30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Samkvæmt l. um Brunabótafélag Íslands er skylt að tryggja hjá því félagi gegn eldsvoða allar húseignir í kaupstöðum og kauptúnum, en þó nær þessi vátryggingarskylda ekki til Reykjavíkur. Sömuleiðis er skylt að tryggja hjá sama félagi öll íbúðarhús í sveitum, skilst mér, en ekki önnur hús þar, nema þau séu áföst við íbúðarhúsið. Mér finnst þetta vera að ýmsu leyti óeðlilegt, að verið sé að gefa undanþágu frá tryggingarskyldunni hjá Brunabótafélagi Íslands fyrir aðeins einn kaupstað, þrátt fyrir það að hann er höfuðborg landsins. Eðlilegast hefði verið, fyrst verið er að gefa einhverjum einkarétt, að hann hefði náð til allra, en Reykjavík hefði ekki haft hann ein. Nú er komið fram frá, frá tveimur hv. þm. um það að undanþiggja húseignir í tveimur öðrum kaupstöðum tryggingarskyldu hjá Brunabótafélagi Íslands. Ef til þess kæmi, að mönnum þætti eðlilegt að 1. væri breytt á þennan hátt, að undanþiggja einhverja fleiri en Reykjavík þessari tryggingarskyldu, þá þætti mér eðlilegast að setja 1. um, að heimilt væri fyrir öll bæjar- og sveitarfélög að koma tryggingunum fyrir á annan hátt. Mér sýnist ekki eðlilegt eða sanngjarnt að fara að taka einn kaupstað út úr þessum allsherjar tryggingum og láta hann hafa þessi sérréttindi. Það er miklu réttara að heimila öllum sveitar- og bæjarfélögum. að hvert megi róa á sínu skipi. Ég skal ekki fara út í hvort það er heppilegt eða ekki að afnema þannig tryggingarskylduna hjá Brunabótafélagi Íslands. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að þessar tryggingar eigi að vera allar innlendar og á innlendra höndum, en mér hefur skilizt, að þær séu það nú alls ekki, hvorki brunatryggingar né aðrar tryggingar yfirleitt, ekki einu sinni hjá Brunabótafélagi Íslands, því að mér skilst, að það eins og önnur íslenzk tryggingarfélög endurtryggi erlendis. (Forsrh.: Það endurtryggir allt hjá Stríðsslysatryggingunum.) En endurtryggir það félag þá ekki erlendis? (Forsrh.: Ég geri ráð fyrir því, eitthvað.) Ég get ekki hugsað mér, að endurtryggingar erlendra félaga séu nein góðgerðastarfsemi í okkar garð, heldur séu þau gjöld, sem þeir taka, miðuð við þá áhættu, sem þeir álíta, að tryggingunum sé samfara, og ef þeir tapa einhvern tíma á þessum endurtryggingum, þá er engin hætta á, að þeir reyni ekki að ná því upp síðar, en leggi féð ekki fram úr eigin vasa. Ég held því, að það væri spor í framfaraátt, ef það væri hætt að endurtryggja erlendis. Nýlega hefur verið komið á fót hér á landi nýju tryggingarfélagi, sem heitir Samvinnutryggingar. Það er því orðið um fleira að ræða en Brunabótafélag Íslands, fleiri innlendar stofnanir.

Ég skal ekki fara út í það nú, hversu heppilegt sé að afnema þessa tryggingarskyldu hjá Brunabótafélagi Íslands, en vil aðeins benda þeirri n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, á það að ef á annað borð sanngirni á að ráða, þá á ekki aðeins að veita tveimur kaupstöðum frjálsræði til að ráða, hvar þeir tryggja, heldur á að veita öllum bæjarfélögum heimild til þess að haga sínum tryggingum á annan veg en nú er fyrir mælt í l. um Brunabótafélag Íslands.