21.11.1947
Neðri deild: 22. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál eru nú búnar að standa allmargar klst. En af því að hér er um mikið alvörumál að ræða, get ég ekki stillt mig um að láta mína skoðun á málinu í ljós með örfáum orðum.

Inn í umr. um þetta mál hefur verið blandað ýmsum atriðum í sambandi við áfengismál almennt, banni og ekki banni o. fl. Því hefur verið haldið fram af ýmsum hér, að bannið, sem ríkjandi var hér fyrir nokkrum árum, hafi verið hin mesta bölvun og ógæfa fyrir þjóðina. Hins vegar hafi ástandið eftir bannið ekki verið gott, og ástandið sem nú er í áfengismálunum hjá okkur, sé fyrir neðan allar hellur og ástæða sé til að vinna bót þar á. En höfuðröksemd þeirra manna, sem barizt hafa á móti banninu, hefur verið sú að bannið væri skaðlegt fyrir þjóðina af því, að menn væru nú einu sinni svo gerðir, að þeir vildu mjög gjarna gera það, sem þeim væri bannað að gera. Svona röksemdafærsla hefur alltaf verið af hálfu þeirra manna, sem hafa verið á móti banni. Ég get ekki að því gert, að mér finnst þessi röksemd alltaf ákaflega hlægileg og hliðstæð því, að sagt væri að af því að 1. eru til, sem banna að stela, þá steli menn.

Mér finnst það líka harla einkennilegt í sambandi við þann málflutning, sem hér hefur verið viðhafður, að þegar það er viðurkennt af öllum, sem talað hafa, jafnt flm. frv. og hinum, sem verið hafa á móti því, að ástandið í áfengismálum þjóðarinnar sé svo slæmt, að ekki sé við unandi, þá sé talað um það sem í hreinni alvöru sé, að leiðin til þess að bæta ástandið í þessu efni sé fólgin í því, að gerð sé ráðstöfun til þess að rétta að þjóðinni meira áfengi. M. ö. o. er því haldið fram, að það þurfi að skapa betri umgengnismenningu og koma til vegar, að frjálslega sé farið með áfengi. Og ráðið til þessa á að vera það að koma með þetta áfenga öl, og því er haldið fram, að þá muni skapast sú menning hjá okkur, að við getum, farið vel með áfengi. Ég get ekki mótmælt því, að það þekkist börn. sem alizt hafa upp á heimilum reglumanna. en hafa ekki farið betur með áfengi en börn hinna, sem hafa haft eitthvað vín með höndum. En hér hefur þó ekkert dæmi verið tekið fram þessu til sönnunar. Og ég hygg, að ef málið væri krufið til mergjar, mundi reynslan yfirleitt sýna það gagnstæða, að börn, sem alin eru upp á heimilum bindindismanna, fari yfirleitt betur með áfengi en hin, sem alast upp þar, sem áfengi er til muna haft um hönd. Enda er það eðlilegt, því að auðvitað eru börn, sem alast upp á heimilum bindindismanna, uppfrædd um skaðsemi áfengisins. En þar, sem börn sjá áfengi haft með höndum, freistast þau fremur til þess að taka fyrsta sopann, sem oft leiðir til þess, að meira er af áfengi um hönd haft.

Eitt af því, sem fært er fram til stuðnings þessu máli, er það að sagt er, að bæta þurfi siðmenningu Íslendinga. Og er því haldið fram, að ástandið í áfengismálunum hjá okkur mundi batna, ef þjóðin hefði aðgang að áfengu öll. Mér finnst einkennilegt að halda því fram, að ef allir, bæði ungir og gamlir, eiga aðgang að áfengu öli og neyta þess, þá muni menningarsiðirnir fegrast og batna í landinu. Mér virðist reynslan hafa verið sú, að þegar byrjað er að neyta áfengis, jafnvel þó að í litlum stíl sé, þá skapist að jafnaði við það meiri og meiri áfengisþorsti. Og ég man, þegar barizt var á móti banni., að þá var ein röksemdafærslan sú, að léttu vínin í landinu væru orsök þess, hve margir unglingar neyttu áfengis. Það yrði að taka bannið burt, til þess að sterku vínin yrðu til þess, að þegar fólk bragðaði þau, þá mundi það ekki drekka vín eftir að hafa í fyrsta sinn drukkið þau. Nú er bannið afnumið, og mér skilst, að af sömu aðilum, formælendum afnáms þess, sé nú sagt, að það þurfi að koma með létt áfengt öl, því að það mundi verða til þess að minnka neyzlu sterkra drykkja. Þetta finnst mér vera fullkomin svikamylla í gangi, því að hér finnst mér, að menn beiti þeim málflutningi, sem ekki skyldi, til þess að rugla hina margumtöluðu heilbrigðu skynsemi.

Ein höfuðröksemdafærslan fyrir þessu frv. á að vera sú, að hjá þjóðum, sem hafa haft með höndum áfengt öl í áratugi, hafi skapazt meiri umgengnismenning í sambandi við meðferð áfengis. Ein af þeim þjóðum, sem hafa haft áfengt öl í langan tíma, eru Bretar. Og mér virðist menning þeirrar þjóðar á því svíði ekki vera sú, að hún sé eftirsóknarverð fyrir Íslendinga. Mjög víða þar meðal verkamanna, bæði í bæjum og meðal námuverkamanna og sömuleiðis í hafnarborgunum, er það algengur siður, að vinnandi menn hverfa frá starfi sínu á kvöldin og fara á bjórkrárnar og eru þar fram á nótt. Þar er það svo í mörgum tilfellum, að heimilislífið er lagt í rústir þannig einmitt með áfengu öli. Og ég held, að hér sé ekki um það fordæmi að ræða, sem sérstaklega sé vert að sækjast eftir að hafa til fyrirmyndar hér.

Ef við samþykktum þetta frv., mundi það verða til þess, að áfengt öl yrði bruggað hér á landi.

Og ef svo færi, þá mundum við sjá, að áfengisnautn í landinu mundi stóraukast. Og ég álít það hið hættulegasta í því efnt, að þá mundi áfengisneyzla hjá unglingum stórum aukast. Ég tel því, að það bezta, sem hv. þd. gerði við þetta frv. — og það réttasta, — væri að fella það nú strax við 1. umr.