21.11.1947
Neðri deild: 22. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti Aðeins örfá orð. Ég get verið sammála hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) um að það eigi nú senn að ljúka þessari umr. Og það er ekki að ófyrirsynju, að hv. flm. þessa frv. óska eftir því, því að þeir eru komnir í svo mikil rökþrot með þetta mál, að það er vitanlegt að þeirra hlutur verður því verri sem þessar umr. standa lengur.

Hv. 1. þm. Skagf. kvartar undan því, að ég hefði snúið út úr þeim orðum hans, þar sem hann sagði frá þessu ævintýri þeirra í Mývatnssveitinni með kútinn. Það var ekki ásetningur minn að snúa út úr því, og ég held, að hv. ræðumaður eigi þar sökina sjálfur, því að hann vildi hafa þetta sem dæmi um það, hversu bannl. væru óhafandi í landinu, þar sem saklausir sveitapiltar hefðu tekið sig til og drukkið áfengi úr heilum kút, þegar bannl. komu til sögunnar. Það hefur ekki verið ætlunin hjá hv. ræðumanni, að maður legði mikið út af þessu atriði, því að hann greip fram í fyrir öðrum hv. ræðumanni hér við umr. og sagði, að þetta hefði ekki átt við bannlagatímann. Það hefði ekki verið neitt bann, þegar þetta átti sér stað, þótt hann ætlaði að færa þetta sem sönnun gegn bannlögunum og fyrir því, hversu þau væru óhafandi.

Hv. 1. þm. Skagf. kvartaði líka undan því, að ég kallaði hv. flm. þessa frv. unnendur áfengis. Ef það hefur snert hann illa, bið ég hann afsökunar á því. Það er ekki mín sök. En þeir, sem berjast fyrir því, að meira og meira áfengi sé á boðstólum, þeir eru unnendur áfengis. Eða vilja þeir láta kalla sig eitthvað annað? Ég get fallizt á, að það megi kannske kalla hv. 1. þm. Skagf. eitthvað annað, vegna þess að hann sagði í sömu andránni, að hann væri reiðubúinn til að flytja allt áfengi út í hafsauga. En hvers vegna á þá að stofna til þess að hafa mikla fyrirhöfn við að brugga hér áfengt öl, sem hlýtur að kosta eitthvað að búa til, svo og flöskurnar undir það, og flytja það svo með hinu áfenginu öllu út í hafsauga?

Þessi hv. þm. gerði lítið úr því, að það gæti verið vígi fyrir þá menn, sem vilja draga úr áfengisneyzlu þjóðarinnar, þó að nú væri hér bann á bruggun áfengs öls. Það hefur nú verið deilt um þetta hér í hv. d., og það þýðir ekki mikið að hafa orðaskak um það öllu lengur. En ég ætla þó að biðja hv. 2. flm. frv. að íhuga, hverjir muni vera bezt færir um að dæma um það, hvers virði það er, að enn er þó ekki heimilt að brugga hér í landi áfengt öl. Hér hafa komið fram ótal mótmælt frá bindindismönnum gegn þessu frv., m. a. sérstaklega frá konum landsins og þá fyrst og fremst frá mæðrum í þessu landi. Og ég ætla bara að skjóta því til þessa hv. ræðumanns, þó að ég efi ekki, að hann sé góður faðir og vilji börnum sínum hið bezta, hvort hann álíti ekki, að í þessu máli sé óhætt fyrir okkur og í öðrum svipuðum málum, að fara eftir óskum mæðranna. Ég vil spyrja hann, hvort hann þekki ekki, að það eru fyrst og fremst mæðurnar, sem vita, hvað börnunum er fyrir beztu. Ég vil spyrja hann, þó að hann vilji ekki fara eftir óskum manna hér í hv. þd., sem eru móti ölfrv., hvort hann vilji ekki hlusta á það, sem mæðurnar segja um málið. — Undarlegt þykir mér, þegar hv. 2. flm. þessa frv. lýsir yfir, að hann vilji kannske fyrst og fremst vera með því, að áfengt öl sé bruggað í landinu og selt, af þeirri ástæðu, að mér skildist, að börn ættu að ganga yfir öll stig freistinga gegnum eða út í lífið, svo að þau þannig yrðu færust um að standast þær. Hvernig er reynslan? Margir hafa horfið að flöskunni, sem hafa lotið að þeirri freistingu. Margir sjúkdómar eru þannig, að ef menn taka hann einu sinni og hafa yfirstigið hann, þá verða þeir sömu menn fyrir það ónæmari eða ónæmir fyrir þann sjúkdóm á eftir. En það er gagnstætt með áfengið. Eftir því sem menn neyta þess meira, eftir því eru menn veikari fyrir því, þegar það er á boðstólum. Þessi ástæða hv. 2. flm. þessa frv. er því ekki frambærileg. — Vil ég svo ekki lengja þessar umr. meir.