11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

69. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja nokkur orð til andsvara. — Mér þótti vænt um, að andstaða hv. þm. Borgf. (PO) nú var miklu minni en andstaða hans í fyrra gegn því frv., sem við fluttum þá hér um sama efni. Vona ég, að það eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til þeirrar breyt., sem við höfum gert á frv., sem hér liggur fyrir, fyrir tilmæli kirkjuráðs, frá því sem gert var ráð fyrir í frv. í fyrra. Mér virtist þessi hv. þm. vera mjög eindreginn andstæðingur frv. í fyrra. og hann talaði mjög einarðlega á móti því þá. Hins vegar fannst mér andstaða hans ekki sérlega sterk nú. Höfuðröksemdir hans gegn frv. í fyrra voru þær, að honum virtist það vera mjög andstætt lýðræði. Nú virtist hann ekki gera mikið úr því, heldur var höfuðröksemd hans sú, að mér fannst að hann teldi óeðlilegt að taka af söfnuðunum réttinn til þess að kjósa sér presta, því að í söfnuðunum gæti verið um mismunandi trúarskoðanir að ræða og þess vegna taldi hann, að söfnuðirnir ættu að geta valið sér presta eftir trúarskoðunum sínum. Ég skal ekki bera á móti því, að eitthvað kunni að vera til í þessu, þ. e. a. s. ef — sem mun vera innan kirkjunnar — talsverður ágreiningur er um trúmálaskoðanir. Og ef svo er, þá getur verið óeðlilegt, að söfnuðir fái prest, sem hefur trúarskoðanir, sem ólíkar eru þeim, sem yfirgnæfandi meiri hluti safnaðarmeðlimanna aðhyllist. En ég held, að þessi röksemd vegi ekki upp á móti þeim miklu göllum, sem á prestskosningafyrirkomulaginu eru að öðru leyti. Og í raun og veru er ekki víst, að trúarskoðanir hafi mikil áhrif á niðurstöður prestskosninga. Og ef taka á fullt tillit til þessa atriðis, þá er ekki nóg að fá söfnuðunum vald til þess aðeins að kjósa presta sína, heldur eiga þá söfnuðirnir að hafa vald til þess að víkja prestum úr embætti, ef trúarskoðanir þeirra eru ekki í samræmi við trúarskoðanir meiri hluta safnaðanna. Og nú geta ekki aðeins trúarskoðanir prestanna breytzt, heldur safnaðanna líka. Og hvernig vill þá hv. þm. Borgf. hafa það, ef skoðanir safnaðanna breytast? Vill hv. þm. Borgf. halda fram þeirri skoðun, að söfnuður eigi að fá að reka prest úr embætti? Ég teldi hann sjálfum sér samkvæman í sínum málflutningi, ef hann legði til, að söfnuðir gætu afhrópað prest, ef þeim geðjaðist ekki trúarskoðanir hans. En slíkt er ekki hægt með núverandi fyrirkomulagi. En meðan hv. þm. Borgf. gerist ekki talsmaður þessa, þá finnst mér sú röksemd hans fyrir ágæti prestskosningafyrirkomulagsins, sem hann gerði að aðalatriði í ræðu sinni, ekki vera þung á metunum. Ég tel, að áhrif kirkjunnar á veitingu þessara embætta séu nægilega mikil með þeim umbúnaði, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þ. e. ef biskup, héraðsprófastur og meiri hluti viðkomandi sóknarnefnda verða sammála um val prests, þá skuli það ráða veitinga embættisins. Að sumu leyti er vald kirkjunnar meira eftir ákvæðum þessa frv. en er eftir gildandi l. Nú þarf helmingur atkvæðisbærra manna að mæta á kjörfundi við prestskosningar, og af greiddum atkv. þarf einhver einn umsækjandanna að fá meiri hluta greiddra atkv. til þess að veitingarvaldið sé bundið af atkvgr. En áhuginn og eindrægnin í prestskosningum hefur ekki verið meiri en það, að veitingarvaldið hefur sjaldan verið bundið af úrslitum prestskosninga. Svo að þetta vald, sem að vissu marki hefur verið í höndum safnaðanna í 40 ár, hefur ekki verið svo mikið sem nú er af látið. Vald kirkjunnar í þessum efnum hefur því ekki verið meira en svo, að með miklum rökum má segja, að vald hennar mundi með ákvæðum frv., ef samþ. yrði, verða aukið frá því, sem það hefur verið, þó að formið sé ekki kosningar, heldur samhljóða meðmæli þýðingarmikilla aðila.

Um ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl) hef ég það eitt að segja, að mér virtist hún vera fyrst og fremst rökstuðningur fyrir því, að aðskilja bæri ríki og kirkju, en ekki gegn þeirri sérstöku tilhögun um veitingu prestakalla, sem hér er stungið upp á. Það skal ég ekki ræða nú, hvort eðlilegt sé að aðskilja ríki og kirkju. Ef hér væri algerlega frjáls kirkja, þ. e. ef sá skilningur hv. 2. þm. Reykv. væri réttur, að þjóðkirkjan væri frjáls félagssamtök tiltekinna borgara, þá dettur mér ekki í hug, að ríkisvaldið ætti að hafa nokkur áhrif á mál hennar, ekki fremur en ríkisvaldið nú skiptir sér af trúarfélögum óháðum þjóðkirkjunni. En þjóðkirkjan er alls ekki frjáls samtök vissra borgara, heldur ríkiskirkja samkvæmt stjskr. Og ríkið stendur straum af öllum kostnaði kirkjunnar. Þá er eðlilegt, að ríkisvaldið hafi áhrif á skipun starfsmanna kirkjunnar, eins og annarra embættismanna ríkisvaldsins, því að það eru prestarnir vissulega. Ég held, að það sé því misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv., að hér sé með þessu frv. stefnt að því, að ríkið reyni að sölsa undir sig vald, sem því ekki ber.

