13.11.1947
Neðri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2357)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð um þetta mál, þar sem ég er meðflm. að því og það virðist nú svo, að þetta sé helzta stórmálið, sem fyrir þetta þing hefur komið, eftir því, hve miklum andmælum þetta óskaplega meinlausa frv. mætir hér, þar sem búið er, held ég, að taka þrjár klst. af tveimur af ötulustu þm. vegna frv. við umr. frá því það kom til 1. umr.

Ég skal strax taka fram, að ég mun fyrst ræða hér nokkuð um það, hvers vegna ég fylgi þessu frv., og síðan mun ég svo ræða um frv. sjálft og það, að það eru viss atriði í því, sem ég er ekki samþykkur, þó að ég sé meðflm. að því eins og það liggur fyrir, enda getur það að mínu áliti vel komið til greina, að þar verði þessu hagað nokkuð á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. eins og það er nú, enda lét hv. 1. flm. mjög í það skína í framsöguræðu sinni, að viss atriði væru í frv., sem sjálfsagt væri að taka til athugunar af þeirri n., sem fær málið til meðferðar.

Þó að ég hafi hlustað á rök þeirra hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). þá er ég miklu sannfærðari um það eftir en ég var áður, að þetta er rétt mál og gott, sem hér er flutt. vegna þess að þetta eru báðir viðurkenndir ræðumenn miklir og viðurkenndir fyrir að geta haldið á sínum málum og fært rök fram fyrir sínum málstað. þegar þeir hafa þau til. En ég er algerlega undrandi yfir því, hve geysilega og gersamlega hefur skort á rök í ræðum þeirra.

Hv. 6. þm. Reykv. byrjaði mál sitt á því að beygja sig upp og hrópa: Komið þið með rök! Komið þið með rök! Komið þið með tölur! En sjálfur hefur hann ekki reynt að færa minnstu rök fyrir sínu máli. Hann lofaði að koma með tölur síðar í umr. En nú er þessi hv. þm. búinn að hafa heila viku. frá því er málið kom fyrst fram hér í hv. d., og á þeim tíma hefur hann ekki getað safnað þessum tölum, sem hann hafði lofað að koma fram með einhvern tíma síðar. Þetta sýnir, hve andmælendur frv. þessa eru rökþrota, þegar þeir ætla að mæla gegn þessu máli. — Annars er eitt af því, sem þeir hafa sagt í þessu máli, sem ég tel alvarlega hlið málsins og eiginlega einu rökin, sem hægt væri að mæla gegn frv. með á réttan hátt, ef þau rök stæðust, og það er það, sem þeir hafa minnzt á báðir, að þetta gæti orðið til þess, að unglingar vendust meir á áfengi í þessu landi en enn er. Sé þetta rétt, skal ég viðurkenna það, að ég mundi verða á móti þessu frv., ef ég hefði nokkra trú á, að hér væri um rétt rök að ræða, að bruggun áfengs öls í landinu mundi venja unglinga á neyzlu áfengis fremur en ef það öl væri ekki til. Því að það skilur ekki andmælendur þessa máls og okkur, sem flytjum þetta frv., að það sé lengra komið á áfengisneyzlubrautinni fyrir æskulýð þessa lands en ætti að vera og það er til stórvansa fyrir þjóðina, hvernig í því efni er komið. Þess vegna eru þetta einu rökin, sem ég tek að nokkru leyti gild. Og ef hv. andmælendur frv. gætu sannfært mig um, að hægt væri að sýna fram á, að svo væri mundi ég snúast gegn frv., en með þeim. Þetta vil ég greinilega taka fram, og mun ég gera því nánari skil, áður en ég sezt niður aftur.

