24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Flm. (Pétur Ottesen) :

Með herpinótaveiðum þeim, sem hófust hér í Faxaflóa á s. l. hausti, má segja, að hæfist eiginlega nýtt tímabil í atvinnusögu útvegsins hér á landi. Þessi stórfenglegi atvinnurekstur, síldveiðin hefur allt til þess tíma verið hjá okkur bundinn við viss svæði í landinu, sem eru Norðurland og Norðausturland. Enda hafa allar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til hagnýtingar á þessum afla, verið miðaðar við þessi svæði og framkvæmdum til þess að hagnýta hann komið upp á þeim svæðum. Nú hafa herpinótaveiðarnar verið hafnar á slóðum hér í Faxaflóa og veiðin nú meiri í Hvalfirði heldur en í Kollafirði á síðasta hausti. Og það, sem af er þessu veiðitímabili, hefur reynslan sýnt, að síldarmagnið er miklu meira nú heldur en vart varð við á síðasta hausti. Það er þegar komið mikið upp á land af síld nú á þessu hausti úr Hvalfirði, og ekkert sem bendir til, að neitt dragi úr veiðunum vegna síldarmagnsins í sjónum. Það sem hamlað hefur veiðunum nú um nokkurra daga bil, eru þeir norðanstormar, sem hér hafa geisað, sem er mjög óhentug vindstaða til þess að hagnýta veiði í Hvalfirði. Reynsla síðustu vikna bendir meira að segja til þess, að ný síldarganga hafi komið á Kollafirði, því að stærð síldarinnar á þessu svæði var þannig háttað, að sýnt var að hér vært um nýja göngu að ræða, því að stærð síldarinnar var nokkuð önnur heldur en síldarinnar, sem veiðzt hefur í Hvalfirði. Þetta síldarmagn. sem er í Hvalfirði, er gífurlega mikið, eftir því sem marka má af þeim tækjum, sem menn hafa nú, sem eru dýptarmælarnir, sem sýna bezt síldartorfurnar og hvar þær eru í dýpinu, sem er mjög mismunandi mikið í Hvalfirði, miðað við miðsvæði fjarðarins frá 18 föðmum upp í 50–60 faðma dýpi. Þessi tæki sýna alveg, hvar síldin er, hvort hún er ofarlega eða neðarlega í sjónum, og sýna auk þess stærð torfanna og þykkt þeirra. Og það, sem þessi tæki hafa leitt í ljós er, að síldarmagnið sé þarna svo gífurlega mikið í sjónum, að menn hafa hvergi hér við land haft hugmynd um slíkt síldarmagn eins og nú virðist vera í Hvalfirði. Það má þess vegna búast við, að þessar síldveiðar verði viðvarandi hér eitthvað áfram nú að þessu sinni. Reynslan frá síðasta vetri sýndi það, að þá voru þessar veiðar í Kollafirði stundaðar með nokkrum árangri allt fram í marzmánuð, en eftir þann tíma virtist síldin vera horfin af þessum miðum.

