30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir niðurlag ræðu hv. þm. Siglf. um að þetta mál fái mjög ýtarlega athugun. Einmitt á þann hátt, sem hann bendir á, getur Brunabótafélag Íslands gefið mjög fullkomnar upplýsingar um þetta, og síðan, þegar þær liggja fyrir, teldi ég rétt, að hlutaðeigandi bæjarfélög, sem óskað hafa eftir að losna úr Brunabótafélaginu, kæmu fram með sín rök. Óska ég eftir því, að n., sem um þetta fjallar, leiti þessara upplýsinga hjá þessum aðilum.

Ég vil svo leiðrétta það, sem kom fram hjá sama þm., að stjfrv. það til l. um brunamál á þskj. 65, sem útbýtt hefur verið í d., það snertir raunar alls ekkert brunatryggingarnar sjálfar heldur brunavarnir. Er frv. fram borið í þeim tilgangi að draga saman 1 heild allar reglur, sem nú eru í gildi um brunavarnir á Íslandi, sem sumpart eru úreltar og sumpart í mótsögn hverjar við aðrar. En einmitt út frá þessu stjfrv. — og það var réttilega tekið fram í ræðu hv. þm. Siglf. — þá er ekki mest undir því komið að fá sem ódýrust brunatryggingaiðgjöld, það, sem mest á ríður, eru öflugar og hentugar brunavarnir, og ég hygg, að engin samtök á Íslandi hafi gert jafnmikið að því að auka og efla brunavarnirnar eins og Brunabótafélag Íslands. Það hefur mann í sinni þjónustu, sem hefur með höndum allsherjar eftirlit með brunavörnum úti um land allt. Ferðast hann árlega um landið í sambandi við eldsvoða, sem koma fyrir, og til þess að leiðbeina mönnum um brunavarnir og stuðla að því, að þær séu ávallt í sem beztu lagi. — Það var einnig réttilega fram tekið hjá hv. þm. Siglf., að það er eðlilegt hlutverk Brunabótafélagsins að styrkja bæjar- og sveitarfélögin við að halda uppi sem öflugustum brunavörnum. Það hefur það gert með því að útvega og lána þeim fullkomin tæki í þessu skyni. Rekur Brunabótafélag Íslands stórt verkstæði til þess að byggja yfir og útbúa nýja brunabíla, lána síðan hlutaðeigandi bæjarfélögum andvirði þeirra og lofa þeim að greiða það upp á löngu tímabili og lækka síðan iðgjöldin, þegar liðinn er nokkur tími frá því, að þessi tæki hafa komið til skjalanna. — Að öðru leyti hygg ég, að ekki þurfi að fara um þetta mál fleiri orðum á þessu stigi, en vil ítreka það, að sú n., sem fjallar um málið, leiti sér sem fullkomnastra upplýsinga um það.