Ég vil taka fram, að það sem fyrst og fremst kemur mér til að vera með frv., er það að ég vil líta á hlutina með heilbrigðri skynsemi, en ég álít, að það skorti nokkuð á heilbrigða skynsemi hjá þeim, sem líta á það sem einhvern óskaplegan hlut, ef við eigum nú að fá öl með 4% að áfengismagni, þegar við höfum fyrir allar víntegundir, allt frá sterkustu drykkjum og niður í léttustu borðvín. Það getur enginn komið mér til að trúa því, að það sé á ferðum einhver óskapleg hætta, þó að létt öl eða þess háttar sé selt, þar sem eins er háttað um áfengismál og nú er hjá okkur. Nei, það er skortur á heilbrigðri skynsemi að ætla að koma nokkrum manni í trú um það. Það er ofstæki og vanþekking, sem veldur því hjá þeim, sem halda slíku fram. Það er ekki eins og við höfum nú ekkert öl í landinu. Menn geta orðið jafnkenndir af því að drekka tvær flöskur af bjór eða pilsner og einni flösku af þessu öli, sem gert er ráð fyrir að brugga samkvæmt þessu frv., og ég heyri ekki betur en andmælendur þessa frv. telji rétt, að það öl sem nú er á boðstólum, sé frjáls vara en gæta ekki að því, að vandinn er ekki annar en að drekka tvær flöskur af því til að fá sama áfengi og gert er ráð fyrir, að menn fái með því að drekka eina flösku af því nýja öli. Ég lít á öl eins og hverja aðra fæðutegund, eins og hverja aðra þá fæðutegund. sem notuð er, en ekki sem munaðarvöru.

Hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) talaði mjög mikið um ágæti bindindismanna og starfsemi þeirra hér á landi fyrir afnámi drykkjuskapar. Það er síður en svo, að ég vilji hnjóða í bindindismenn yfirleitt, en ég vil segja það, að svo sorglega hefur til tekizt, að þeir hafa stigið þau geysilegu víxlspor í áfengismálum hér á landi, og af því súpum við seyðið nú. Það var merkileg játning hjá hv. þm., og það er bezt, að ég komi að henni strax, þar sem hann endurtók, að straumhvörf hefðu orðið í áfengismálunum hjá þjóð okkar kringum 1918. Þangað til hefði drykkjuskapur farið minnkandi og mönnum hefði þótt minnkun að því að drekka sig fulla, en þá hefði allt verið brotið niður og áfengisbölið farið vaxandi og virtist enn vera að fara vaxandi. En hvað segir þessi merkilega játning og yfirlýsing hjá hv. 6. þm. Reykv.? Hún segir það, að bannl., sem samþ. voru 1915, gerbreyttu hugsunarhættinum og það virtist svo, að sumum þætti sómi að því eftir á að láta sjá sig kennda, sem yfirleitt þátti áður minnkun.

Mig langar til í þessu sambandi að minna á eitt dæmi frá æsku minni. Ég var þá stráklingur, sennilega 18 ára, norður í Mývatnssveit rétt fyrir þann tíma, sem bannlöggjöfin gekk í gildi, og hafði þá aldrei bragðað áfengt. Áfengisnautn var þá engin þar, og hugsunarhátturinn var sá, að það væri skömm að því að láta sjá á sér vín á mannamótum. Það voru helzt nokkrir aldraðir menn í réttum og kaupstaðarferðum. Þá var það einn vetur, að 30 Mývetningar fóru á sleðum til Húsavíkur og óku yfir hjarnbreiðurnar 80 km. Flestir höfðu aldrei bragðað vín. Bannlögin voru að ganga í gildi, og einhverjir forustumenn sögðu, að ekki væri um annað að gera en að fá sér brennivín og drekka duglega. Þeir fengu sér á kút, sem var svo stór, að það þurfti talsvert átak til að súpa á honum, því að það var drukkið úr sponsgatinu. enda voru næstum, allir fullir, þegar komið var heim í Mývatnssveit. Flestir þessir menn höfðu aldrei bragðað vín áður en þessi vitlausa löggjöf kom. Ég hygg, að sem betur fór hafi fáir orðið sér til skammar fyrir vinnautn síðar, en ég nefni þetta sem dæmi um, hvernig fólk tók á móti þessu og hvernig það reageraði, svo að ég noti svo andstyggilegt orð, af því að ég man ekki annað í svipinn. Ég var mjög þakklátur hv. þm. að fá þessa opinberu viðurkenningu, því að það, sem hann talaði um, nær engri átt. að konsúlabrennivínið hafi haft nokkur áhrif á almenning í þessu efni. En á þessum tímum var hægt að fá þetta óskaplega öl. Á þessum árum var ekkert því til fyrirstöðu að fá gamla Carlsberg. Hann var alls staðar á boðstólum, og þó var þessi gleðilega þróun, sem hv. þm. talaði um, að bindindisstarfsemin fór vaxandi og skoðun manna sú, að það væri skömm að drekka of mikið eða láta sjá á sér. Þá var hægt að fá þennan hlut, sem þessir menn eru að bannsyngja nú. Hver maður, sem vildi, gat fengið öl. En ég verð að segja það, að ég kalla það ekki áfengi, þó að menn drekki þetta öl, þó að það megi þamba svo mikið af því, að menn finni á sér eða spilli heilbrigði sinni. En það er svo með hvað eina, að það má skemma sig á að neyta of mikils af því. Það má drepa sig á að eta of mikið kjöt. Jóhannes Birkiland heldur því fram í ævisögu sinni, sem sjálfsagt er alveg rétt, að hann hafi verið eyðilagður á of miklu kjötáti, eyðilögð skynsemi hans og heilafrumur, svo að hann hafi aldrei orðið samur maður aftur. Hér er líka félagsskapur, sem berst mjög á mótt kjötáti og heldur fram, að það sé mjög skaðlegt að eta hvítan sykur. En ég tel ekki meiri hættu að neyta öls með 4% áfengi en að misnota ýmsar fæðutegundir. sem við notum nú, en það má nota hvað eina þannig, að það skemmi líkamsbygginguna, ef vitlaust er að farið.

