á þann hátt, að til atvinnuleysis og hruns drægi.

Það varð og öldungis augljóst, að átök í þessu efni urðu ekki gerð, nema krafizt væri nokkurra fórna í því sambandi af öllum landsmönnum. En höfuðsjónarmið ríkisstj. við undirbúning málsins var, að þær fórnir yrðu færðar á þann veg, að þær kæmu sem réttlátast niður á þjóðfélagsþegnana.

Baráttan við verðbólgu og dýrtíð er ekki íslenzkt fyrirbæri eingöngu. Það má segja, að sú barátta sé háð í öllum löndum. Þjóðir, sem hafa verið svo lánsamar og forsjálar að hindra, að verðbólga myndaðist, urðu að gera ráðstafanir til þess, sem á sínum tíma voru almenningi þungbærar. Á Norðurlöndum t.d. og í Bretlandi voru gerð átök til þess að halda hvoru tveggja niðri, kaupgjaldi og verðlagi. Þar, sem þessar tilraunir heppnuðust, tókst að forðast verulega verðbólgu. Aðrar þjóðir, sem ekki sýndu næga fyrirhyggju til að firra sig voða dýrtíðarinnar eða þar sem ytri, óviðráðanleg atvik höfðu haft verðbólgu í för með sér, sáu, þegar í óefni var komið, að ekki var unnt að losna við að færa nokkrar fórnir til þess að bjarga því, sem bjargað varð.

Íslenzka þjóðin hefur undanfarin ár átt miklu láni að fagna. Vinna hefur verið næg og vel borguð. Má með sanni segja, að afkoma allra vinnustétta hafi verið prýðilega góð, svo góð, að ég tel, að fullyrða megi, að hvergi hafi almenningur hér í álfu búið við betri kjör. En það var framsýnum mönnum einnig ljóst, að með vaxandi verðbólgu gæti svo farið, að til þess að hún keyrði ekki allt í kaf, yrði þjóðin að leggja nokkuð hart að sér um skeið í því skyni að forðast kreppu, hrun og atvinnuleysi.

Slíkt viðhorf hefur nú skapazt hjá okkur og það í svo ríkum mæli, að verði ekki nú þegar að gert, þá mun horfa til stórra vandkvæða og atvinnuleysi fljótlega gera vart við sig, en það yrði almenningi óbærilegt, þegar til lengdar léti.

Að fengnum framan nefndum rannsóknum og vel vitandi, að til úrræða til úrbóta yrði að grípa, tók ríkisstj. sér fyrir hendur að undirbúa till. til lausnar vandamálunum. Það tók að sjálfsögðu alllangan tíma, og hefur ríkisstj. mjög verið legið á hálsi fyrir það af andstæðingunum. En stjórnin taldi hyggilegra og réttara að athuga gaumgæfilega alla málavöxtu og rasa ekki um ráð fram heldur en að leggja fyrr fram till. á veikari grundvelli og þá einnig með óvissu um, hvort úr mundu bæta né ná fram að ganga. Auk þess hlaut það verulega að tefja tímann, að ríkisstj. er skipuð fulltrúum þriggja flokka með ólíkum sjónarmiðum, og þurfti að samhæfa þau, til þess að nokkrum árangri yrði náð, og bera till. því eðlilega blæ samkomulags, en eru ekki eingöngu stefna eða skoðun eins flokks.

Strax er stjórnin lýsti yfir því, að hún hefði í undirbúningi till. í dýrtíðarmúlunum og teldi, að ekki yrði hjá því komizt, að allir yrðu nokkuð á sig að leggja um sinn, hófu andstæðingarnir, kommúnistar, upp raust sína og sögðu, að ríkisstj. væri að reyna að skapa kreppu og koma inn hjá þjóðinni ástæðulausri bölsýni í því skyni einu saman að rýra kjör almennings. Sögðu kommúnistar á því stigi málsins, að ástæðulaust væri að gera nokkuð til að draga úr verðbólgunni og dýrtíðinni, heldur þyrfti um það eitt að hugsa. að selja íslenzkar afurðir í Rússlandi og öðrum Austur-Evrópuríkjum, en þar væri hægt að fá fyrir þær geysihátt verð, ef vel væri á þeim málum haldið.

