24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Halldór Ásgrímsson:

Það er vafalaust rétt, sem hv. flm. þessa máls hélt fram að ef það sýnir sig, að vænta megi síldveiða jafnmikilla á næstu árum eins og nú á sér stað við Faxaflóa, þá táknar það mikil tímamót í síldveiðisögu okkar. Það er líka rétt hjá hv. flm., að það ber að gera allt, sem unnt er til þess að greiða fyrir og gera sem mest verðmæti úr þeim síldarafla, sem hægt er að veiða hér við land, hvar sem er og á hvaða tíma sem er. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að reist sé fyrir lok næsta hausts síldarverksmiðja hér við Faxaflóa, og við því er ekkert að segja nema gott, ef það virtist geta látið sig gera. Eins og þingheimi er kunnugt, var á s. l. vori samþ. að reisa síldarverksmiðju við Norðausturland, og skyldi þeirri framkvæmd lokið á árinu 1948. Mun það jafnframt kunnugt, að það hefur ekki verið gert neitt teljandi í því máli og standa því varla björtustu vonir til þess, að þeirri verksmiðjubyggingu verði lokið á tilsettum tíma. Mér virðist ekki koma til mála, að þessi verksmiðja verði reist fyrir þann tíma, sem gert er ráð fyrir, nema því aðeins að þeirri verksmiðjubyggingu, sem ákveðið er með l., að byggð verði á Norðausturlandi á árinu 1948, verði fyrst lokið.

Ef litið er á það, hver aðstaðan er hér við Faxaflóa, þá verður því ekki neitað, að það er ekki eins og æskilegt væri að losa sig við aflann, en þó vitum við, að það er ekki alls varnað í því efni að stunda þessar veiðar. Eins og hv. flm. gat um, þá eru nú þegar á döfinni eða byrjað að nota verksmiðjur til að bræða síld og eins eru á döfinni nokkrar aðrar smærri verksmiðjur, sem að vísu er ætlað annað hlutverk, og þess vegna má vera, að þær geti ekki innt það verk af höndum, sem þurfa þætti í sambandi við bræðslu þessarar síldar, ef veiði heldur áfram löngu eftir áramót. Nú er ég ekki dómbær um það efni, en ég hef heyrt talað um fleiri leiðir til lausnar þessu máli heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég skýt því fram til athugunar, að ég hef heyrt, að sumir telji, að sameina megi aðstöðu til síldarbræðslu við væntanlega hvalveiðistöð í Hvalfirði, og álít ég það mjög athugaverða till., og væri gott að fá úr því skorið, áður en lengra er farið, hvort slíkt geti staðizt. Hvað sem heppilegast verður talið í þessu máli, þá vil ég þó undirstrika það, að það virðist þýðingarlítið að ætla sér að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir, af þeim ástæðum, sem ég gat um. Það mundi að mínum dómi þýða lögbrot, ef gengið væri fram hjá því að byggja verksmiðju á Norðausturlandi og henni vikið til hliðar fyrir slíkri verksmiðju, sem nú er ætlazt til, að samþykkt verði l. um.

Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að fjölyrða mikið um þetta mál á þessu stigi. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ég vil einnig vekja athygli á því, að mér finnst einkennilegt, að það skuli koma fram till. um að vísa málinu til fjhn., því að eins og hv. flm. gat um, hefur það verið venja, að slíkum málum sem þessu sé vísað til sjútvn., og þar virðist það eiga heima, og ég gæti treyst þeirri n. til að afgreiða þetta mál svipað og hún lagði til, þegar síldarverksmiðjumálið fyrir Norðausturland var til umr. í fyrra. Þá lagði hún til að byggingin yrði samþ. þannig, að það yrði ekki tiltekið, hvenær verksmiðjan yrði byggð. Sú till. var studd af hv. flm. þessa frv., og ég gæti trúað því, að hann gæti fylgt þeirri sömu reglu við þessa verksmiðju, sem hann flytur nú till. um.