Það leiðir af sjálfu sér, að þar sem svo miklir erfiðleikar eru á að hagnýta þá síld, sem veiðist á þessum miðum, þá má ekki við svo búið standa. Eins og bent er á í grg. þessa frv., sem ég hef leyft mér að bera hér fram til úrlausnar þessu máli, þá hefur það verið eina ráðið, sem gripið hefur verið til, til þess að hagnýta þetta síldarmagn, að nota lýsis- og fiskimjölsverksmiðjuna á Akranesi. Hún var tekin til nota í þessu skyni, strax og þessi veiði hófst, en hún afkastaði ekki nema svo litlu, að það var ekki nema eins og dropi í hafinu miðað við þá miklu þörf, sem fyrir hendi er um að breyta þessum afla í verðmæta vöru. Afköst þessarar verksmiðju eru um 800 mál á sólarhring. Svo er það með þessa verksmiðju — og a. m. k. þrjár hliðstæðar verksmiðjur í viðbót, sem verið er að reisa hér við sunnanverðan Faxaflóa og í Hafnarfirði — að aðalætlunarverk þessara verksmiðja er að vinna úr þorski, þ. e. bræða lifrina og hagnýta þann beinaúrgang, sem til fellur í sambandi við þorskveiðarnar. Þessi tæki eru þó þannig, að það er líka hægt að nota þau til þess að vinna framleiðsluvöru úr síldinni, eins og reynslan af Akranesi sýnir. En það liggur ekki nein úrlausn á þessu máli, um hagnýtingu síldaraflans í Hvalfirði og Kollafirði í því, þó að þannig sé háttað um þessar verksmiðjur þann stutta tíma af veiðitímabilinu, sem hér er um að ræða, því að strax úr nýári verða þessar verksmiðjur teknar til nota í sambandi við þorskveiðar, til lýsisbræðslu og til þess að vinna úr úrgangi fisksins, þannig að það er ekki hægt, þegar sá tími er kominn, að nota þær til síldarbræðslu. Til þess eru ekki í sambandi við þær verksmiðjur heldur nein þau löndunartæki, sem nauðsynlegt er að hafa til þess að flýta fyrir uppskipun síldarinnar. Það er þess vegna þannig, eins og nú er, og mundi einnig verða, þó að þessum verksmiðjum fjölgaði, að aðalúrræðið til þess að hagnýta síldveiðina við Faxaflóa er og mundi verða það að flytja síldina til þeirra verksmiðja á Norðurlandi, sem reistar hafa verið í þessu skyni. Og reynslan af þeim síldarflutningum í fyrra og í vetur líka sýnir, að það er mesta neyðarúrræði að þurfa þannig að flytja síldina norður, og stafar það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi verður flutningurinn á síldinni ákaflega dýr, og í öðru lagi er ekki hægt að hafa tiltækan þann skipastól við þessa flutninga, að ekki verði alltaf meiri og minni tafir við að losa veiðiskipin og bíða eftir því að geta losnað við aflafenginn. — Það leiðir því af sjálfu sér, að hér verður að leita úrræða til hagnýtingar á þessum veiðifeng með sama hætti og gert hefur verið á Norðurlandi, að koma hér syðra upp síldarbræðsluverksmiðjum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að hér við Faxaflóa, á Akranesi, verði reist 5 þús. mála síldarverksmiðja. Stærð þessarar verksmiðju er að nokkru leyti miðuð við það, að mér var kunnugt um, þegar ég flutti þetta frv., að það liggja nú norður á Siglufirði síldarbræðsluvélar, sem eru byggðar fyrir þessi afköst. Og þó að ég geti náttúrlega ekki um það sagt, þar sem hef ekki átt um það tal við eiganda þessara véla, hvort möguleikar væru á að fá þessar vélar til þessara nota í síldarverksmiðju. sem komið væri upp hér við Faxaflóa, þá hef ég þó vikið að þessum möguleika í grg. þessa frv., enda er vitað, að hagnýting þessara véla er einasta leiðin til þess, að hægt væri að koma upp slíkri verksmiðju hér syðra fyrir næsta haust, því að mér er sagt af fróðum mönnum á þessu sviði, að það mundi af hálfu þeirra, sem búa til þessar vélar erlendis, hvort sem er í Ameríku eða á Norðurlöndum, verða eins og sakir standa nú, krafizt lengri afgreiðslutíma heldur en svo, að hugsanlegt væri, að vélar sem pantaðar væru frá þessum löndum nú, gætu orðið teknar til nota hér á næsta hausti. Og svo kemur náttúrlega hér einnig til greina gjaldeyrisspursmál í sambandi við kaup slíkra véla frá útlöndum. Ég vildi því í þessu sambandi benda á þennan möguleika. Og mér virðist málið horfa þannig við, að engan veginn væri loku fyrir það skotið, að samningar á milli ríkisstj. og eiganda þessara véla gætu tekizt um notkun á þessum vélum, sem þarna eru tiltækar, — en eigandinn er Óskar Halldórsson útgerðarmaður, — hvort sem væri á þeim grundvelli, að ríkið fengi þær keyptar, eða hins vegar, að félagsskapur gæti myndazt á milli ríkisins og Óskars Halldórssonar um, að verksmiðjunni yrði komið upp af sameiginlegum kostnaði þessara aðila og þá rekin í sömu hlutföllum. Það er a. m. k. þess vert, að þessi möguleiki verði athugaður gaumgæfilega, svo framarlega sem Alþ. vill sinna þessu máli, sem ég geri fastlega ráð fyrir, að það muni vilja gera.