Hvor tveggja fullyrðingin var alröng. Það var auðsætt þeim, er opin augu höfðu, að við urðum að gera ráðstafanir til þess að hindra vöxt verðbólgunnar, því að ella mundi skjótt draga til rekstrarstöðvunar hjá atvinnuvegum landsins. Í annan stað hafði ríkisstj. gert mjög ýtarlegar tilraunir fyrir milligöngu trúnaðarmanna sinna til þess að selja vörur, bæði í Rússlandi og öðrum þeim löndum, er kommúnistar töldu góð markaðslönd, en með þeim árangri, að ekki fékkst það verð fyrir vörurnar, sem staðið gæti undir framleiðslukostnaði hér. Þau lönd í Austur-Evrópu, sem kaupa vildu lítið magn af íslenzkum vörum góðu verði, gátu ekki greitt nema í vöruskiptum, sem hefði leitt til þess, að vörurnar, sem við hefðum fengið í staðinn, hefðu orðið mjög dýrar og við jafnvel orðið að taka upp í andvirði okkar vara vörutegundir, sem sakir gjaldeyrisástandsins hér er ekki unnt að flytja til landsins og við verðum að neita okkur um að sinni. Fullyrðingar kommúnista voru því ekkert nema rakaleysur.

En eins og menn vita, eru hvorki íslenzkir né erlendir kommúnistar mjög lengi sömu skoðunar, og kommúnistarnir okkar breyttu um stefnu, skömmu eftir að þeir höfðu haldið flokksþins sitt og heyrt raddir fólksins utan af landsbyggðinni.

Halda þeir nú fram gagnstætt því, sem áður var, að eitthvað þurfi að gera til þess að vinna bug á verðbólgunni. Létu þeir svo sem þeir hefðu í höndum sínum þann Aladdínslampa, sem gripa mætti til, er leysa skyldi vandann. Var það að ábyrgjast bara ákveðið afurðaverð, ekki lægra en í fyrra. og gera enga tilraun til þess að hefta dýrtíðina, en í stað þess draga úr tekjum ríkissjóðs og minnka möguleika hans til þess að standa við skuldbindingar sínar. Var frv. það, sem kommúnistar lögðu fram á Alþingi fyrir skemmstu, einmitt byggt á þessum sýndarúrræðum og augsýnilega aðeins flutt í lýðskrumsskyni. Ríkisstj. hvorki vildi né gat haft þær starfsaðferðir, sem kommúnistar beittu. Í stað þess undirbjó hún till. sínar og hefur nú lagt þær fram í því frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir, sem hér er til umr.

Eins og tekið er fram í 1. gr. frv. þessa, er það tilgangur þess að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð, tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, stemma stigu fyrir atvinnuleysi og auka framleiðslu og gjaldeyrisöflun. En eins og að framan greinir og frv. ber með sér, komst ríkisstj. að því eftir ýtarlega rannsókn, að ekki yrði ráðin bót á verðbólgunni, án þess að þjóðin tæki á sig nokkrar byrðar, og samkv. frv. þessu er þeim byrðum þannig skipt, að þeir, sem bezt eru staddir efnalega, eiga að bera hlutfallslega þyngstu baggana.

II. kafli frv. er um eignaraukaskatt. Er þar lagt til, að á næsta ári verði á lagður sérstakur skattur á eignarauka umfram 100 þús. kr., er orðið hefur á tímabilinu 1. jan. 1940 til 31. des. 1947. Nemur skatturinn frá 5% til 30% af eignarauka umfram 100 þús. kr. á nefndu tímabili hjá félögum og einstaklingum. Rétt þótti þó að undanþiggja nokkra aðila þessum skatti. Eru það Eimskipafélag Íslands h.f., fé það, sem einstaklingar og félög, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnu, hafa lagt í vara- og nýbyggingarsjóði og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af. Loks er og fé það, sem samvinnufélög hafa lagt í sjóð samkv. samvinnufélagalögunum, er tekjuskattur hefur eigi verið greiddur af, undanskilið þessum skatti. Þá var og talið rétt, að eignaraukaskattur samvinnufélaga og félaga og einstaklinga, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnu, skyldi ekki vera stighækkandi og aldrei fara fram úr 10%. Í frv. eru svo settar ýtarlegar reglur um álagningu skatts þessa, mat á eignum o.s.frv. Er til þess ætlazt, að heildartekjurnar af þessum skatti renni að hálfu í framkvæmdasjóð ríkisins, en að hálfu til afla- og hlutatryggingasjóðs fyrir bátaútveginn, sem gert er ráð fyrir, að stofnaður verði með löggjöf á næsta ári.

