18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Þær aths., sem fram hafa komið hjá þeim ræðumönnum, sem talað hafa síðan ég mælti með þessu frv., eru á þann veg, að ekki er ástæða fyrir mig til að tala langt mál til viðbótar við það, sem ég þegar hef sagt.

Hæstv. samgmrh. tók undir það eða a. m. k. andmælti því ekki, að frv. það, sem hér er um að ræða, ætti rétt á sér, þ.e.a.s. að verja nokkrum tekjum árlega til þess að leggja fram sérstaklega fé til brúagerðar, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þær aths., sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) lét falla um það atriði, voru ekki veigamiklar. Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) fór nokkrum orðum um það, hvað honum þætti óeðlilegt að viðhafa þessa aðferð, að taka gjald, sem áður hefur farið til ríkissjóðs og leggja í sérstakan sjóð og ákveða fyrir fram, að því fé skuli verja til sérstakra framkvæmda. Ég verð að benda honum og öðrum hv. þdm. á, að hér er raunverulega ekki um sérstaka nýjung að ræða, heldur eingöngu gert ráð fyrir að halda þeirri reglu, sem haldið hefur verið uppi um margra ára skeið í þessu efni. Ég vil enn fremur benda hv. þm. A-Húnv. á það, að það er fyrst og fremst lagt til að fella ekki niður þau gjöld, sem nú renna í ríkissjóð, en samkvæmt l., sem um þetta gilda, eiga að falla niður um næstu áramót. Frv. er því öðrum þræði frv. um að viðhalda þeim tekjum, sem í ríkissjóð renna nú. Mér er vel ljóst, að þegar rætt er um að reisa brýr, þá getur verið álitamál, hvaða brú á að sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum. Það er eðlilegt, þegar um það er rætt á Alþingi, að þá komi fram nokkuð mismunandi sjónarmið, sem öðrum þræði markast af afstöðu hvers þm. um sig til þeirra héraða, sem þeir eru fulltrúar fyrir:

Hæstv. samgmrh. drap á það, að sér þætti eðlilegt, að a.m.k. væru tvær brýr settar jafnofarlega og brúin á Jökulsá eða jafnvel ofar. Það er endurbygging á Þjórsárbrúnni, brú á Hvítá í Árnessýslu nálægt Iðu, og enn fremur impraði hann á, að til álita kæmi að byggja brú á Blöndu í Húnavatnssýslu á undan Jökulsá í Lóni. Mér kom þessi aths. ekki á óvart. Þetta mál hefur verið lagt fyrir þingið áður. Því hefur verið vísað til vegamálastjóra til umsagnar, og í álitsgerð, sem hann hefur sent þinginu áður um þetta mál, hefur hann dregið fram, að eðlilegt væri, að brú á Þjórsá ætti að ganga fyrir öðrum stórframkvæmdum í þessu efni og þar næst Hvítá, áður en Jökulsá í Lóni kæmi til greina. Þau ummæli sem hæstv. samgmrh. lét hér falla og aðrir hv. þm. tóku undir, eru því að öllu leyti í samræmi við það, sem áður hefur komið fram um þetta mál.

En mér finnst, að í ummælum þessara hv. þm. gæti nokkurs misskilnings, sem ég vil leyfa mér að benda á. Mér er vel ljóst, að það er mikið nauðsynjamál að endurbyggja brúna á Þjórsá. Hún er á höfuðsamgönguleið mjög fjölfarinni, og að dómi kunnugra manna er brúin mjög viðsjál, svo að ekki sé meira sagt. En ég vil benda á að í fjárl. þessa árs er heimild til að leggja fram 700 þús. kr. framlag til að reisa þessa brú. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. hafi notað þessa heimild í fjárl. eða a. m. k. ætli sér að nota hana, og í fjárlfrv.l sem nú liggur fyrir þinginu, er einnig heimild um 700 þús. kr. framlag til þessarar sömu brúar. Það er því auðséð, að hæstv. ríkisstj. hefur þegar markað þá stefnu um þetta mál að reisa brú á Þjórsá fyrir fé, sem lagt er fram í fjárl., annaðhvort beint með fjárveitingu eða þá sem heimild eða þá í lánsformi, ef ekki nægir annað. Það er því auðséð, að fylgi hæstv. stj. þessari stefnu, sem hún hefur þegar markað um þá framkvæmd, þá þarf það ekki að rekast neitt á þetta frv., heldur tel ég það sjálfsagt og eðlilegt, að fram verði haldið á þeirri braut, sem lagt hefur verið út á, að byggja brú á Þjórsá fyrir það fé, sem þannig er aflað, enda hefur ekki vakað fyrir okkur flm. að skjóta þessari brú fram fyrir þá framkvæmd eða ríða í bága við hana á nokkurn hátt.

