18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú ekki ófyrirsynju, þótt um það sé rætt að koma fram þeim samgöngubótum. sem brýr eru, því að brýr eru þær samgöngubætur víðs vegar á landinu, sem einna mest kapp er lagt á að fá, sem eðlilegt er, og sannleikurinn er sá að það eru m. a. þær framkvæmdir, sem mjög hefur skort á á undanförnum árum, að hafi verið sinnt svo sem þörfin hefur kallað að.

Mér þykir þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 107, heldur undarlegt frv., og mundi ég nú ekki mæla með því, að það næði fram að ganga. Það er undarlegt af því, að þar er ekki farið fram á neina hækkun á tekjum ríkissjóðs til þess að verja á sérstakan hátt, heldur skilst mér að með því sé farið fram á að taka nokkuð af núverandi tekjum ríkissjóðs til þess að verja til þeirra mála, sem hér er um að ræða, og taka þarna eina sérstaka brú fram yfir allar aðrar. Ég er þannig sinnaður, að ég hef talið heldur óviðfelldið og ekki til neins gagns að vera að skipta ríkissjóði og segja: „Þetta skal láta í þennan vasa og þetta í hinn umfram það, sem gert er á hverjum tíma með ákvæðum fjárl.“ Þess vegna ætti þetta frv. því aðeins rétt á sér frá mínu sjónarmiði, að því yrði snúið í það horf að hækka þau gjöld, sem á eru lögð með benzínskattinum, frá því sem nú er, og verja þeirri hækkun til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða.

Varðandi þær brýr, sem hér hafa verið nefndar og hæstv. samgmrh. veik að, er það að segja að Alþ. hefur þegar skorið úr því með atkvgr. og fjárveitingu, hvernig hagað skuli framkvæmdum í byggingu þeirra. Því að á Alþ. 1946 var samþ. fjárveiting til Blöndubrúarinnar með yfir 30 atkv. En það hefur ekki verið ákveðin af Alþ. fjárveiting til hinna brúanna, sem um hefur verið rætt, þó að það séu mjög nauðsynlegar brýr og ég veit það af afspurn, að brúin á Jökulsá í Lóni er einnig mjög nauðsynleg. En hvernig sem því er varið, þá verður það að vera á valdi samgöngumálastjórnarinnar, hvernig með það er farið að byggja það, sem hægt er að byggja af brúm á landinu, og þá bætir ekki, þó að till. sé lögð fram um að skipta tekjum, sem fyrir eru, og færa þær frá þessu mannvirkinu til hins.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla til athugunar fyrir þá n., sem þetta mál fer vafalaust til.