Með eignaraukaskattinum eru lagðar allverulegar byrðar á herðar þeim, sem á undanförnum árum hafa safnað miklum fjármunum, og hluti þessara eigna þannig tekinn til opinberra þarfa. Er það einn liðurinn bæði í dýrtíðarráðstöfunum og einnig til þess að deila byrðunum eftir reglunni, að þeir, sem mest megi sín, taki á sig þyngstu byrðarnar.

III. kafli frv. fjallar um verðlagsuppbætur o.fl., og er í 12. gr. að finna það ákvæði, að ekki má greiða verðlagsuppbót á laun eftir hærri vísitölu en 300. Þó er undanskilinn ákvæðum þessum elli- og örorkulífeyrir. Þennan lífeyri má greiða með verðlagsuppbót, er nemur allt að 315 vísitölust.

Um þessa gr. frv. hefur þegar í Nd. og blöðum stjórnarandstöðunnar verið mikið rætt og deilt á stjórnina fyrir. Því er haldið fram, að með þessu móti sé ríkisstj. að seilast — algerlega að óþörfu, að manni skilst — til þess að skerða laun launastéttanna. Á þá staðreynd hefur áður verið drepið, að ekki sé unnt að komast hjá því, að einhverjar byrðar lentu á öllum. Því verður ekki heldur neitað, að með þessu er lagt til, að kaupgjald til manna almennt sé skert í krónutölu. Hjá þessu varð að dómi ríkisstj. alls ekki komizt og hefur hún reynt að stilla þessari lækkun svo mjög í hóf sem frekast var unnt, svo að ekki yrði of tilfinnanlegt fyrir þá, er laun taka.

Miðað við núgildandi verðlagsvísitölu, 328 stig. er þetta rétt 8% skerðing á heildarupphæð launa. En samkvæmt útreikningi, sem fyrir liggur frá Hagstofu Íslands og ekki er unnt að vefengja, er hægt að reikna með því, að verðlag á vörum lækki svo við þessa ákvörðun, að raunveruleg launaskerðing nemi ekki nema 5%.

Í 15. og 16. gr. er að finna ákvæði, sem eiga að tryggja það, að verðlagsyfirvöld, framleiðsluráð landbúnaðarins og húsaleigunefndir færi svo niður verðlag á þessum nauðsynjum, að það lækki nokkuð, og dragi verulega úr áhrifunum af lækkun á greiðslu kaupvísitölu.

Ríkisstj. var það vel ljóst, að það er ekki vinsælt verk að leggja til, að dregið sé úr tekjum launastéttanna, en þar sem þær staðreyndir liggja fyrir óvefengjanlegar, að ef ekki væri gripið til slíkra ráðstafana, mundi óhjákvæmilega leiða til stöðvunar atvinnurekstrarins í landinu, en af því mundi þegar í stað leiða stórfellt atvinnuleysi —, varð ekki hjá þessu komizt.

Launastéttirnar yfirleitt eiga mest undir því, að atvinna haldist trygg og örugg. Krónutala launa þeirra er ekki aðalatriðið, ef vinnu skortir og dýrtíðin vex hröðum skrefum. Það er því að mínu áliti hagsmunamál launastéttanna, að gripið sé til ráðstafana, sem tryggja atvinnureksturinn í landinu, þótt þær ráðstafanir kosti í bili lægri krónutölu launa. Hef ég trú á því, að launastéttirnar muni við ýtarlega athugun og rólega umhugsun komast að þeirri niðurstöðu, að hér er rétt ályktað, og það er síður en svo launamönnum til tjóns, þegar til lengdar lætur, að slíkir ráðstafanir séu gerðar.

Tilætlunin með því að lækka og festa vísitöluna er sú að koma í veg fyrir þann óheillavænlega skrúfugang, sem verið hefur undanfarin ár, þannig að verðlag og vinna hefur hækkað á víxl og myndað svikamyllu þá, sem leitt hefur af sér verðbólgu. Mátti ekki lengur við það ástand una.