Þá þykir mér rétt að gera hér grein fyrir því, sem reyndar er vikið að í grg. frv., hvers vegna ég hef valið verksmiðjunni stað á Akranesi. Akranes liggur alveg sérstaklega vel við veiðisvæðunum, sem síldin hefur haldið sig á hér, bæði á síðasta vetri og það, sem af er þessum vetri. Og má reyndar segja, að þannig sé það, hvar sem síldveiðar mundu verða hafnar hér við Faxaflóa. Í öðru lagi er mjög mikið landrými, sem er tiltækt á Akranesi rétt við bryggjurnar og hafnarstæðið, sem mundi verða tiltækt til að reisa á slíkar verksmiðjur. Enn fremur má geta þess, að Akranes hefur nú fengið mikla raforku, og miklu meiri raforku heldur en nokkurs staðar er annars staðar fyrir hendi hér við Faxaflóa, þar sem komið gæti til mála að reisa slíkar verksmiðjur. Andakílsárvirkjunin hefur nýlega hafið sína starfsemi. Og það tekur eðlilega nokkurn tíma að geta hagnýtt þetta mikla rafmagn, sem þar er framleitt, 5000 hestöfl. En nú er frá þessari virkjun aðeins leitt rafmagn til Akraness, Borgarness og Hvanneyrar. Þarna mun því fyrir hendi betri og traustari úrlausn viðkomandi rekstrarorku fyrir slíka verksmiðju heldur en nokkurs staðar annars staðar er hægt að benda á við Faxaflóa nú sem stendur, og er það mikilsvert atriði í þessu máli. — Þá hefur hafnargerð á Akranesi skilað mjög vel áfram síðustu árin. og ráðgert er að halda áfram við þessa hafnargerð og eru allmiklar framkvæmdir í því efni fyrirhugaðar á næsta sumri. Og á Akranesi er miklu hagkvæmari aðstaða til slíkra framkvæmda heldur en nú er fyrir hendi annars staðar við Faxaflóa, sem á rót sína að rekja til þess, að til þessa staðar voru keypt á síðasta ári 4 steinker frá Englandi, sem alveg sérstaklega vel henta til hafnargerðarinnar. Það er búið að setja niður eitt af þessum kerum, og annað var undirbúið til niðursetningar á s. l. sumri, en ekki tókst sökum fádæma veðra og storma síðari hluta sumars að sökkva kerinu. Það er aðeins eftir að sökkva kerinu og tekur það stuttan tíma með þeim undirbúningi, sem gerður hefur verið í því efni. Eru þá hin 2 kerin eftir ónotuð, sem mundi vegna staðhátta verða tiltölulega fljótlegt og ódýrt að taka til notkunar í slíku augnamiði. Hvað hafnarskilyrði snertir, mundi því væntanlega verða svo ástatt á Akranesi næsta haust, að ekki mundu betri skilyrði, hvað það snertir, vera fyrir hendi annars staðar hér við Faxaflóa.

Með tilliti til þessa alls hef ég nú valið þennan stað fyrir verksmiðjuna, af því að mér virðist, að ekki séu fyrir hendi nú aðstæður annars staðar, þar sem hægt væri að koma verksmiðju hér við Faxaflóa fyrir með ódýrari hætti heldur en á Akranesi er nú, eins og allt er í haginn búið.

