11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

69. mál, veiting prestakalla

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mjög. En þegar ég sá þetta frv., þó að það sé afturganga frá því í fyrra, þá hvarflaði að mér sú hugsun, að það hlytu að liggja meiri eða minni rök fyrir því að gera till. um þá stóru röskun, sem hér er farið fram á að gera á gildandi l. um skipun prestsembætta. — og það rök. sem ekki hefðu legið fyrir í fyrra. — Við höfum nú heyrt hjá hv. 1. flm. frv., 4. þm. Reykv. (GÞG), þau rök, sem hann telur veigamest í þessu efnt. En ég hef ekki séð, að þau séu svo veigamikil að ég, eftir að hafa hlustað á þau, geti fellt mig við þessa breyt. af þeim ástæðum. Mér skilst, að hjá honum séu helztu rökin þau fyrir þessari breyt., þar sem lagt er til að fella úr gildi 60 ára eða a. m. k. 40 ára gamalt kosningafyrirkomulag að taka þurfi valdið úr höndum safnaðanna til þess að kjósa sína sálusorgara. Því að ég tel að það eigi að gera það með þessu frv., þó að sóknarnefndir eigi að fá að gera till. í þessum efnum. Og þetta á að vera sú nýja frjálslynda stefna á þessu sviði. Ég segi nei. Þetta er ekki meira frjálslyndi en það fyrirkomulag, sem er nú um þetta. Hv. 1. flm. vildi mótmæla því, að lýðræði ætti að koma til greina í sambandi við val presta í prestaköll og taldi að lýðræði ætti aðeins að gilda á hinu pólitíska sviði. Ég hef aldrei skilið lýðræði þannig. Þó að lýðræðið sé sjálfsagt á hinu pólitíska sviði, þá á ekki síður að hafa það á öðrum sviðum, þ. e. að fólkið ráði.

En veigamesta ástæðan hjá hv. 1. flm. frv. fyrir málinu virtist mér vera sú að söfnuðirnir hefðu ekki nóg kynni af umsækjendunum áður en kosningar færu fram. En heldur hv. flm. þá, að þessir þrír aðilar, sem eiga að hafa úrskurðarvald í þessum efnum eftir frv., biskup landsins, prófastur og sóknarnefndir, hafi mun betri aðstöðu til þess að dæma um kjósendurna? Því að mér skilst á hv. flm., að umsækjendurnir þurfi alls ekki að birtast þessum aðilum, eða a. m. k. söfnuðunum, öðruvísi en þá, að umsækjandi kannske kemur til sóknarnefnda eða sóknarnefndarmanna og biður þá að fylgja sér. En eins og nú er, þá skilst mér, að það sé yfirleitt svo að prestar og kandídatar, sem sækja um prestsembætti komi til safnaðanna og prédiki á staðnum. Og þeir vitanlega reyna að kynna sig þá söfnuðinum, eftir því sem þeir geta. Þeim er sennilega kappsmál að geta unnið sér fylgi þessara væntanlegu kjósenda. Þetta er allt eðlilegt í raun og veru. Þessi mánaðartími, eða hvað það nú er, sem framboðsfresturinn er, er nægilegur til þess, að safnaðarmeðlimirnir geti gert sér töluverða grein fyrir, hver umsækjandinn sé ákjósanlegastur. Nú eru menn vitanlega mjög oft ekki á eitt sáttir í þessum efnum. En ég hef ekki álitið, að svo ákaflega miklar misfellur hafi átt sér stað með missætti út af slíkum hlutum, að ástæða sé til þess vegna að fara nú að hrapa að því að breyta ákvæðum laga um veitingu prestakalla, sem nú gilda. Því að málið er ekki það undirbúið, því að það hefur ekki verið borið undir álit safnaðanna, — að hægt sé að kalla það annað en að hrapa að breyt. á þessum 1., ef frv. þetta yrði samþ. nú.

Þá sagði hv. 1. flm., að í kosningahitanum, þegar kosnir væru prestar, myndaðist eitur, sem héldist meðal safnaðarmeðlimanna og ylli því, að eilíf úlfúð héldist milli safnaðarmeðlima út af prestskjörinu. Þetta þekki ég ekki. Þó að menn hafi ekki orðið á eitt sáttir um kosningu prests, hafa menn sætt sig við þau úrslit, sem orðið hafa. Og oft hefur presturinn getað jafnað slíkt ósamlyndi, hafi einhver úlfúð skapazt í kosningunum.

Þá er eitt enn, sem hv. 1. flm. færði fram sem rök fyrir frv., — það, að prestar hefðu ekki með þessu fyrirkomulagi, sem er nú, nægilega möguleika til þess að fá að hafa brauðaskipti. Ég held að áreiðanlega sé öllum prestum frjálst að sækja um hvaða prestakall sem auglýst er til umsóknar hér á landi. En þó að við skyldum segja, að einhver gamall prestur hefði litla möguleika með núverandi fyrirkomulagi til þess að hljóta prestakall gagnvart ungum og framgjörnum kandídat eða ungum presti, sem hefði reynzt ötullega í starfi sínu, þá held ég að ekkert sé við því að gera og ekki sé ástæða til þess að reyna að gera við því með lagasetningu. En með þessu frv. á að hjálpa gömlum prestum til þess að fá betri brauð en þeir áður höfðu. Ja, það geta nú verið skiptar skoðanir um það, hvort fara eigi mest eftir embættisaldri um veitingu beztu brauðanna, og hvort prestarnir eigi að fá beztu brauðin rétt fyrir dauðann. Nei, ég vil hafa fyrirkomulagið frjálsara, þannig að það verði eins og það er um val presta, svo að þeir sem geta komið ár sinni fyrir borð meðal safnaðanna á eðlilegan hátt, fái að njóta verðleika sinna. Ég tel mjög varhugavert að hrapa að því að gera þessa breyt.

Því er haldið mjög að okkur hér, að kirkjuráð hafi samþ. þetta frv., sem sé flutt hér með litlum breyt. frá þeirri samþykkt. Mér sýnist nú, að allt kirkjuráðið standi ekki að þessari samþykkt, heldur aðeins þrír menn, og ekki sr. Þorsteinn Briem, sem var ekki við. Og ekki var heldur biskupinn með um þessa samþykkt. Hann boðaði forföll. Og hann hefur skilað séráliti eða áliti sem biskup Íslands. Hefur hann í séráliti þessu mótmælt þessu frv. eða því a. m. k., að það ætti að samþykkjast nú. Ég get skilið það, að hann hafi nokkra sérstöðu í þessu máli, þar sem hann finnur til þeirrar ábyrgðar, sem á honum hvílir í sambandi við það, ef þetta frv. væri gert að l., þar sem hann á að vera einn þeirra aðila, sem á að gera mögulegt að hafa fullt úrskurðarvald um þessi mál. Hann vill hafa það fyrirkomulag, sem orsakar sem minnstan glundroða, og hann vill þóknast fólkinu. Hann hefur það á tilfinningunni, að þetta fyrirkomulag, sem í frv. er gert ráð fyrir, yrði ekki vel þegið meðal safnaða landsins, þó að menn finni sumir hjá sér köllun til þess að fara 60 ár aftur í tímann til þess að taka upp fyrirkomulag, sem var fyrir meira en 60 árum síðan, og með því strika út allar lýðræðisreglur í sambandi við val presta í prestaköll landsins.