18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Nokkur undanfarin ár hefur sú regla verið höfð að innheimta 5 aura viðbótargjald af benzínskatti og skipta því þannig, að 3/5 hlutar þessa gjalds færu til byggingar þjóðvega, en 2/5 hlutar þess legðust í svo nefndan brúasjóð, sem varið skyldi til þess að reisa þær brýr, sem mikils fjármagns þurfa og ekki þykir fært að veita fé til á fjárl. hvers árs. Fyrir fé úr slíkum sjóði, brúasjóði hefur verið reist ein brú, á Jökulsá á Fjöllum, sem nú er fullgerð og hefur verið opnuð til umferðar fyrir nokkru síðan. Þegar því mannvirki er lokið, mun láta nærri, að fé því, sem safnazt hefur í sjóðinn sé að fullu ráðstafað. Með lagabreyt. sem gerð var og snertir þetta efni, var líka sú breyt. ákveðin að hverfa frá því að leggja þetta sérstaka gjald í brúasjóð, heldur skyldi það renna til ríkissjóðs beint til ráðstöfunar Alþ. hverju sinni. Samkv. þeim l., sem eru nr. 53 frá 7. maí 1946, þá er einnig gert ráð fyrir því, að þessi viðbótarskattur skuli innheimtur til ársloka 1947. Lagaheimild sú, sem gildir um þetta atriði, fellur því úr gildi um næstu áramót. — Með þessu frv., sem ég flyt hér ásamt hv. báðum þm. S-M., er lagt til í fyrsta lagi, að áfram verði haldið að innheimta þennan hluta benzínskattsins frá og með 1. janúar 1948 á sama hátt og verið hefur að undanförnu. Hér er ekki um að ræða neina sérstaka hækkun á þessu gjaldi, heldur að haldið verði áfram innheimtunni í þessu sama horfi og áður hefur verið.

Í öðru lagi leggjum við til, að þessu gjaldi verði ráðstafað á sama hátt og gert var um mörg undanfarin ár, að 2/5 hlutar þess leggist í brúasjóð, sem varið sé til þess að reisa stórar brýr hér á landi, sem erfiðleikar eru á að fá reistar fyrir framlag, sem veitt er á fjárl. hverju sinni. — Og loks mælum við svo fyrir í þessu frv., að þeim tekjum, sem fást vegna þessara ráðstafana, skuli fyrst um sinn varið til þess að reisa brú á Jökulsá í Lóni.

Það hefur komið fram áður og verið nokkuð um það rætt hér á hæstv. Alþ., hvaða nauðsyn beri til þess að sem fyrst verði hafizt handa um að reisa brú á þetta stórfljót. Það er aðaltorfæra á þjóðveginum milli Austurlands og Hornafjarðar, en eins og kunnugt er, þurfa þau héruð að hafa mörg og mikil samskipti bæði vegna legu sinnar og líka vegna atvinnurekstrar, sem stundaður er á þessum slóðum. Til þess að reyna að afla fjármuna til þessara framkvæmda leggjum við áherzlu á, að þetta frv. nái samþykki þingsins og að þar með verði séð fyrir fjárframlögum til þessa mannvirkis. — Á það má benda, að brúargerð á Jökulsá í Lóni er nokkuð sérstæð, vegna þess að mikið af kostnaði þeim, sem áætlað er, að verkið kosti, fer til þess að gera þar fyrirhleðslu, svo að ekki þarf aðkeypt efni nema sem nemur nokkrum hluta kostnaðarins. Þetta verk er því hægt að vinna að miklu leyti. þótt skortur yrði á gjaldeyri og efnisinnflutningi, og hlýtur það að hafa áhrif á. að sjálfsagt sé að taka þessa framkvæmd í fyrstu röð. þegar athugað er um brúargerðir fyrir fé úr þessum sjóði.

Ég tel ekki þörf á að fylgja þessu frv. úr hlaði með öllu fleiri orðum, en tel sjálfsagt, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til n., og er mér ljóst, að til álita getur komið, hvort það á heldur að fá athugun hjá fjhn. eða samgmn. Ég leyfi mér þó að stinga upp á því, að þessu frv. verði vísað til hv. samgmn., enda er það gert með tilliti til þess, að sú n. hefur fjallað um þetta mál í svipuðu formi og það er nú flutt á undanförnum þingum, og enn fremur með tilliti til þess, að hér er ekki farið fram á neina nýja skatta eða fjárframlög úr ríkissjóði, heldur ráðstöfun á því fé, sem innheimt er samkv. l., sem enn gilda. Að sjálfsögðu geri ég það ekki að kappsmáli, til hvorrar þessara n. málið fer. En ég geri þó uppástungu um samgmn.