Ég leitaði mér upplýsinga um það, áður en ég flutti þetta frv., hvaða líkindi væru til, að mundi nú kosta að koma upp slíkri verksmiðju sem þessari og talaði við menn, sem eru kunnugir þessum málum. Þeim gafst ekki tími. þessum mönnum, til að gera um það neinar áætlanir og þess vegna eru tölurnar, sem ég hef tekið hér upp í grg. um kostnaðinn við að reisa þessa verksmiðju, ágizkun um þetta, sem þó styðst við nokkurn raunveruleika að dómi kunnugra manna. Gerðu þeir ráð fyrir, að slík verksmiðja mundi kosta 7 til 10 millj. kr. eftir því, hve mikið yrði í borið um þær byggingar. sem nauðsynlegt er að koma upp í sambandi við verksmiðjuna. Og með tilliti til þess, hve aðstaðan á Akranesi er alveg sérstaklega hagstæð um að koma upp slíkri verksmiðju og byggingum, sem nauðsynlegar eru í sambandi við hana. þá hef ég tekið upp í frv. þessa tölu, sem hér er 8 millj. kr. En sú tala er miðuð við þær aðstæður, sem þarna eru fyrir hendi um húsbyggingar og byggingu tanka til lýsisgeymslu, og með tilliti til annars, sem þar að lýtur. Það má náttúrlega sjálfsagt deila um það, hvort þessi upphæð nægi eða ekki. Það er svo algengur hlutur — meira að segja þó að nákvæmari áætlanir hafi verið gerðar heldur en í þessu sambandi —, að oft hefur borið út af því, að þær hafi staðizt í framkvæmdinni.

Mér þykir svo ekki ástæða til á þessu stigi málsins að fara fleiri orðum um þetta frv. hér. En eins og getið er um í grg. frv., þá getur það ekki orkað tvímælis, að hér er nauðsyn fyrir hendi um það að búa þannig í haginn, að þessi mikli aflafengur, sem hér hefur borizt upp í hendur okkar, verði hagnýttur til hins ýtrasta. Síldarafurðir, bæði lýsið og síldarmjölið, eru nú þær framleiðsluvörur okkar Íslendinga, sem eru langsamlega mest eftirsóttar á heimsmarkaðinum. og hægt er að selja þær fyrir mjög hátt verð. Um aðrar afurðir, sem framleiddar eru hér til sölu á erlendum markaði, stendur þannig á, að hvað þetta snertir er allt öðru máli að gegna um þær, eins og reynslan frá þessu ári ber ljósast vitni. Og meira að segja er það svo, að til þess að geta rekið bæði þorskveiðar og aðrar framleiðslugreinar, sem byggðar eru á sölu á erlendum markaði, þá hefur orðið að grípa til þess sem hjálparmeðals í þessu sambandi að nota þá alveg sérstöku aðstöðu, sem er um sölu á síldarlýsi nú á erlendum markaði. — Og með tilliti til þessa alls verðum við að kappkosta — og klífa til þess þrítugan hamarinn — að geta notað til fulls þann mikla aflafeng, sem nú er hér uppi við landsteinana hjá okkur, og gera þær ráðstafanir eins fljótt og hægt er, sem á okkar valdi eru og nauðsynlegar eru til þess, að þessi hagnýting verði sem allra bezt.

