30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Flm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Herra forseti. Á s. l. þingi bar ég fram frv., sem var að mestu leyti eins og þetta. Þá komst það til 2. umr., en ekki til afgreiðslu. Sömuleiðis nokkru seinna á því sama þingi bar þm. Siglf. fram frv. til 1., sem var í sömu átt og það, sem ég bar fram, en fyrir Siglufjarðarkaupstað. Því frv. var einnig vísað til allshn. og náði ekki frekar afgreiðslu en mitt frv. á því þingi. Við höfum komið okkur saman um að bera fram sameiginlegt frv., sem er samhljóða því, sem við fluttum sinn í hvoru lagi áður, og berum það hér fram nú í einu lagi fyrir þessi tvö kjördæmi. Akureyri og Siglufjörð. Þetta mál náði samþykki bæjarstjórna á Akureyri og Siglufirði á s. l. hausti, og áhugi manna virtist vera um það, bæði hjá bæjarstjórnunum og ekki sízt meðal almennings, að fá breyt. í þessum efnum.

Mér er kunnugt, að áhuginn er sá sami enn og ekki síður og er rekið talsvert á eftir, að lagfæring fáist, svo að bæjarstjórnirnar geti samið við hvaða félag, sem þeim sýnist. Mér er kunnugt að bæjarfélag Akureyrar getur nú komizt að hagfelldari kjörum en það getur fengið hjá Brunabótafélagi Íslands. Þess vegna hef ég leyft mér að ítreka þessa málaleitun, að Siglufjörður og Akureyri fái að verða samferða í þessu efni, því að það er líkt á komið hjá þeim báðum að þessu leyti.