Mín skoðun á bindindisfólkinu er sú, að það hafi farið skakkt að að nota alltaf þetta úrelta orð: „Þú skalt ekki.“ Það er eina úrræðið hjá þeim í áfengismálunum. Allt þeirra tal og öll þeirra skrif um þessa hluti er byggt á trú á slíkri aðferð. Þessa aðferð er hægt að nota þar, sem einræðisfyrirkomulag er, en í þjóðfélagi sem er byggt á sams konar grundvelli og okkar íslenzka þjóðfélag, er engin leið til þess. Fólkið þolir það ekki, líður það ekki. Slík aðferð veldur siðspillingu í áfengismálum, og er ég þar sammála því. sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um það atriði. Okkur ætti að vera það skiljanlegt frá því, er formóðir okkar, Eva, borðaði af því eina tré, sem hún mátti ekki, af því að við hana hafði verið sagt: „Þú skalt ekki.“

Ég held, að við sjáum. hvert sem við lítum, að strangar reglur duga ekki mikið. Hvernig var það þegar kirkjukenningarnar voru strangastar? Aldrei var brotið meira en þá. Hvernig var það þegar Stóridómur var? Aldrei var siðferðið verra en þá. Sifjaspell, jafnvel milli systkina, voru miklu tíðari þá en nú, af því að svo miklu strangara var þá tekið á slíkum afbrotum og menn brutust undan slíku oki. Alveg sama máli er að gegna hér. Okkar góðu bindindismenn hafa fylgt þessari sömu reglu, og afleiðingin er öllum augljós.