Það hefur komið í ljós í sambandi við herpinótaveiðarnar hér nú og líka á s. l. vertíð, að ýmsa erfiðleika, sem eiga rót sína að rekja til þess, að þetta er alveg nýtt viðfangsefni, er við að eiga fyrir sjómenn vora. Þær nætur, sem notaðar hafa verið við þessar veiðar, eru allar miðaðar við Norðurlandsveiði á hafi úti. Þess vegna er það allmiklum vandkvæðum bundið, hvað dýpt þeirra nóta snertir eða stærð þeirra, að hagnýta þær hér. Auk þess hefur reynslan sýnt, að möskvastærðin, sem notuð hefur verið við þessar nætur, þénar ekki við þessar veiðar hér við Faxaflóa. Síldin, sem hér veiðist, er miklu misjafnari að stærð og fitu en Norðurlandssíldin. Sumt af henni fullgildir síldinni, sem veiðist við Norðurland, að stærð og fitu, en aftur er mikið af smærri síld innan um í Faxaflóa. Og þetta veldur því, að þessi smærri síld ánetjast og festir sig í möskvunum, og það gerir nótina þyngri og erfiðari í meðförum, og auk þess verður það þess valdandi, að síldarnæturnar rifna, af þessum sökum og mun minna af síldinni veiðist. Þess vegna stendur þetta allt til bóta, og það er alveg fullvíst, að sú reynsla sem fékkst af þessari veiði, bæði á s. l. vertíð og nú, verður nægur skóli fyrir fiskimenn til þess að þeir verði útbúnir með það á næstu síldarvertíð að hausti að hafa tiltæk þau veiðarfæri, sem þéna fyrir þessar veiðar. En af þessum sökum, að veiðarfæri eru ekki þénug, hefur stundum tapazt mikill afli. T. d. er það algengt nú síðustu daga, að af bátaflotanum á Akranesi hafa 2–4 bátar komið heim daglega með rifnar nætur, og þar af leiðandi hafa þeir farið á mis við alla veiði, og það tekur ávallt nokkurn tíma að fá gert við næturnar og gera þær tiltækar til veiða aftur. En þetta eru barnasjúkdómar, sem hér hafa komið í ljós og glöggir og athugulir sjómenn verða fljótir að ráða bót á, svoleiðis að þegar þriðja síldveiðitímabilið hefst hér við Faxaflóa, þá verður búið að yfirstíga þá erfiðleika, sem stafa af þessum sökum. En aðalatriðið í þessu máli er vitanlega það, að þá geti einnig orðið tiltæk hér við Faxaflóa verksmiðja, sem að stærð og gerð er þannig úr garði gerð, að hún geti tekið á móti miklu af þessum veiðifeng, og þá verði búið að koma hér fyrir löndunartækjum, sem flýta fyrir um afgreiðslu skipanna, svo að frátafir frá veiðinni verði sem allra minnstar. Þá hefur það og komið í ljós við hagnýtingu á þessum afla hér við Faxaflóa á þessum tíma, að það er hægt að geyma síldina miklu lengur í þróm heldur en nokkur tök eru á að gera að sumarlagi. Reynsla, sem fengizt hefur á Akranesi í þessum efnum, hefur sýnt það, að það er hægt að geyma síldina upp í hálfan mánuð eða jafnvel lengur, kannske 3 vikur, án þess að nokkurt lýsi renni úr síldinni, og þetta stafar sjálfsagt að mestu leyti af því, að á þessum tíma er ekki jafnheitt í veðri eins og að sumarlagi, og svo er líka talað um, að þessi síld muni halda betur fitu við geymslu heldur en sú síld, sem veidd er fyrir Norðurlandi. Um þetta skal ég ekki dæma, en hitt gefur auga leið að kaldara veðurfar mun að sjálfsögðu eiga sinn þátt í því, að öruggara er að geyma síldina nú á þessum tíma heldur en að sumarlagi, en þetta er vitanlega stór liður í því að geta geymt um langan tíma mikið af síld í þróm, án þess að það valdi nokkrum erfiðleikum við bræðsluna, og þetta leiðir vitanlega til þess, að hægt er að komast af með minni vinnsluafköst til þess að bræða mikið síldarmagn. Að þessu leyti er þá aðstaðan hér við Faxaflóa á þessum tíma hagstæðari heldur en er um að ræða á Norðurlandi að sumrinu til.

Mér skilst, að samkvæmt eðli sínu gætt þetta mál heyrt undir starfsvið sjútvn., og það gerir það vissulega, en með tilliti til þess, að hér er um svo stórt fjárspursmál að ræða, sem er sá stofnkostnaður, sem gert er ráð fyrir, að notaður verði samkv. þessu frv., þá tel ég réttara að gera um það till., að þessu máli verði vísað til fjhn., og geri ég það að minni till., að málinu verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.