24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Flm. (Pétur Ottesen):

Það var alveg nauðsynlegt, að þetta kæmi skýrt fram, því að ef svo hefði mátt skilja, að meiningin væri sú, að Reykjavíkurbær leysti þetta mál án —afskipta Alþ., þá hefði það orðið til þess að draga úr áhuga þm. fyrir því að láta ríkisvaldið beita sér fyrir lausn málsins. Nú er skýrt tekið fram, að ríkissjóður eigi að vera hér aðili, og dregur þetta því engan veginn úr mikilvægi þess, að málið verði leyst hér á Alþ. Hins vegar gaf ég ekki til kynna, að ríkið eitt ætti að reisa þessa verksmiðju, því að í framsöguræðu minni gat ég þess, að Óskar Halldórsson ætti vélar í verksmiðju sem þessa og gerði ráð fyrir, að hann gæti tekið þátt í að reisa verksmiðjuna, og ekkert er í frv., sem mælir því í gegn, að fleiri aðilar sameinist um lausn þessa máls, svo að þetta fellur vel saman og ætti ekki að þurfa að valda ágreiningi. En aðalrannsóknaratriðið virðist vera eftir ræðum hv. þm. að finna verksmiðjunni stað. Staðurinn verður ákveðinn, þegar ákveðið hefur verið að reisa verksmiðjuna, og eftir það ætti staðarvalið aldrei að tefja málið mikið, en í þessu atriði hef ég gert mína ákveðnu till.