Þá kemur næst brúin á Hvítá hjá Iðu í Árnessýslu, áður en brúin á Jökulsá í Lóni yrði byggð. Ég verð að segja það, að frá mínu sjónarmiði er það miklu meira álitamál en að endurbyggja brúna á Þjórsá. Hv. 1. þm. Árn. benti á það réttilega, að gerð hefði verið samþykkt um það, að brú á Hvítá yrði reist á árinu 1948. Þetta er rétt og satt, en þar með er ekki allt málið fullkomlega skýrt. Ég hef í höndum þessa þál., sem hv. 1. þm. Árn. vitnaði í. Hún var samþ. hér á þingi 27, apríl. þingsályktun um brúargerð á Hvítá hjá Iðu. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja undirbúning til brúargerðar á Hvítá hjá Iðu í Biskupstungnahreppi. Skal brúin reist eigi síðar en svo, að hún verði fullgerð á árinu 1948.

Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.“

Það er sem sé samþykkt í Sþ. fyrir því, að kostnaðurinn við þessa brúargerð skuli greiddur úr ríkissjóði, þ.e.a.s. með fjárveitingum úr ríkissjóði, en það þýðir það, að taka skuli upp fjárveitingu til þess í fjárl. Í 1–2 ár. Ég vil á engan hátt hagga við því að þessi samþykkt verði haldin, en ég tel, að henni sé því aðeins fylgt, að fjárveiting komi til í fjárl. beint til þessarar framkvæmdar. Frv. það, sem hér liggur fyrir, haggar því ekki á minnsta hátt við þessari samþykkt. Það er eingöngu um það að verja nokkrum hluta benzínskattsins til þess að mynda sérstakan sjóð, svonefndan brúasjóð, sem geymdur sé um nokkur missiri eða nokkur ár, en síðan sé varið til þeirra framkvæmda, sem frv., mælir fyrir um. Nú liggur það fyrir, að byrjunarframlög í þennan sjóð, þó að frv. yrði nú að l., gætu ekki komið fram fyrr en á næsta ári, og á því ári mundi ekki fást nægilega mikið fé til að byggja eina stórbrú fyrir. Þyrfti því að draga saman framlög nokkurra ára til þess að reisa fyrir eina stórbrú. Frv. gerir ráð fyrir, þegar þessi undirbúningur hefur átt sér stað og búið er að draga saman fé til framkvæmdanna á þennan hátt um eins eða fleiri ára skeið, að þá komi að því að reisa brú á Jökulsá í Lóni fyrir það fé. En ef fylgt er þeirri samþykkt, sem Alþ. hefur gert um brú á Hvítá, og þeirri stefnu. sem stj. hefur fylgt um endurbyggingu á brú á Þjórsá, þá verða þær brýr sennilega báðar komnar upp, þegar nægilegt fé er komið í brúasjóð til að byggja eina stórbrú til. Það hlýtur að liggja hverjum þm. í augum uppl. ef hann vill athuga frv. og gerir sér grein fyrir málinu. Þess vegna verð ég að álita, að þær aths., sem fram hafa komið við þetta mál, séu byggðar á nokkrum misskilningi. Ég vildi leiðrétta hann og benda á, að með þessu frv. er ekki stefnt að því að fara í bága við þá samþykkt, sem áður hefur verið gerð um brú á Þjórsá eða Hvítá hjá Iðu, að þær verði gerðar jafnvel fyrr en brú á Jökulsá í Lóni.

Um brú á Blöndu gegnir nokkuð öðru máli. Ég veit ekki betur en Blanda sé brúuð og nú sé stefnt að því að fá aðra brú á sama vatnsfall á öðrum stað. Ég dreg ekki í efa, að það sé nauðsynjamál út af fyrir sig, en ég tel þó, að það sé mjög vafasöm afstaða hjá þinginu að láta reisa fleiri en eina stórbrú yfir sama vatnsfallið, áður en tengd eru saman stór héruð með brú yfir illfær vatnsföll, þar sem mikilla samskipta er þörf vegna atvinnurekstrar og allrar afstöðu. Auk þess vil ég benda á, að það hefur verið tekin upp sú stefna að leggja fram fé í fjárl. til að byggja þessa brú á Blöndu. Ég geri ráð fyrir, að það verði haldið áfram á þeirri braut að safna fé til þeirrar brúar og á þann hátt fá nægilegt fé til hennar smám saman, og þá þarf ekki að fara í bága við það frv., sem hér liggur fyrir.

Að öllu þessu athuguðu vænti ég þess, að hv. þm. líti með skilningi og velvilja á þetta mál, afgreiði það nú til 2. umr. og n. og síðan fát það góða afgreiðslu hjá þeirri n., sem um málið fjallar.