Hv. 6. þm. Reykv. var að færa rök fyrir því, að ekki mætti selja vín í smærri skömmtum en þriggja pela flöskum. Ég verð að segja, að þetta er í mínum augum eitt dæmið um þetta ofstæki og ég vil segja hreina heimsku, sem svo iðulega kemur fram í gerðum þessara stæku bindindismanna. Það er að mínum dómi aðeins hrein heimska, að áfengisverzlunin hafi ekki smærri skammt en þetta. Það er rétt, sem, hv. 1. flm. skaut fram, að það lítur út fyrir, að ef einhver kaupir vín, þá sé sjálfsagt, að hann kaupi svo mikið, að hann verði blindfullur. Það virðist ekki geta verið annað, sem vakir fyrir þessu fólki með jafnkjánalegum ráðstöfunum sem þessum. Það er það sama og maður sér svo oft í ritum bindindismanna og heyrir í samræðum við þá. Hv. 6. þm. Reykv. kom ekki inn á það, og ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi þá skoðun. að hófdrykkjumenn séu langversta tegundin. Það eru víst menn eins og ég, því að ég bragða einatt vín án þess að verða mér mjög oft til stórkostlegrar skammar og þykist eiga hjá mér hvað ég geri. meðan ég brýt ekki borgaralegar reglur. Margir halda fram, að slíkir menn séu hættulegastir í áfengismálunum. Unga fólkið læri af þeim að drekka. sennilega af því, að þeir þykja eitthvað mannborlegri og skemmtilegri og glæsilegri og verði því unga fólkinu fyrirmynd. Manni virðist, að það hljóti að vera sú ástæða, sem liggur til grundvallar fyrir þessari skoðun ýmissa bindindismanna. En ég lít þannig á, að meðan menn nota vín eins og aðra hluti, innan hæfilegra vébanda, þá sé það mál, sem snerti þá sjálfa og engan annan. Ég lít svo á, að það sé mjög erfitt að ætla að vera forsjón fullorðinna manna um vínnautn eins og ýmislegt annað. Annað mál er með unglinga. Það er hin veika hlið þessa máls, sem sjálfsagt er að athuga í sambandi við þetta. Ég tók fram áðan, að ef hægt væri að koma mér til að trúa því, að öl af þeim styrkleika. sem hér er talað um, væri hættulegra fyrir unglinga en þær tegundir, sem nú er neytt, þá mundi ég snúast gegn frv. En ég veit, að yfirleitt er það svo, að unglingum þykir ölbragð vont, og það er mjög gott, að svo sé. Við vitum, að unglingarnir drekka ekki pilsner og bjór með 2% styrkleika, og meira að segja hefur einn alþm. sagt mér, að hann finni greinileg áhrif, ef hann drekki einn pilsner, ég tala nú ekki um, ef það eru tveir. (PO: Hvernig skyldi það þá vera fyrir unglinga?). Nei, því betur er það svo, að unglingum þykir bjórbragðið andstyggilegt, og það er sama, hvort það er bruggað með 2% eða 4%. Það er enginn vafi, að það er annað, sem þeir gangast meir fyrir, en það eru hin léttu vín, sem svo eru nefnd, rauðvín og portvín. Þau eru sæt á bragðið, og það er slíkt bragð, sem börn og unglingar gangast fyrir, eins og allir vita, sem hafa eitthvað haft með börn að gera. Það er því að mínum dómi mesta fjarstæða að hugsa sér, að börn og unglingar fari að leggjast í bjórþamb, þó að það kæmi bjór með svolítið meiri styrkleika. Nei, ef á að taka það, sem börnin gangast helzt fyrir, þá er bezt að taka hin svo kölluðu borðvín, því að það eru þau, sem börn og unglingar gangast helzt fyrir. En það er mesta fjarstæða að bera því við, að unglingar fari að leggja sér þetta öl til munns, svo að nokkru ráði sé.

Ég hef reynt á minni ævi að gera mér grein fyrir ýmsu í sambandi við þessi bindindismál. Ég hef oft reynt að hugsa rökrétt um þessi mál. Ef það er rétt, sem bindindisfólk heldur fram, að strangt bann sé heppilegast, þá ættu börn frá þeim heimilum, þar sem strangt bindindisfólk er, að verða miklu meiri reglumenn en þar, sem vín er frjálslega um hönd haft. Ég hef að vísu engar tölur, sem hv. 6. þm. Reykv. var að hrópa á. Hann segir, að ekkert sé að marka nema tölur, þó að honum gleymdist að koma með þær sjálfur. Ég hef reynt að gera mér þetta ljóst, og mér virðist, að það sé alveg upp og ofan og að ekki sé hægt að gefa um það neina reglu. Og ég vil meira að segja leyfa mér að segja, að ég hef aldrei séð, að þeir unglingar, sem eru frá ströngum bindindisheimilum, standist hóti meir gegn vínnautn en hinir. Þetta ætti að koma bindindisfólki til að íhuga, hvort það veður ekki í villu í þessum málum og hvort ekki væri betra að líta á áfengismálin eins og hvert annað mál í staðinn fyrir að skoða áfengið eins og einhvern djöful, en það er orðið siður hjá þeim bæði í ræðu og riti að tala um Bakkus eins og einhvern voða djöful, sem vilji undiroka mennina. Það er eins og fyrr var talað um Satan, sem átti að forfæra fólkið eftir þrengstu kenningum kirkjunnar þá. Nei, ég er hræddur um. að öll slík bönn orki lítið. en hitt sé skynsamlegra að líta á þetta mál eins og hvert annað mál, sem þarf að fást við.