Um þá skoðun hv. 2. þm. Reykv., að í raun og veru þyrfti að taka upp kosningar á fleiri starfsmönnum ríkisins, er ég honum ekki sammála. Ég hygg að af því mundi ekki gott hljótast. Hann vitnaði í það, að kirkjan hefði háð langa frelsisbaráttu gegn ríkisvaldinu. Að vísu er langt síðan um slíka baráttu var að ræða. Og þessari baráttu hefur á Vesturlöndum og sérstaklega á Norðurlöndum lyktað þannig, að kirkjan er talin ríkiskirkja og kosningar á prestum — í þeim löndum þar sem þær hafa verið teknar upp — hafa verið afnumdar aftur. Og á Norðurlöndum eru prestar hvergi kosnir á þann hátt sem gert er hér á landi.

Hv. þm. Ak. (SEH) var róttækastur af þeim þremur hv. þm., sem andmæltu þessu frv., og hann hélt nokkuð á lofti sömu rökunum og hv. þm. Borgf. (PO) í fyrra, talaði um að það væri ólýðræðislegt að afnema það fyrirkomulag að kjósa presta. Ég tel mig hafa andmælt þessari skoðun hv. andmælenda þessa frv. nægilega í frumræðu minni og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En ég hef aldrei getað skilið, að ef hv. þm. Ak. og aðrir, sem slíkar skoðanir hafa í raun og veru telja kosningu embættismanna nauðsynlegt lýðræðiseinkenni hvers vegna þeir vilja þá ekki láta kjósa fleiri embættismenn (SEH: Það hefur komið til tals). Þessi hv. þm. segir, að frjálst framboð og heilbrigð samkeppni þurfi að vera í sambandi við val þessara embættismanna, sem hér er um að ræða. En vill hann þá ekki líka láta kjósa dýralækna? Ég get ekki tekið þessar röksemdir hv. þm. Ak. gegn þessu frv. hátíðlega, fyrr en hann stingur upp á því að hafa sama fyrirkomulag um veitingu þeirra embætta, sem honum standa næst og honum eru kunnugust. Ég mundi ræða þetta mál miklu rækilegar við þennan hv. þm., ef ég byggist við, að hér fylgdi verulegur hugur máli. En mér finnst það varla geta verið, þar sem þær skoðanir, sem þessi hv. þm. setur fram í sambandi við ákvæði þessa frv., eru í ósamræmi við skoðanir hans um sama efni á öðrum sviðum. Sem sagt, ef hv. andmælendur þessa frv. taka upp almenna baráttu til þess að fá því komið á. að aðrir embættismenn, svo sem læknar og dýralæknar, dómarar o. fl. embættismenn, verði kosnir, þá sýna þeir, að þeir fylgja í alvöru þessari skoðun, sem þeir halda fram að því er val presta snertir. En meðan þeir gera það ekki, sé ég ekki ástæðu til að taka röksemdir þeirra um þetta atriði í sambandi við frv. sérstaklega hátíðlega.

Um það, að hafi verið einróma vilji að taka upp prestskosningar 1907 og að barizt hafi verið fyrir því fyrir 1886, að valdið til að veita prestaköll væri tekið úr þeim höndum, sem það þar áður var í, gegnir allt öðru máli. Því að áður fyrr var það í höndum danskra stjórnarvalda. Það var þá barátta gegn erlendum yfirráðum að ná þessum embættaveitingum í hendur landsmanna sjálfra, sem þar kom til greina, til þess að ná í hendur landsmanna veitingu þessara embætta, sem þá voru talin einhver þýðingarmestu embættin, sem Íslendingar gegndu. Maður sér greinilega, ef maður les röksemdir þær, sem fluttar voru þá á Alþ. og í blöðum um þetta mál, að þessi barátta var liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. En nú horfir málið öðruvísi við.

Ég sé ekki, að í því sem sagt hefur verið, hafi komið fram nokkur rök gegn því, sem ég sagði í framsöguræðu minni. Því hefur ekki verið mótmælt, að það sé óeðlilegt og óheppilegt fyrir prestastéttina að þurfa í hvert skipti, sem prestsembætti losnar, að stofna til innbyrðis baráttu og þurfa að standa fyrir persónulegum áróðri fyrir sjálfum sér í sambandi við kosningar gagnvart þeim söfnuðum, sem hlutaðeigandi prestur í hvert skipti ætlar að þjóna, ef hann nær kosningu. Og því hefur ekki verið mótmælti að prestskosningar hafa leitt til margs konar ýfinga og leiðinda. sem hafa staðið starfi presta fyrir þrifum og spillt eðlilegu og heilbrigðu sambandi milli prests og safnaðar. Og því hefur ekki heldur verið andmælt, að það sé rétt, að vegna þess að söfnuður þurfi að ganga til kosninga með tiltölulega lítil kynni af prestum, þá sé hann í raun og veru ekki eins fær um að dæma um, hver hæfastur sé, eins og látið er í veðri vaka. Þau persónukynni, sem söfnuður getur haft af presti fyrir kosningar. geta aldrei verið mikil, vegna þess að presturinn sýnir sig aðeins skamman tíma áður en kosningar fara fram, og þá dæma safnaðarmeðlimirnir um prestinn út frá forsendum, sem engan veginn eru eins sterkar og æskilegt væri.