17.11.1947
Neðri deild: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

78. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera efni þessa frv. að sérstöku umræðuefni á þessu stigi málsins. Ég vil benda á það, að þegar 1. um almannatryggingar voru sett árið 1946, mun það hafa verið ofarlega í hugum manna, að það þyrfti að gera breyt. á þeim, þar sem mörg og merkileg nýmæli voru í þessum l. Það er þess vegna gert ráð fyrir því í l. um almannatryggingar, að innan viss tíma verði þau endurskoðuð, en sá tími er ekki kominn enn þá. Það þótti alveg sjálfsagt, að nokkur reynsla skapaðist, áður en rokið væri í það, tiltölulega óundirbúið, að gera breyt. á því skipulagi, sem gert er með almannatryggingunum. Hins vegar er það rétt, að komið hafa óskir um breyt., sérstaklega úr sveitum landsins, varðandi þau ákvæði, sem 112. gr. l. tekur til. Félmn. fannst því rétt fyrir nokkru síðan að skrifa Tryggingastofnun ríkisins bréf, þar sem bent var á, að þessar raddir hefðu komið fram um breyt. á 1. og þá sérstaklega á 112. gr. þeirra, og var tryggingastofnunin beðin að leggja til fyrir sitt leyti, hvaða breyt. þyrfti að gera eða hvort ástæða væri talin til að gera breyt. Mér er kunnugt um, að tryggingaráð hefur nú um nokkurt skeið haft þetta bréf til athugunar og er mér einnig kunnugt um, að allflestir eru á þeirri skoðun, að rétt sé að breyta 112. gr. 1., en enn þá hefur ekki náðst samkomulag innan tryggingaráðs um það, hvernig þær breyt. ættu að vera.

Ég vildi þess vegna æskja þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, hafi náið samstarf við tryggingaráð og tryggingastofnunina yfirleitt.

Ég vildi líka taka það fram, að ég tel hæpið að breyta löggjöfinni nú, þar sem enn þá er ekki komin fullkomin reynsla, sem gefið geti til kynna, hverju þarf að breyta. Þegar reynslan er komin, geng ég út frá því gefnu, að breyt. verði gerðar þar á. Ég fyrir mitt leyti vildi leggja til, að breyt. yrðu gerðar á 112. gr. l., og vildi, að það næðist samkomulag við tryggingaráð um, að það legði eitthvað ákveðið til málanna.

Um önnur atriði málsins sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, en vænti þess, að það verði vandlega athugað í n. og af forstjóra tryggingastofnunarinnar og tryggingaráði. Ég vil ekki rasa um ráð fram um breyt. á þessum 1. a. m. k. ekki á þessu stigi málsins, en hins vegar finnst mér sjálfsagt að taka til athugunar allar endurbótatill. sem fram koma, ef skilyrði kynnu að vera til samkomulags, þannig að breyt., sem gerðar yrðu á löggjöfinni, yrðu til þess, að hún næði betur tilgangi sínum.

Ég vil ekki á þessu stigi fjölyrða um aðrar breyt. á löggjöfinni, en vil mælast til þess að þetta mál fái sem vandlegasta meðferð og að það verði ýtarlega athugað, áður en nokkrar stórfelldar breyt. verða gerðar á þessum lögum.