Ég hef sagt það, sem ég hef sagt hér, af því að ég hef viljað skýra frá því, hvers vegna það er, að ég tel ástæðulaust, eins og ástatt er hér á landi, að banna að bruggað sé öl af þeim styrkleika, sem hér er um að ræða. Ef hægt væri að útiloka allt áfengi úr landinu, þá væri ekki verið að brugga öl frekar en annað. En þjóðin er búin að glíma við það. Hún er búin að láta bindindismennina hafa þessa hluti með höndum og við vitum, hvernig fór. Hv. 6. þm. Reykv. segir, að allt hafi verið konsúlavini og Spánarvíni að kenna o. s. frv. Nei, það var annað. Það fór eins og annars staðar, þar sem vínbann hefur verið sett á, að þjóðin reis upp gegn því, neitaði að hlýða l., og þess vegna varð að afnema þau aftur. Það er aðalatriðið í þessu máli. Ég er sannfærður um, að þjóð okkar væri mörgum sinnum betur sett í áfengismálum, ef aðflutningsbannið hefði aldrei verið sett. Ef bindindisfólkið hefði í stað þess að heimta áfengisbann tekið þá afstöðu að styðja frjálsa bindindisstarfsemi, fá fé til þess úr ríkissjóði, þá hefði sá andi. sem hv. 6. þm. Reykv. segir, að verið hafi í landinu áður en bannið kom og ég get staðfest sem eldri maður, að hann lýsti algerlega rétt, fengið að þróast áfram og sú starfsemi fengið að blómgast, og þá hefðu menn orðið sér minna til minnkunar á síðustu árum en því miður hefur raun á orðið.

Það er alltaf verið að hræsna um þessa hluti. Það er eins og fjöldi manna þori ekki að segja meiningu sína. Ég efast ekki um, þegar ég ræðst á þetta víxlspor bindindismanna, sem ég tel, að þeir hafi stigið, að þá verði deilt harðlega á mig og sagt, að ég sé einhver brennivínsberserkur, sem vilji láta áfengið fljóta í stríðum straumum, því að þeir hafa aldrei önnur rök, og ég efast ekki um, að þeim rökum verði beitt gegn okkur. Hv. 6. þm. Reykv. lét líka skína í það í sinni ræðu, þó að hann tæki það ekki skýrt fram. En ég segi það fullum fetum, að mér dettur ekki annað í hug en að gagnrýna gerðir bindindismanna og held ákveðið fram, að þeir hafi stigið víxlspor í áfengisvarnarmálunum, sem hafi skaðað þjóð okkar stórkostlega mikið. Það væri gott, að stúkan og bindindismenn áttuðu sig á því, að þótt menn geri rangt, þá er karlmannlegt og drengilegt að kannast við það og taka upp réttari aðferðir. Það er á þeim grundvelli, sem á að starfa áfram, en ekki á banngrundvelli, sem hefur verið aðalboð þessa fólks frá því fyrsta. Þó að það hafi í fyrstu orðið að slá undan í bili, þá virðist mér þó, að enn sé efst á stefnuskrá þess fólks algert bann, þvert ofan í alla reynslu, alla skynsemi. bls. 213

Nú vil ég taka það fram strax, að það er síður en svo, að ég mæli með því, að áfengisverzlunin lúti ekki fullum reglum, eins og allt annað í þessu þjóðfélagi. Ég vil taka það fram strax, svo að ekki verði farið að snúa út úr orðum mínum og halda því fram, að ég vilji endilega láta selja öl og vín í hverri búð.

Það má vera, að forseta finnist ég fara dálítið út fyrir efnið, þegar farið er að ræða almennt um áfengismál. En af andstæðingum frv. hefur þetta frv. verið tekið þannig, að það hefur verið rætt algerlega almennt um áfengismál, svo að af þeim ástæðum virðist mér ekki óeðlilegt, að þau séu rædd á þennan hátt.

Ég mun nú láta lokið þeim hluta ræðu minnar, sem snýr að þessu atriði, en á þá eftir að koma nokkuð að frv. sjálfu og ýmsu í sambandi við það. Ég vil taka það fram, að þótt ég sé meðflm. að frv., þá eru atriði í því, sem ég tel, að þurfi að breyta, og get hugsað mér, meira að segja, að þetta mál eigi að vera í allt annarri mynd en það er nú. Það gæti verið til athugunar, að mínum dómi, að ríkið hefði með höndum ölgerð, á sama hátt og það hefur með höndum bruggun á svartadauða og öðrum víntegundum. Ég álít að þetta sé atriði sem sjálfsagt sé að athuga í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og hygg, að ef sá háttur yrði upp tekinn, væri eðlilegast, að það lægi undir Áfengisverzlun ríkisins, þó að það sé ekkert aðalatriði í þessu sambandi.