Í sambandi við lækkun og festingu verðvísitölunnar er nauðsynlegt að taka það mjög skýrt fram, að það er ákveðin ætlun ríkisstj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að halda niðri verðlagi á nauðsynjavörum og stuðla að lækkun þeirra, eftir því sem framast er unnt, svo að lækkun launa að krónutölu verði ekki nema fyrst í stað kaupmissir, og þegar fram líða stundir, ættu kjör launamanna sízt að versna við þessar ráðstafanir. Mun ríkisstj. því beita ákvæðum III. kafla frv., um eftirlit með verðlagi á nauðsynjavörum, lækkun landbúnaðarvara og húsaleigu, eftir því sem ákvæði frv. framast leyfa og í þeim tilgangi, sem fyrr segir, að halda niðri dýrtíðinni og láta vísitölufestinguna og lækkun hennar verða sem allra minnst tilfinnanlega fyrir allan almenning. Það verður höfuðþátturinn í framkvæmd þessarar löggjafar, og mun ríkisstj. leggja á þetta ríka áherzlu. Auk þess mun ríkisstj. halda áfram að greiða niður verðlag á nauðsynjavörum, ekki minna en áður hefur verið.

Rétt er að geta ákvæðis 14. gr. II, kafla frv. Þar er afnumið skattfrelsi áhættuþóknunar sj5manna. En í stað þess eru sett ákvæði um, að forsjármönnum heimilis, er atvinnu stunda utan þeirra, verði ekki talin fæðishlunnindi til skattskyldra tekna og ef menn verði að sjá sér fyrir fæði, þá skuli hæfilegur fæðiskostnaður dreginn frá tekjum þeirra, áður en skattur er á lagður. Skattfrelsi áhættuþóknunarinnar, einkum á háum launum yfirmanna, er algerlega óeðlilegt orðið. Hins vegar þótti rétt að veita þeim, sem sjóinn sækja og utan heimilis síns vinna, þau hlunnindi, er áður segir, í sambandi við ákvörðun skatts.

IV. kafli frv. ræðir um ríkisábyrgð til bátaútvegsins o.fl. Er þar lagt til, að ríkið ábyrgist hið sama verð á útflutningsvörum sjávarútvegsins og verið hefur. Þar er að finna nýtt ákvæði um, að greiða megi úr ríkissjóði rýrnun á saltfiski, sem verður við geymslu hans, enda eigi eigandinn enga sök á drættinum á sölu hans. Saltfisksframleiðendur verða fyrir miklu tjóni af völdum langrar geymslu á fiskinum. Telst því sanngjarnt að bæta þeim þetta tjón, þegar þeir sjálfir eiga þar enga sök á.

Þess hefur orðið vart, að útvegsmenn hafa talið, að síns hlutar væri eigi nægilega gætt með frv. þessu. Í því sambandi ber að athuga, að ábyrgðarverðið er hið sama í frv. og gilti á þessu ári. Meðalvísitala ársins 1947 varð 315 stig. Með þessu frv. á hins vegar að verða tryggt, að vísitalan verði ekki yfir 300 stig. Ætti því ábyrgðarverðið að verða hagstæðara en verið hefur. Hins vegar verður það jafnan svo fyrir sjávarútveginn, að erfitt er að tryggja þann atvinnurekstur gegn öllum skakkaföllum, og veldur þar mestu um, ef afli bregzt.

Í 22. gr. frv. er ríkisstj. gefin heimild til þess að haga svo sölu íslenzkra afurða erlendis, að sem bezt heildarverð fáist fyrir þær, og er stjórninni heimilt að binda sölu einstakra vörutegunda nauðsynlegum skilyrðum, til þess að þessu marki verði náð. Þar sem ríkisvaldið semur nú raunverulega um sölu afurðanna erlendis og tekur ábyrgð á verði þeirra, þykir sjálfsagt að hafa Ákvæði þetta til jöfnunar á milli vissra vörutegunda, ef þörf krefur.

Í 25. gr. frv. er ríkisstj. veitt vald til þess að gera nokkrar ráðstafanir um verðlag á beitu og sparnað í því sambandi. Sömuleiðis er þar ákvæði um, að ákveða megi hámarksleigu á verbúðum. Er þetta allt gert í því skyni að lækka kostnað bátaútgerðarinnar. Sömuleiðis er ákvæði um verðlagningu veiðarfæra og viðgerða á skipum. Skulu þar til kvaddir fulltrúar frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands. er ákvarðanir eru teknar um þau efni.

Þá er í 21. gr. tekin ábyrgð á verðlagi á útfluttu kjöti verðlagsárið frá 31. ágúst 1947 til 1. sept. 1948 á þann veg, að kjötframleiðendum er ábyrgzt útflutningsverð á kjöti þessa tímabils til samræmis við verðlag á kjöti, seldu á innlendum markaði, eftir verðlagningu framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Eins og alkunnugt er, brást síldveiðin mjög tilfinnanlega á s.l. sumri, en af því leiðir aftur, að margir eigendur síldveiðiskipa eru nú illa staddir, búa við miklar skuldir, sem þeim er óhægt um að standa undir. Er ríkisstj. því heimilað í frv. að taka lán, allt að 5 millj. kr., til þess að aðstoða síldarútvegsmenn, er hart hafa orðið úti á síldarvertíðinni sumarið 1947.

VI. kafli frv. ræðir um framlengingu á ákvæðum um hækkun vörumagnstolls og verðtolls, og er þar að finna nákvæmlega hin sömu ákvæði og sett voru í fyrra til þess að auka tekjur ríkissjóðs og gera honum kleift að standa við skuldbindingar sínar um ábyrgðarverðið og til þess að hægt sé að verja fé til niðurgreiðslu á nauðsynjum og þann veg til lækkunar á dýrtíðinni.

Í VII. kafla frv. eru ákvæði um álagningu söluskatts vegna ábyrgðar á fiskverðinu og niðurgreiðslu á innlendum vörum. Söluskattur þessi á að nema 2% af heildsölu og umboðssölu, 11/2% af smásölu og 11/2% af sölu iðju- og iðnfyrirtækja, svo og allra annarra fyrirtækja, sem gjaldskyld eru. Þó ber ekki að greiða skatt af sölu landbúnaðarafurða, vörum, sem seldar eru út úr landinu, og ekki heldur af andvirði mjólkur og mjólkurvara, kjöts og fisks, — og að lokum ekki heldur af sölu veiðarfæra, salts, olíu né viðgerða á skipum. Í 45. gr. frv. er ákveðið, að hækka megi vöru sem söluskatti nemur, en óheimilt er að hækka álagningu verzlana eða fyrirtækja vegna hans.

Það þótti öldungis einsætt, að ekki væri fært að takast á hendur ábyrgð á ákveðnu söluverði útflutningsafurðanna og jafnframt að halda niðri verðlagi í landinu með fé úr ríkissjóði án þess að afla ríkissjóði nýrra tekna. Var því gripið til þessara ráðstafana um tekjuöflun, og ætti hún ekki að verða almenningi þungbær né auka til muna útgjöld manna, en hins vegar gefa ríkissjóði verulegar tekjur.

Ég hef þá rakið höfuðdrætti frv. þess, sem hér er til umr. Markmið þess er, sem fyrr segir, að tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, stemma stigu fyrir vexti dýrtíðar og atvinnuleysi, en auka framleiðslu til gjaldeyrisöflunar. En samtímis þessum óhjákvæmilegu og nauðsynlegu ráðstöfunum varð eigi hjá því komizt að leggja um stund byrðar á allan almenning — þær byrðar, sem ég hef nú leitazt við að skýra, í hverju séu fólgnar: Eignaraukaskatti, lækkun vísitölunnar og festingu hennar, ásamt auknum ráðstöfunum til þess að halda niðri verðlagi í landinu.

Reynt hefur verið að kosta kapps um, að fátækari hluta þjóðarinnar yrði sem minnst íþyngt. Var því að því ráði horfið að lækka vísitöluna aðeins í 300 stig, en af mörgum hefur því verið haldið fram, að þurft hefði að lækka hana miklu meira. Slík lækkun hefði orðið launamönnum tilfinnanlegur baggi, og sá ríkisstj. eigi fært að hverfa að svo róttæku ráði. Hefur allri rýrnun á tekjum almennings verið stillt svo í hóf sem frekast var unnt.