Þá vil ég einnig geta þess, að ég tel, að það gjald, sem talað er um í 2. gr. frv., að greiða eigi fyrir leyfi til ölbruggunar, sé of lágt, enda talaði 1. flm. um, að það sé til athugunar, og tel ég, að það megi vera allmiklu hærra. — Einnig þykir mér líklegt, að rétt sé að hafa gjaldið af ölinu hærra en gert er ráð fyrir í 4. gr. Þar er gert ráð fyrir að greitt verði kr. 1,50 af hverjum lítra en 10 aurar af því, sem út er flutt. Ég hygg að þetta gjald ætti að vera hærra. Ég hygg. að þetta öl, þetta 4% öl, ætti að vera töluvert dýrara en núverandi öl. Og það mundi þá einnig draga úr þeirri hræðslu, að unglingar kaupi það í frístundum sínum, því sem betur fer eru auraráð unglinganna nokkuð takmörkuð, þó að það ætti að vera meira en verið hefur á síðustu árum. Nú á tímum kaupa unglingar mikið af Coca-Cola, og ég efast um, að betra sé að drekka tvær flöskur af því en eina af þessum bjór.

Það eru ýmis önnur atriði, sem ég tel að þurfi mjög að athuga og sjálfsagt er að lagfæra undir meðferð málsins hér á Alþ. Ég skal taka það fram, að ég áskil mér undir meðferð málsins rétt um allar brtt. við frv., bæði að því er snertir að gerbreyta því þannig, að það verði frekar ríkið, sem hefði ölgerðina með höndum, og einstök atriði, sem ég hef hér nefnt.

Ég tók það fram í upphafi máls míns og endurtek það enn, að sterkasta ástæðan til þess að ég hef gerzt meðflm. að þessu frv., er sú að ég hef, eftir því sem mér hefur verið mögulegt, reynt að láta skynsemina ráða. Og ég tek því fram að það getur ekki samrýmzt minni skynsemi, að hjá þjóð, þar sem ríkið sjálft selur vín af öllum styrkleika, þyki það goðgá, að bruggað sé öl með 4% styrkleika, eins og hér er farið fram á. Slíkt þykir mér ofstæki sem lýsir sér í fleiri tiltektum okkar bindindismanna á ýmsum öldum, og hefur það oft orðið til þess að spilla fyrir ýmsum þáttum áfengismálanna, en ekki til þess að bæta þá. Og það er með þetta í huga, sem ég hef gerzt meðflm. að frv. Ég tel þetta ekki stórt mál. Að mínum dómi er það mjög lítið mál. Ég get ekki skilið það, hvernig heilbrigðir menn geta talið það stórmál, hvort bruggað er öl með þeim styrkleika eins og hér er gert ráð fyrir og þetta held ég, að hafi aðallega vakað fyrir flm. frv.

Ég ætla ekki að fara að svara fyrir hv. 1. flm. frv., hann mun gera það sjálfur. En af því að hv. 6. þm. Reykv. hneykslaðist á því, að hann (flm.) mundi ekki beygja sig fyrir ýmsum áskorunum um það mál, sem hér um ræðir, þá verð ég að segja það, að það hefur ekki nein áhrif á skoðanir mínar í þessu máli, enda er það algert stjórnarskrárbrot, því að það er ritað, að þm. eiga að fara eftir sannfæringu sinni og engu öðru. Og þótt það kæmu mótmæli frá nokkur hundruð kjósendum, haggaði það ekki sannfæringu minni nokkurn hlut. Við flm. fáum náttúrlega okkar dóm á sínum tíma, hvaða afstöðu við höfum tekið í þessu máli, og ég vona, að hv. 6. þm. Reykv. þurfi ekki að kvíða því, að sá dómur gangi ekki yfir á réttan hátt. Vera má, að ef það lýðræði, sem hann vill, ríkti hér, fengist sá dómur aldrei réttlátur. En sem betur fer er ekki svo enn, og vonandi verður þess langt að bíða.