Ég hef getið um það fyrr í ræðu minni, að fyrir örfáum vikum var því haldið fram af íslenzkum kommúnistum, að ekkert þyrfti að gera til þess að stöðva dýrtíðina. Sú skoðun þeirra breyttist að vísu fljótt aftur, og töldu þeir þá slíkar ráðstafanir nauðsynlegar, en sjálfir lögðu þeir fram sýndartillögur einar á Alþingi — tillögur, sem frekar yrðu til þess að löggilda verðbólguna og aukningu hennar en hið gagnstæða. Þar að auki gera þær tillögur ekki ráð fyrir neinni fjáröflun til ríkissjóðs til þess að standast þær skuldbindingar, er hann tekst á hendur vegna fiskverðsins. Till. kommúnista voru því að öllu óraunsæjar og til þess eins gerðar að sýnast, eftir að þeir höfðu hlerað hjá almenningi, að menn vildu ekki lengur búa við dýrtíðina aðgerðarlausir.

En það var ekki nóg, að kommúnistar börðust upphaflega gegn öllum ráðstöfunum til hindrunar verðbólgu, féllu síðan frá þeirri skoðun og lögðu fram sýndartillögur, heldur hafa þeir látlaust á undanförnum tíma reynt að gera allt sem tortryggilegast, sem ríkisstj. kynni að bera fram í málinu. Þannig héldu þeir því látlaust fram, að ríkisstj. mundi leggja til, að krónan yrði felld um a.m.k. 20%, lagður á sérstakur gjaldeyrisskattur og verðlagsvísitöluna ætti að færa með valdboði niður í 250–280 stig. Ekkert af þessu reyndist rétt. En kommúnistar vonuðu, að ríkisstj. mundi koma fram með eitthvað það, er mjög óvinsælt reyndist meðal almennings, eins og t.d. gengislækkun eða gjaldeyrisskatt og stórfelldan niðurskurð vísitölunnar. En þótt ekkert af þessu yrði og ríkisstj. legði fram frv., þar sem ekki er að finna nein ákvæði um gengislækkun eða gjaldeyrisskatt og þar sem vísitalan er aðeins lækkuð niður í 300 stig, hafa kommúnistar þó þegar hafið hina hörðustu andstöðu gegn frv. og í því sambandi þyrlað upp hinu mesta moldviðri. En það er einn þátturinn í orrustu þeirra gegn því, að nokkrar raunhæfar ráðstafanir verði gerðar gegn verðbólgunni. Þeirra von er, að dýrtíðin skapi smátt og smátt hrun og algert öngþveiti í fjármála- og atvinnulífi landsmanna. Kommúnistar um allan heim hafa það hlutverk að berjast gegn því, að ráðstafanir verði gerðar til þess að skapa öruggt og blómlegt atvinnulíf. Þáttur kommúnista í Frakklandi og Ítalíu er auðsær í þessu efni, og sama hlutverki reyna íslenzkir kommúnistar eftir mætti að gegna.

Stefna kommúnista er hrunstefna. Þeir vilja, að hrun og öngþveiti skelli yfir, til þess að sá jarðvegur myndist, er þeir telja vænlegastan til fylgisöflunar fyrir flokk sinn. En ríkisstj. hefur, í trausti á skilning og réttdæmi almennings í landinu, gert þær ráðstafanir, sem frv. felur í sér, til þess að bægt verði frá þeirri hættu, sem yfir vofir.

Ríkisstj. heitir á þegnskap og skilning manna og treystir því, að róleg umhugsun muni gera mönnum ljóst, að hin sanna þjóðfélagshyggja krefst þess, að umræddar ráðstafanir séu gerðar.

Í trausti þess leggur ríkisstj. fram þetta frv. og heitir á menn um land allt til stuðnings við stefnu þess: að tryggja áframhald atvinnurekstrar á öruggum grundvelli og hindra atvinnuleysi og eymd. Sú stefna mun vissulega sigra þrátt fyrir blekkingar og hatramma baráttu af kommúnista hálfu. Þessi stefna er stefna þjóðarinnar sjálfrar, en hitt er hrunstefna kommúnista.